ENSKA knattspyrnufélagið Everton hefur fengið Þórð Ingason, 17 ára gamlan unglingalandsliðsmarkvörð úr 1. deildarliði Fjölnis í Grafarvogi, lánaðan til 8. maí í vor, eða þar til keppni í úrvalsdeildinni lýkur.

ENSKA knattspyrnufélagið Everton hefur fengið Þórð Ingason, 17 ára gamlan unglingalandsliðsmarkvörð úr 1. deildarliði Fjölnis í Grafarvogi, lánaðan til 8. maí í vor, eða þar til keppni í úrvalsdeildinni lýkur.

Ásmundur Arnarsson, þjálfari Fjölnis, sagði við Morgunblaðið í gær að Þórður hefði með þessu fengið frábært tækifæri. "Þórður er mjög efnilegur markvörður með mikla hæfileika og ég hef fulla trú á að hann geti náð langt. Everton var að leita að ungum markverði í haust og fékk Þórð þá til sín til reynslu í vikutíma. Hann stóð sig mjög vel og þeir vildu fá hann til sín aftur. Það varð úr að þeir fengju hann lánaðan til vorsins og þeir ætla að láta hann spila sem mest, þá væntanlega með 19 ára liði sínu og varaliðinu," sagði Ásmundur.

Þórður, sem verður 18 ára í mars, lék þrjá leiki með Fjölni í 1. deildinni síðasta sumar. Hann byrjaði heldur betur vel því hann varði vítaspyrnu strax á fyrstu mínútu í fyrsta leiknum. Þórður hefur leikið sex leiki með U19 ára landsliði Íslands og þrjá með drengjalandsliðinu en hann er áfram gjaldgengur í 19 ára liðið á þessu ári.

Hjá Everton hittir Þórður fyrir jafnaldra sinn og félaga úr yngri landsliðunum, Bjarna Þór Viðarsson, sem leikur þar með varaliði og unglingaliði enska félagsins.