Stökkbreytingar hafa orðið í umönnun fyrirbura og nýbura, að sögn Ragnheiðar Sigurðardóttur deildarstjóra.
Stökkbreytingar hafa orðið í umönnun fyrirbura og nýbura, að sögn Ragnheiðar Sigurðardóttur deildarstjóra. — Morgunblaðið/Sverrir
Eftir Silju Björk Huldudóttur silja@mbl.is VÖKUDEILD Barnaspítala Hringsins fagnar 30 ára afmæli í dag. Að sögn Ragnheiðar Sigurðardóttur deildarstjóra hefur margt breyst til batnaðar á undanförnum áratugum.
Eftir Silju Björk Huldudóttur silja@mbl.is

VÖKUDEILD Barnaspítala Hringsins fagnar 30 ára afmæli í dag. Að sögn Ragnheiðar Sigurðardóttur deildarstjóra hefur margt breyst til batnaðar á undanförnum áratugum. "Þetta er náttúrlega mikill munur frá því sem áður var. Frá opnun fæðingardeildarinnar árið 1947 var fyrirburum og nýburum sinnt í einu herbergi á kvennadeild og þar voru t.d. engin tæki til öndunarhjálpar, aðeins súrefni á kútum," segir Ragnheiður og bendir á að aðstæður til meðferðar á veikum nýburum hafi verið ákaflega frumstæðar fram til þess tíma er vökudeildin tók til starfa 1976.

Að sögn Ragnheiðar er óhætt að segja að tekið hafi verið stórt skref inn í framtíðina þegar deildin var opnuð á sínum tíma, en deildin hlaut frá upphafi góðar tækjagjafir úr ýmsum áttum. Deildin hefur verið í núverandi húsnæði sínu í tæp þrjú ár og er í björtu og rúmgóðu rými á þriðju hæð á Barnaspítalanum. Þar er deildin í beinni tengingu inn á þriðju hæð kvennadeildar Landspítalans þar sem eru skurðstofur og fæðingarstofur.

Um 19% allra nýfæddra barna á landinu koma við á vökudeild

Vökudeild er sjúkradeild fyrir fyrirbura og nýbura, sem þurfa á sérhæfðri meðferð að halda og er hún, að sögn Ragnheiðar, eina deild sinnar tegundar hérlendis. Nýburaskeið spannar fyrstu fjórar vikur lífsins og eru börn því ekki lögð inn á þessa deild ef þau eru eldri en mánaðargömul. Á deildinni eru tvö sjúkrarými, annars vegar tvískipt rými fyrir 10 gjörgæslusjúklinga og hins vegar salur sem rúmar 12 sjúklinga. Að sögn Ragnheiðar er sá salur fyrir börn sem eru ekki eins veik og einnig litla fyrirbura meðan þeir eru að ná vexti og þroska til að geta útskrifast til síns heima. Auk þessa er eitt einangrunarherbergi á deildinni sem og tvö herbergi til gistingar fyrir foreldra.

Að sögn Ragnheiðar eru rúmlega fjögur þúsund fæðingar í landinu á ári hverju og má gera ráð fyrir að milli 18-19% allra nýfæddra barna komi við á vökudeildinni, en flest barnanna eru lögð inn á deildina strax eftir fæðingu. "Gera má ráð fyrir að helmingur þessa hóps, eða á bilinu 350-400 börn, dvelji hjá okkur í einhverja daga, en meðallegutíminn eru tólf dagar. Hinn helmingurinn, eða um 400 börn, dvelur hér hins vegar aðeins í örfáar klukkustundir," segir Ragnheiður og bendir á að deildin sé vel tækjum búin, en auk hitakassa eru þar ýmiss konar öndunarvélar, vökva- og lyfjadælur. Bendir Ragnheiður á að öll börn sem koma inn á vökudeild fari í hitakassa þar sem m.a. er hægt að gefa þeim súrefni sé þess þörf, án þess að tengja þurfi börnin sérstaklega við öndunarvél.

Aðspurð segir hún að yngsta barnið sem komið hafi inn á deildina hafi verið fætt á 24. viku meðgöngu og léttasta barnið vera um 500 g sem sé svipað og þekkist erlendis.

Stökkbreytingar í meðferð ný- og fyrirbura

Spurð hvernig hún sjái framtíðina fyrir sér bendir Ragnheiður á að stökkbreytingar hafi orðið í meðferð ný- og fyrirbura á ekki lengri tíma en þrjátíu árum sem m.a. varð til þess að dánartíðni ungbarna hafi lækkað til muna. "Ég reikna með að þróunin verði hröð áfram og að ný lyf, tækni og tæki muni hjálpa okkur enn frekar. Ég vona líka að mæðraverndinni lánist að hjálpa sem best við að seinka því að konur fæði fyrir settan tíma, þannig að minnstu fyrirburunum fækki, því þeir eru auðvitað í mestri hættu á að lenda í vandræðum."

Á vökudeildinni starfa þrjátíu hjúkrunarfræðingar og sjúkraliðar, fimm læknar auk aðstoðarfólks. Bendir Ragnheiður á að vökudeildin sé í raun gjörgæsludeild og því sé sólarhringsþjónusta og sama mönnun allan sólarhringinn alla daga ársins. Viðmiðið er að á öllum vöktum séu fimm starfsmenn, þar af fjórir hjúkrunarfræðingar og einn sjúkraliði. Aðspurð um áherslur í hjúkrun deildarinnar segir Ragnheiður hana miða að einstaklingshæfri fjölskylduhjúkrun þar sem barnið ásamt fjölskyldunni sé skilgreint sem skjólstæðingur hjúkrunar. Þetta kalli á að samstarf hjúkrunarfræðinga, sjúkraliða og lækna sé náið sem sé mikilvægt til að sem bestum árangri verði náð. "Markmið okkar er að barnið nái heilsu og þroska og að fjölskyldan fari heim vel undirbúin sem fjölskyldueining, tilbúin til að takast á við hlutverk sitt," segir Ragnheiður að lokum.