"Íslenskur Don Kíkóti eða séní?" segir á forsíðu tímaritsins Travel People.
"Íslenskur Don Kíkóti eða séní?" segir á forsíðu tímaritsins Travel People.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Arnór Gísla Ólafsson arnorg@mbl.is STJÓRNENDUR Icelandair lögðust gegn því að FL Group keypti danska lággjaldaflugfélagið Sterling Airlines og lýstu einnig eindreginni andstöðu við hugsanlega sameiningu Sterling og Icelandair.
Eftir Arnór Gísla Ólafsson arnorg@mbl.is

STJÓRNENDUR Icelandair lögðust gegn því að FL Group keypti danska lággjaldaflugfélagið Sterling Airlines og lýstu einnig eindreginni andstöðu við hugsanlega sameiningu Sterling og Icelandair.

Þetta kemur fram í skýrslu stjórnenda Icelandair, sem dagsett var 4. október 2005, og mun hafa verið lögð fyrir þáverandi stjórnarformann og núverandi forstjóra FL Group, Hannes Smárason.

Þetta er meðal þess sem fram kemur í úttekt í nýjasta tölublaði Travel People þar sem fjallað er ýtarlega og á mörgum síðum um innrás Íslendinga í flugrekstur í Danmörku. Greint er frá kaupum Fons eignarhaldsfélags á Sterling og síðan Maersk Air, sameiningu þeirra síðastliðið haust og aðdragandanum að kaupum FL Group á Sterling í lok október. Hannes Smárason, forstjóri FL Group, skreytir forsíðu tímaritsins undir fyrirsögninni: "Íslenskur Don Kíkóti eða séní?"

Í niðurstöðum umræddrar skýrslu sagði að það væri mat stjórnenda Icelandair að áhættan og óvissan í viðskiptahugmyndinni væri of mikil til þess að hægt væri að réttlæta kaup á Sterling.

Svo virðist semTravel People hafi komist yfir skýrslu stjórnenda Icelandair sem unnin hefur verið í tengslum við kaupin á Sterling enda eru í umfjöllun tímaritsins langar orðréttar tilvitnanir í hana en forstjóri Icelandair vildi hvorki staðfesta né neita því hvort umræddar tilvitnanir væru réttar eða ekki.

Hannes sagður hafa bakkað með sameiningarhugmyndir

Travel People heldur því fram að fyrir hafi legið uppkast af hálfu stjórnenda FL Group um afar nána samvinnu eða jafnvel sameiningu Icelandair og Sterling og hafi sú áætlun verið kölluð: Thorshammers Business Case.

Ummæli Almars Arnar Hilmarssonar, forstjóra Sterling og sérstaklega sölustjórans, Stefan Vilner, um samlegðaráhrif og nýja möguleika sem myndu skapast með samvinnu eða sameiningu Sterling og Icelandair styðji þetta, en þeir nefndu aukna möguleika í tengslum við flug yfir Atlantshafið og eins á flugleiðum innan Evrópu.

Blaðið segir afstöðu stjórnenda Icelandair, undir forystu Jóns Karls Ólafssonar, og ekki síður ummæli Jørgen Lindegaards, forstjóra SAS, skömmu síðar, um að samvinna eða sameining Sterling og Icelandair myndi þýða að SAS myndi slíta áratugalöngu samstarfi við Icelandair, hafi orðið til þess að stjórnendur FL Group hafi ákveðið að gefa upp á bátinn hugmyndir eða áætlanir um samvinnu eða sameiningu Sterling og Icelandair.

Í skýrslu stjórnenda Icelandair kemur fram að sameining við Sterling myndi einkum hafa jákvæð áhrif á fjórum sviðum. Í fyrsta lagi fengist aukinn kaupkraftur þannig að ná mætti fram frekari afsláttum, s.s. í eldsneytiskaupum, tryggingum og farþegaþjónustu. Í annan stað myndi geta sameinaðs félags til markaðssetningar aukast. Eins myndi

nást fram aukinn sveigjanleiki við stjórnun flugflotans og í fjórða lagi gæti Icelandair svo aflað sér aukinnar reynslu í lágfargjaldarekstri.

Að mati stjórnenda Icelandair náðu þessir kostir þó alls ekki að vega upp á móti neikvæðum þáttum sem sameining félaganna myndi eða gæti haft í för með sér.

Samvinnan við SAS mjög hagfelld fyrir Icelandair

Í endursögn Travel People á efni skýrslunnar segir að stjórnendur Icelandair hafi farið yfir það lið fyrir hvers vegna þeir teldu kaup Sterling ekki vera góða hugmynd og að enn verra væri að sameina það Icelandair.

Var í þessu sambandi sérstaklega bent á hugsanlegar afleiðingarnar á samvinnu Icelandair við SAS og áhrif þess ef SAS ákvæði að slíta samstarfinu.

Í skýrslunni segir m.a. að samkomulagið við SAS sé "mjög hagfellt fyrir Icelandair og þá sérstaklega vegna viðskiptafarþega á vegum Icelandair". Sterling gæti ekki bætt þetta upp vegna áherslu þess á lággjaldaflugrekstur og á að fljúga til ferðamannastaða fremur en áfangastaða fyrir viðskiptaferðalanga. Eins og er nýti 75 þúsund farþegar Icelandair sér áframhaldandi tengiflug með SAS sem skili Icelandair um 700 milljónum í tekjur. SAS og Icelandair eigi einnig í samvinnu í flugi yfir Norður-Atlantshaf og til Íslands. SAS selji um "50 þúsund farþegum flug vegna þessar samvinnu sem skilar Icelandair um 900 milljónum" [í tekjur].

Stjórnendur Icelandair gerðu einnig athugasemdir vegna hugmynda Sterling um að flytja flugvélar frá Kaupmannahöfn til Óslóar og Stokkhólms með aukið flug þaðan í huga. Bentu þeir á gera mætti ráð fyrir að SAS myndi bregðast við slíkri samkeppni og minntu á að alls ekki mætti "vanmeta SAS sem keppinaut".

Töldu ólíklegt að tækist að snúa við rekstri Sterling í ár

Í niðurstöðum skýrslu stjórnenda Icelandair sagði síðan meðal annars að með kaupum á Sterling myndi FL Group um leið leggja aukna áherslu á flugreksturinn, sem hefði "étið upp fé" í gegnum tíðina. Aðalrekstraráhætta FL Group til hefði fram til þessa verið fólgin í starfsemi Icelandair og reynslan hefði sýnt að miklar sveiflur væru í flugrekstrinum. Með kaupum á Sterling væri FL Group því að auka áhættuna enn frekar. Þá sögðust stjórnendur Icelandair telja ólíklegt að hægt væri að snúa við rekstri Sterling á árinu 2006 og tryggja viðunandi arðsemi. Hætta væri því á að kaupin myndu hafa neikvæð áhrif á afkomu FL Group til lengri tíma litið. Það væri því skoðun þeirra að "afar vafasamt" væri að leggja út í kaupin á Sterling.

Innanhússskýrslur eru trúnaðarmál

JÓN KARL Ólafsson, forstjóri Icelandair, segir félagið ekki tjá sig um það hvort tilvitnanir í skýrslu stjórnenda félagsins sem birtar eru í Travel People séu réttar eða ekki. "Við tjáum okkur ekki um það. Ef slík innanhússskýrsla væri til væri hún að sjálfsögðu trúnaðarmál," segir Jón Karl.

Hann bendir á að hér sé ekki um nýjar fréttir að ræða, Travel People hafi birt fréttir sama efnis á vefmiðli sínum fyrir um þremur mánuðum. "Við vitum ekki hvað þeir eru með í höndunum og þeir hafa ekki leitað eða hringt í okkur til þess að fá fréttirnar staðfestar," segir Jón Karl.

Þá bendir hann á að fyrirsögn í Tavel People um að hann hafi ráðið mönnum frá kaupum á Sterling sé einfaldlega röng. "Ég hef aldrei ráðlagt nokkrum manni að kaupa ekki Sterling."