Elinborg Jóhanna Björnsdóttir fæddist í Reykjavík 26. febrúar 1954. Hún lést á Landspítala - háskólasjúkrahúsi við Hringbraut 11. janúar síðastliðinn og var útför hennar gerð frá Dómkirkjunni 18. janúar.

Elsku Ella frænka og mín æskuvinkona.

Mig langar að minnast þín í örfáum orðum, þú sem fórst alltof fljótt.

Undanfarna mánuði hef ég fylgst með hetjulegri baráttu þinni við illvígan sjúkdóm sem nú hefur því miður haft betur. Þegar þú varst komin á Grensás hélt ég þér mundi batna með tíð og tíma.

Þegar ég hugsa til baka rifjast upp margar góðar minningar allt frá því við vorum litlar stelpur, oft hjá ömmu þinni og afa á Seljalandi með allskonar brall. Síðan flutti ég norður en þú varst í sveit á sumrin rétt hjá svo við gátum hist öðru hvoru og rætt málin. Minnisstæðast er mér þó þegar þú bjóst á Akureyri og við sátum saman og saumuðum út fram á nætur meðan okkar menn voru að vinna. Alltaf höfum við getað trúað og treyst hvor annarri fyrir öllum okkar leyndarmálum, haft samband í síma og þú duglegri að koma við ef þú varst á ferðinni. Mér þykir svo vænt um símtalið frá þér 30. desember og þá lofaði ég þér að ég skyldi koma suður í janúar og hitta þig sem og ég gerði þótt við gætum ekki talað saman þá vegna þess hve veik þú varst orðin, en ég gat þó kvatt þig.

Okkur finnst lífið oft ósanngjarnt og skiljum ekki tilganginn þegar við missum einhvern sem er okkur kær. Söknuðurinn er mikill. Megi Guð styrkja börnin þín.

Votta ég öllum aðstandendum samúð mína.

Þín vinkona

Sesselja Einarsdóttir (Silla).

"Einn sannur vinur er okkur meir til gleði en þúsund fjandmenn okkur til ama." (Marie Von Ebner-Eschenbach)

Kær frænka mín og vinkona er dáin, langt fyrir aldur fram.

Ég og Ella eins og hún var kölluð vorum fæddar sama ár. Eftir sit ég og spyr mig: Hver er tilgangurinn með þessu jarðlífi? Af hverju hún? Minningarnar koma upp í hugann. Af okkur á Seljalandi hjá móðurafa og ömmu. Við vorum alltaf saman, Ellurnar þrjár, ég, Ella og Elinborg systir og var alltaf gaman hjá okkur. Við fengum að valsa um eins og við vildum, gefa dýrunum með ömmu, fara upp á loft til Bóa frænda eða í kjallarann til Magga og fjölskyldu eða hjálpa Bíbí að búa um dúkkurnar sínar. Mesta fjörið var þegar við fengum allar þrjár að vera í litla hólfinu aftast í Volkswagen-bjöllunni, sem rúmaði ekki nema sæmilega góða ferðatösku, svo ekki höfum við verið háar í loftinu þá.

Minningabrot frá unglingsárunum. Ella var grönn, með ljóst hár og brúna húð, svolítið lík Twiggy. Ég vildi vera eins og hún. Hún var ári á undan í skóla og umgekkst því eldri krakka. Það var svolítið eins og henni lægi lífið á.

Minningabrot frá læknaballi. Við áttum það sameiginlegt að vera báðar læknisfrúr og eiga fjögur börn. Ég dáðist alltaf að henni og var hún mín fyrirmynd að vissu leyti. Ég á ekkert nema góðar minningar um Ellu. Hún var svo björt og falleg með góðan húmor. Hún vildi öllum vel og það var gott að vera nálægt henni. Fyrir nokkrum árum stóð Ella frammi fyrir erfiðustu ákvörðun lífs síns, að fylgja hjarta sínu eða ekki. Hún valdi ástina og sá ekki eftir því.

Kæra vina, ég sakna þín,

ég vildi að þú kæmist aftur til

mín.

En þú ert umvafin ljósi þar,

eins og þú varst reyndar

allstaðar.

Sárt er að horfa á eftir þér,

en ég veit að þú munt muna

eftir mér.

Því þitt hreina hjarta og

bjarta sál,

munu þerra okkar trega tár.

(Sigríður Vigdís Þórðardóttir.)

Megi góður Guð styrkja börnin hennar, eiginmann, foreldra og systkini í þeirra miklu sorg. Elsku Ella mín, þakka þér fyrir allar góðar stundir. Þín verður sárt saknað en minningin um þig mun lifa í hjarta mínu til eilífðar.

Þín

Elinóra Inga (Ellinga).

Það er erfitt að trúa því að elsku Ella frænka mín sé farin frá okkur. Ella frænka var alltaf svo falleg, skemmtileg og frábær kona í alla staði. Það var alltaf svo gott að tala við Ellu frænku og leitaði ég oft til hennar hvort sem það var í gegnum síma, tölvupóst eða hitti hana í eigin persónu. Hún skildi alltaf allt sem lá mér og öðrum á hjarta.

Fyrstu minningar mínar af Ellu okkar eru frá því að ég var pínulítil rófa að koma í heimsókn til Ellu frænku og Arnars í Selvogsgrunninu að leika við Siggu frænku. Ella var nú svo sniðug og kunni alveg að láta okkur gera ýmislegt fyrir sig, annaðhvort að passa strákana eða annast ýmisleg störf í kringum húsið. Ég man alltaf eftir einu tilfelli þegar hún bað okkur frænkurnar um að reyta allan arfann í garðinum og þá ætlaði hún að bjóða okkur í bíó. Mér og Siggu fannst þetta nú alveg frábært boð og reyttum allan arfann fyrir Ellu frænku og fengum bíóferð í staðinn. Ella hefur örugglega hlegið mikið að því að við skyldum taka þessu fína boði því enginn annar hefði nennt að reyta allan arfann í stóra garðinum við Selvogsgrunnið. Svona var Ella okkar alltaf sniðug og góð við börnin sín, vini þeirra, frænkur og frændur.

Ég er þakklátust fyrir það að hafa fengið að fara með Ellu og Siggu frænku og pabba til Los Angeles að heimsækja Björn Svein og Susan. Við vorum í þrjár vikur öll saman og þetta er ógleymanleg ferð. Ella og pabbi voru svo þolinmóð við okkur frekjudósirnar litlu og gerðu allt fyrir okkur. Ég er svo heppin að hafa getað eytt svona miklum tíma á mínum yngri árum með Ellu minni og ég mun aldrei gleyma þessum yndislegu tímum.

Ég er samt þakklátust fyrir áramótin 2004-2005 því þá vorum við öll stóra fjölskyldan samankomin heima hjá Ellu og Benna og skemmtum okkur svo vel alla nóttina saman og höfðum ekki hugmynd um hvað væri í vændum. Svona góðir tímar með Ellu okkar eru ógleymanlegir.

Ella frænka veiktist síðan af þessum andstyggilega sjúkdómi á síðasta ári og barðist eins og hetja við krabbameinið.

Því miður þurfti hún að kveðja okkur öll, en við vitum að hún er í góðum og öruggum höndum núna.

Ella mín, þú munt alltaf eiga stóran hluta af hjarta mínu og allra í fjölskyldunni okkar. Við munum sakna þín alltaf mjög sárt.

Þín frænka

Sigríður Sigurjónsdóttir.

Yndisleg "frænka" er horfin frá okkur. Elinborg Jóhanna Björnsdóttir, eða "Ella frænka" eins og við kölluðum hana, er farin yfir móðuna miklu. Mamma okkar er frænka Arnars fv. manns hennar, og þekktum við hana sem Ellu frænku frá blautu barnsbeini. Hún var allaf jafn kát og kímin og hafði sína sérstöku rödd þegar hún var að grínast við okkur. Heimili Arnars og Ellu á Selvogsgrunni stóð alltaf opið og ríkti þar alltaf gleði og kátína hjá öllum börnum sem og fullorðnum. Því ef maður fór í bíltúr á kvöldin, þá þótti það sjálfsagt að kíkja eftir hvort það væri ljós í glugganum hjá þeim á hvaða tíma sem var, því það gaf von um kaffi og meðlæti.

Eftir að við systkinin uxum úr grasi og við búum erlendis, þótti engin heimferð fullkomin nema heimsækja Ellu og Arnar og var þá yfirleitt alltaf veislumatur á boðstólum.

Elsku Ella frænka, við viljum kveðja þig með þessum fátæklegu orðum og þakka þér og Arnari fyrir alla yndislegu gestrisnina og gleðina sem við höfum alltaf notið hjá ykkur. Og við komum til með að sakna þín þegar við komum heim til Íslands.

Við vottum Arnari frænda og frændsystkinum okkar innilegustu samúð, einnig fjölskyldu Ellu frænku.

Með samúðarkveðjum,

Ragnar Edward Hansson,

Per Anders Rafn Hansson,

Camilla Þuríður Hansson og

Arnar Örvar Blomsterberg,

Trelleborg, Svíþjóð.