Gísli Gíslason
Gísli Gíslason
Gísli Gíslason fjallar um aldur dómara á Íslandi: "Það er full þörf á því að yngja upp í dómarastétt á Íslandi."
MARGIR mikilvægir áfangar í jafnréttisbaráttu feðra og mannréttindum barna hafa orðið til eftir að Hæstiréttur hefur fellt dóma þar sem gildandi lög og reglugerðir eru dæmd ómerk eða þau brotið í bága við alþjóðlega samninga sem Ísland er aðili að. Því miður hafa á undanförnu fallið dómar sem benda til þess að dómarar túlki lög með gamaldags hætti.

Dómar

Lög nr 60/1972 skilgreina fyrst rétt fráskilinna feðra til að umgangast börn sín eftir skilnað. Feður, sem eignuðust börn utan hjónabands eða í óvígðri sambúð, höfðu engan lagalegan rétt til að umgangast börn sín. Árið 1979 staðfesti Hæstiréttur að lagaheimild skorti til að veita föður sem hafði verið í óvígðri sambúð, sjálfstæðan rétt til umgengni við barn sitt eftir skilnað, gegn vilja móður. Í barnalögum frá árinu 1981 var fyrst lögfest almennt ákvæði um umgengnisrétt forsjárlauss foreldris við börn sín. Feðrum bar ávallt eftir sem áður að greiða barnsmóðurinni meðlag, óháð því hvort þeir fengju nokkrar samvistir við börnin.

Árið 1998 dæmir Hæstiréttur (208/1997) að ríkið skuli veita karlkyns starfsmanni sínum sambærilegan rétt og kvenkyns starfsmönnum til fæðingarorlofs. Í framhaldinu voru sett fyrstu lög á Íslandi sem tryggja sjálfstæðan rétt feðra til fæðingarorlofs. Það má færa rök fyrir því að þessi lög séu einn mikilvægasti lagabálkur til jafnréttis fyrir kynin og ekki síður fyrir jafnrétti kvenna á vinnumarkaði.

Af hæstaréttardómi 419/200 leiddi að í nýjum barnalögum er fyrst opnaður möguleiki fyrir feður að höfða faðernismál. Það er með ólíkindum að fyrst á þessari öld fengu feður þann rétt. Þessi réttur er þó enn bundinn við það að móðir hafi ekki feðrað barnið.

Fram að síðustu aldamótum ollu margir dómar Hæstaréttar þáttaskilum í réttindabaráttu feðra og barna. Nú er öldin önnur og dómstólar landsins túlka gjarnan lög með gamaldags hætti.

Nýfallnir dómar

Á síðasta ári féll dómur í Hæstarétti þar sem barni á unglingsaldri var beinlínis gert að flytja frá föður til móður sinnar gegn vilja barnsins. Þetta stríðir gegn hinni almennu réttarþróun að taka beri meira tillit til vilja barna, ekki síst ef um eldri börn er að ræða. Hæstiréttur dæmdi einnig á síðasta ári móður bráðabirgðaforsjá þrátt fyrir að faðir hafði verið heimavinnandi fyrir skilnað. Dómurinn kórónaði svo ranglætið með því að dæma föður minni umgengni en móðir bauð í sókn málsins. Hér eimir af því viðhorfi að of mikil umgengni við forsjárlausa foreldrið sé skaðleg fyrir börn og að börn eigi að vera hjá mæðrum en ekki feðrum sínum. Nú fór sama mál fyrir héraðsdóm til endanlegrar forsjárákvörðunar. Þar var forsjá móður staðfest, enda sagt að börnin væru það ung að þau þyrftu meir á móður að halda en föður. Börn eru 6 og 8 ára! Í umræddu máli eru góðar tekjur móður notaðar sem rök fyrir því að hún standi betur að vígi. Aldrei eru slík rök notuð í dómum fyrir feður, jafnvel þó foreldrar standi jafnt að öðru leyti. Dómurinn staðfesti einnig að börn skyldu alltaf vera hjá móður á aðfangadegi jóla til 18 ára aldurs! Hvar er nú réttlætið í svona löguðu? Því miður eru engar líkur á að Hæstiréttur breyti neinu hér um.

Hæstiréttur hefur nýverið dæmt móður forsjá jafnvel, þó að hún setji fram ákveðnar hömlur eða skilyrði fyrir umgengni við föður, en foreldrar voru metnir jafnhæfir. Dómarar hafa ítrekað gefið til kynna að börn þurfi meir á móður að halda. Karlmönnum á Íslandi er stórlega mismunað á grundvelli kynferðis í mörgum dómum Hæstaréttar og héraðsdóms.

Aldur dómara og embættismanna

Félag forsjárlausra foreldra í Noregi (Foreningen 2 forældrer) hefur lýst yfir áhyggjum af því að nær allir dómarar þar í landi eru 45 ára og eldri. Félagið í Noregi skoraði á yfirvöld að fjölga yngra fólki í dómarastétt. Félagið hefur bent á að viðhorf til sifjamála sé mjög kynslóðabundið, þannig hafi ungt fólk annað viðhorf til þessara mála heldur en eldra fólk. Hið sama gildir hér á landi.

Af 9 hæstaréttardómurum á Íslandi eru 7 dómarar að nálgast sextugt eða eldri, Einn dómari er 44 ára og annar 51 ára. Af þessum 9 dómurum hæstaréttar eru 7 karlmenn og 2 konur. Uppistaðan í Hæstarétti eru því dómarar sem eru á sínum síðasta áratug á vinnumarkaði. Undarlegir dómar síðustu misseri styðja þá skoðun félagsins, að hér á landi, ekki síður en í Noregi, er full þörf á að yngja upp í dómarastétt. Sömu rök má færa fyrir allri ráðningu í lykilstöður hjá hinu opinbera í málefnum sem fjalla um sifjamál. Hagsmunir barnanna okkar eru í húfi og þeirra framtíð. Þetta er einnig mikið jafnréttismál að kynin séu meðhöndluð jafnt af dómstólum. Foreldrajafnrétti leiðir til launajafnréttis.

Höfundur er markaðsstjóri og formaður Félags ábyrgra feðra.