VERKTAKAR á Austurlandi eru enn nokkuð hikandi varðandi byggingu á íbúðarhúsnæði. Þetta kom fram á fundi sem Alcoa Fjarðaál hélt með byggingaverktökum og fasteignasölum á Austurlandi í gær. "Fundurinn var mjög góður og fjölmennur," segir Erna Indriðadóttir, verkefnisstjóri kynningarmála hjá Alcoa Fjarðaáli. Farið hafi verið yfir hvaðan búist er við að umsækjendur komi og hvar þeir vilji hugsanlega setjast að. "Það er miðað við að menn vilji ekki aka mikið lengur en hálftíma til og frá vinnu og þá eru það þéttbýlisstaðirnir í þessum "tímaradíus" sem reiknað er með að menn vilji búa á." Fram kom á fundinum að verktakar eru enn nokkuð hikandi og kanna verð m.t.t. þess. Fólk að sunnan búist ekki við sama fasteignaverði eystra og í Reykjavík, en verktakar bendi á að byggingakostnaður sé sá sami, hvar sem byggt sé.
Hátt í 650 nýjar íbúðir
Þá kom fram á fundinum að Leiguíbúðir í Fjarðabyggð ætla að byggja 400 íbúðir á Reyðarfirði og ýmsir verktakar, þ.á m. Íslenskir aðalverktakar og Trésmíðaverkstæði Sveins Heiðars ehf. á Akureyri eru með heil hverfi á teikniborðinu.Eyjólfur Gunnarsson, framkvæmdastjóri sölu- og markaðssviðs ÍAV, segir fyrirtækið nú eiga lóðir undir um 150 íbúðir á Reyðarfirði. "Skipulagið gerir ráð fyrir 55 einbýlishúsum, 44 íbúðum í rað- og parhúsum og 52 íbúðum í fjölbýlishúsum. Við erum að vinna að þessum málum." ÍAV byggja einnig Lagarfossvirkjun, frystigeymslu fyrir Síldarvinnsluna í Neskaupstað, sundlaug á Eskifirði og nýtt íbúðahverfi í Votahvammi á Egilsstöðum, en þar er gert ráð fyrir rúmlega 120 íbúðum; 10 einbýlishúsum, 41 íbúð í rað- og parhúsum og 72 íbúðum.
Sveinn Heiðar Jónsson segir sitt fyrirtæki ætla að byggja um 90 íbúðir á Reyðarfirði. "Mest af þessu eru þriggja og fjögurra herbergja íbúðir, parhússíbúðir með bílskúr og einbýlishús. Við eigum lóðir undir a.m.k. 12 einbýlishús og ætlum að byggja þetta allt á Búðamelnum. Við erum búnir að byggja og afhenda 15 íbúðir og erum að ráðgera að selja 10 í viðbót. Grunnur er tilbúinn að fyrsta parhúsinu og við erum klárir að framleiða um eða yfir 30 hús á næstunni. Við framleiðum skv. eftirspurn og höfum haft nokkuð jafnan hraða á þessu frá því við byrjuðum að byggja þarna fyrir rúmu ári." Sveinn Heiðar segir að á Egilsstöðum sé verið að undirbúa lóðir og teikna 30 íbúðir í Bjarkarseli.