Sumarhúsabyggð í Grímsnesi. Oft standa sum sumarhús lítið notuð langtímum saman, segir Pétur Óskarsson.
Sumarhúsabyggð í Grímsnesi. Oft standa sum sumarhús lítið notuð langtímum saman, segir Pétur Óskarsson. — Morgunblaðið/Kristinn Benediktss.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Markmiðið er að nýta áður ónýtta auðlind ferðaþjónustunni í landinu til framdráttar. Magnús Sigurðsson ræddi við Pétur Óskarsson, framkvæmdastjóra Viator ehf., sem leigir út sumarhús á Íslandi til útlendinga.

Á rið 2002 stofnuðu Bjarnheiður Hallsdóttir og Pétur Óskarsson, eigendur Katla Travel Gmbh í München, sumarhúsamiðlunina Viator ehf. í þeim tilgangi að gera samstarfssamninga við íslenska sumarhúsaeigendur um útleigu á sumarhúsum þeirra til útlendinga. Viator hefur nú starfað í þrjú ár, en þetta er fyrirtæki með ferðaskrifstofuleyfi frá samgönguráðuneytinu.

Viator gerir ótímabundið rammasamkomulag við eiganda sumarhúss, þar sem hann skuldbindur sig til þess að leigja ekki sumarhúsið sitt eftir öðrum leiðum meðan á samstarfinu stendur. Eigandinn fær greidda húsaleigu en einungis fyrir þau tímabil sem tekst að leigja húsið út. Ef húsið er ekki í útleigu er honum að sjálfsögðu heimilt að nota það sjálfur. Eigandinn getur líka lokað fyrir fyrirfram ákveðin tímabil vegna eigin nota. Í ágústmánuði ár hvert er verðið fyrir næsta ár ákveðið og eigandinn tekur afstöðu til þess hvort hann vill halda samstarfinu áfram.

Ef sumarhús er selt eftir að bókanir eru teknar að berast, ber eigandanum skylda til að láta þær útleigur sem komnar eru fylgja með húsinu við sölu, en eigandinn ber ábyrgð á því að staðið verði við útleiguna gagnvart erlendu gestunum.

Nýir markhópar til landsins

Þetta kom fram í viðtali við Pétur Óskarsson, framkvæmdastjóra Viator. "Markmiðið er að nýta áður ónýtta auðlind ferðaþjónustunni í landinu til framdráttar," segir hann. "Þjóðhagslegur ávinningur af starfsemi okkar liggur annars vegar í því að við erum að nýta gistiaðstöðu sem áður stóð ónotuð og hinsvegar í því að við erum með okkar þjónustu að fá nýja markhópa til landsins sem annars kæmu ekki til Íslands. Einnig stuðlum við að eflingu ferðaþjónustu á landsbyggðinni, oft á svæðum sem eiga á brattann að sækja."

Pétur segir, að vöxturinn í þessari starfsemi sýni, að áhuginn og eftirspurnin er mikil og bætir við: "Það er sérstaklega ánægjulegt að sjá að við erum að fá fjölskyldufólk til landsins og fólk sem vill stoppa lengi á hverjum stað. Það er gott fyrir þau svæði þar sem sumarhúsin okkar eru staðsett en erlendir sumarhúsagestir eyða miklu í þá afþreyingu sem í boði er á hverjum stað."

Sumarhús hér á landi eru nú vel yfir 10.000 og fer fjölgandi. Pétur kveðst telja, að út frá þessum fjölda megi gera ráð fyrir að heildareign landsmanna í sumarhúsum sé í krónum talin á bilinu 60 til 70 milljarðar kr.

"Flest þessi hús eru að fullu greidd og skuldlaus enda ekki nema örfá misseri síðan bankakerfið fór að taka veð í sumarhúsum til kaupa á slíkum húsum eða lána eigendum til framkvæmda við þau," segir Pétur og bendir á, að samkvæmt könnun Gallup fyrir Ferðamálaráð um ferðavenjur Íslendinga árið 2003 dvelja þeir sem hafa aðgang að sumarhúsi að meðaltali 17,4 nætur á ári í sumarhúsinu. Þessar upplýsingar eru í samræmi við upplýsingar frá eftirlitsfólki sumarhúsabyggða sem staðfesta að nýtingin á sumarhúsum landsmanna í einkaeign er í raun ótrúlega lítil.

"Ástæðan fyrir stofnun Viator var niðurstaða vinnu við að greina nýja markhópa til Íslandsferða á þýska ferðamarkaðinum," segir Pétur. "Ljóst var á þeim tíma að stórir hópar Þjóðverja tengdu orlofsdvöl á Norðurlöndum við dvöl í sumarhúsum og þekktu það frá Danmörku, Svíþjóð og Noregi. Þetta er einkum fjölskyldufólk og fólk sem kýs að dvelja ekki á hótelum eða gistiheimilum þegar það fer í frí.

En fyrirmyndin að stofnun Viator ehf. var danska fyrirtækið Dansommer a/s sem lagði Viator til þá þekkingu sem þurfti til þess að ýta starfseminni úr vör hér á landi."

Bókunarvél á netinu

Öll starfsemi Viator ehf. fer fram á netinu. "Fyrirtækið rekur mjög öfluga bókunarvél fyrir neytendur og endursöluaðila sem sumarhúsaeigendurnir hafa aðgang að," segir Pétur. "Þannig getur sumarhúsaeigandinn sjálfur fylgst með útleigu á húsinu sínu og fylgst með greiðslustreymi til sín, en leigan er greidd út til eigandans mánaðarlega. Í árslok gerir kerfið yfirlit fyrir hvern eiganda sem um leið er reikningur frá eigandanum til Viator ehf. fyrir útleigu ársins."

Pétur segir, að sumarhúsaeigendur fái gjarnan á bilinu 150.000-400.000 kr. yfir sumarið í leigu fyrir hús sín til Viator, en eigendurnir greiða fyrir rafmagn og hita. Viator leggur síðan sína þóknun ofan á þessa leigu og greiðir jafnframt af þóknuninni sölulaun til söluaðila, sem eru erlendar ferðaskrifstofur.

Tæplega 30 ferðaheildsölufyrirtæki austanhafs og vestan bjóða sumarhús Viator til útleigu. Samstarfið er á mismunandi stigi allt frá því að á heimasíðu fyrirtækjana er tengill yfir á bókunarvél Viator yfir í það að fyrirtækin velja sér ákveðin hús, sem þau leigja allt sumarið og setja í sína bæklinga. "Ferðaheildsölufyrirtækin hafa beinan aðgang að bókunarvélinni og hafa þar góða yfirsýn yfir sín viðskipti við Viator ehf.," segir Pétur. "Neytendur geta líka bókað sumarhúsin beint á www.viator.is og hefur sú dreifileið vaxið hratt í ferðaþjónustunni á undanförnum árum.

Flöskuhálsinn í starfsemi Viator ehf. í dag er ekki að finna á eftirspurnarhliðinni," heldur Pétur áfram. "Sölumálin eru í mjög góðu horfi og eftirspurnin er góð og vaxandi. Það hefur hins vegar verið erfitt að fá sumarhúsaeigendur á Íslandi til þess að leigja út sumarhúsin sín. Það er ekki hefð fyrir útleigu á sumarhúsum í einkaeign hér á landi og að byggja upp nægilegan sumarhúsafjölda til þess að anna eftirspurninni allt árið virðist ætla að taka langan tíma.

Reynslan hjá Viator ehf. hefur sýnt að nýir eigendur bætast sjaldnast í hópinn vegna auglýsinga eða umfjöllunar í fjölmiðlum. Nýju eigendurnir koma fyrst og fremst til Viator vegna meðmæla frá vinum, nágrönnum eða ættingjum sem eru þegar með húsin sín í Viator kerfinu. En upplýsingar fyrir áhugasama eigendur er að finna á www.viator.is/eigendur."