Hrafn Tulinius
Hrafn Tulinius
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Hrafn Tulinius og Þórarinn Guðjónsson fjalla um Samtök um krabbameinsrannsóknir á Íslandi í tilefni af tíu ára afmæli þeirra: "Samþjöppun hugvits og þverfagleg nálgun mun auka sóknarfæri íslenskra vísindamanna."
Á ÁRINU 2005 eru 10 ár liðin síðan Samtök um krabbameinsrannsóknir á Íslandi, SKÍ, voru stofnuð. Upphaf samtakanna má rekja til umræðu sem átti sér stað á árunum 1993 og 1994. Þá var bent á að æskilegt væri að vísindamenn í krabbameinsfræðum á Íslandi sameinuðust undir einni stofnun, Krabbameinsstofnun Íslands. Hugmyndin kom frá dr. Snorra Þorgeirssyni sem starfað hefur um áratugaskeið sem yfirmaður einnar deildar Bandarísku krabbameinsstofnunarinnar. Tilgangurinn með Krabbameinsstofnun Íslands átti að vera að sameina krabbameinsrannsóknir á Íslandi undir einu þaki og auka þannig samlegðaráhrif og slagkraft þeirra. Því miður varð ekkert úr því að stofnunin yrði sett á laggirnar en upp úr umræðunni spratt hugmyndin að samtökum um krabbameinsrannsóknir á Íslandi.

Samtökin voru síðan stofnuð á fjölmennum fundi á Hótel Loftleiðum í janúar 1995. Frá upphafi hefur verið lögð áhersla á að í stjórn samtakanna sitji aðilar sem koma að krabbameinsrannsóknum frá mismunandi sjónarhornum, þ.e. krabbameinslæknar, faraldsfræðingar, líffræðingar, hjúkrunarfræðingar og lífeindafræðingar, auk fulltrúa þeirra líftæknifyrirtækja sem stunda krabbameinsrannsóknir á Íslandi.

Meginhlutverk samtakanna er að efla þverfaglega umræðu um krabbameinsrannsóknir á Íslandi, m.a. með málþingum og ráðstefnum. Auk þess að kynna rannsóknir íslenskra vísindamanna hefur það verið markmið SKÍ frá upphafi að fá til Íslands erlenda fyrirlesara sem eru leiðandi vísindamenn í heiminum á sviði krabbameinsrannsókna. Jafnframt hafa samtökin með góðum stuðningi styrktaraðilanna GlaxoSmithKline og Pfizer styrkt unga og efnilega vísindamenn til þátttöku á erlendum ráðstefnum og/eða til að sækja sér aukna þekkingu á erlendar rannsóknastofur. Einnig ber að nefna að Krabbameinsfélag Íslands hefur stutt dyggilega við bakið á samtökunum frá upphafi.

Þegar litið er um öxl og starfsemi SKÍ skoðuð má sjá að samtökin hafa verið einn helsti vettvangur vísindalegrar umræðu um krabbamein og krabbameinsrannsóknir á Íslandi síðasta áratug. Yfir 100 erindi á 30 málþingum hafa verið haldin auk nokkurra stærri ráðstefna. Ýmsir heimsþekktir vísindamenn hafa fært okkur þekkinguna hingað heim. SKÍ hefur einnig veitt ferðastyrki til fjölda ungra vísindamanna.

Fjölgun krabbameinssjúklinga

Það er enginn vafi á því að verulegur árangur hefur náðst í meðhöndlun ýmissa krabbameina og horfur sjúklinga sem greinast með krabbamein hafa batnað mikið. Fjöldi þeirra sem greinast með krabbamein eykst frá ári til árs og svo mun verða áfram á næstu árum og áratugum. Aukinn fjöldi greindra tilfella stafar ekki síst af því að fólk verður mun eldra en áður og sjúklingar með krabbamein eru farnir að lifa mun lengur með sjúkdóminn en áður fyrr. Það er því ljóst að mikil þörf verður á eflingu rannsókna á krabbameinum þar sem enn skortir á þekkingu um orsakir þeirra.

Framtíð krabbameinsrannsókna

Íslenskir vísindamenn hafa náð mörgum merkum áföngum í krabbameinsrannsóknum, sem sést best á fjölda þeirra ritrýndu vísindagreina sem birtar hafa verið eftir íslenska vísindamenn í alþjóðlegum vísindaritum. Nú eru hins vegar blikur á lofti þar sem krabbameinsrannsóknir á Íslandi hafa átt erfitt uppdráttar undanfarin misseri vegna fjárskorts. Á aðalfundi Krabbameinsfélags Íslands vorið 2005 var samþykkt að ef ekki tækist að semja um flutning reksturs Rannsóknastofu í sameinda- og frumulíffræði til annarra aðila yrði rekstri hennar hætt eigi síðar en í árslok 2006. Þessi rannsóknastofa hefur verið einn helsti drifkraftur íslenskra krabbameinsrannsókna síðustu 18 ár og lykilvettvangur fyrir rannsóknatengt framhaldsnám við læknadeild Háskóla Íslands.

Er ekki orðið tímabært að láta drauminn um Krabbameinsstofnun Íslands verða að veruleika í ljósi þess að framundan er bygging hátæknisjúkrahúss og rannsóknaaðstöðu sem á að færa íslenskum vísindamönnum aðstöðu líka því sem best gerist erlendis?

Krabbameinsstofnun Íslands mætti sjá fyrir sér í sama húsnæði og væntanlegt lífvísindasetur. Samþjöppun hugvits og þverfagleg nálgun mun auka sóknarfæri íslenskra vísindamanna í erlent rannsóknafé og efla samstarfsnet við helstu rannsóknamiðstöðvar heimsins í krabbameinsfræðum. Ef slík stofnun yrði að veruleika gæti hún orðið veruleg lyftistöng fyrir Háskóla Íslands og Landspítala - háskólasjúkrahús, auk þess að vera vettvangur fyrir ný sprotafyrirtæki og einnig tenging við líftæknifyrirtækin sem þegar eru til í landinu.

Hrafn er læknir og var fyrsti formaður SKÍ. Þórarinn er frumulíffræðingur og núverandi formaður SKÍ.