[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Það er mikið um að vera í Tjarnarbíói þessa dagana og mikið líf í húsinu. Nú standa yfir stífar æfingar hjá Herranótt, leikfélagi Menntaskólans í Reykjavík.
Það er mikið um að vera í Tjarnarbíói þessa dagana og mikið líf í húsinu. Nú standa yfir stífar æfingar hjá Herranótt, leikfélagi Menntaskólans í Reykjavík. Herranótt á sér langa og merka sögu og er elsta leikfélag á Norðurlöndunum, fyrstu heimildir um Herranótt eru frá 1740 í Skálholti. Leikfélagið hefur þróast í gegnum aldirnar og er í fullu fjöri enn þann dag í dag og þykja leiksýningar Herranætur með þeim glæsilegri. Margir af helstu leikurum og ráðamönnum þjóðarinnar hafa stigið sín fyrstu spor í Herranótt og dugir að nefna Hilmi Snæ, Baltasar Kormák, Davíð Oddsson og Dag B. Eggertsson.

Herranótt leitast við að velja stór og falleg verk og leikritaval hefur líka verið hið fjölbreyttasta í gegnum árin. Í ár er það Birtingur eftir Voltaire sem verður frumsýnt 24. febrúar næstkomandi. Birtingur er heimspekilegt gamanleikrit og fjallar um ferðalag Birtings um heiminn og þær persónur sem hann hittir á ferðalaginu. Friðrik Friðriksson var fenginn til að leikstýra og handritið gerði Hafnarfjarðarleikhúsið eftir þýðingu Halldórs Laxness.

Kómísk ádeila á bjartsýnisheimspeki

Málið leit inn á æfingu og komst að því að þessir menntaskólakrakkar eru einstaklega áhugasamir um verkið og mikill metnaður í gangi. Sandra Gísladóttir er aðstoðarleikstjóri og nemandi í 5. bekk en þetta er í fyrsta sinn sem hún tekur þátt í Herranótt. "Mér fannst þetta svo áhugavert og langaði að vera partur af þessu batteríi sem Herranótt er og kynnast þessu alveg frá grunni hvernig leiksýning gengur fyrir sig og vindur upp á sig." Það eru haldin námskeið fyrir jól og svo er sett upp leikverk eftir jól. Þar lærðu nemendurnir m.a. framsögn og spuna og leikstjórinn Friðrik stjórnaði, síðan er haldinn samlestur þar sem valið er í hlutverkin. "Við vorum um 60 á samlestrinum og 21 komst áfram í leikhópinn. En við erum hátt í 70 til 80 sem komum að þessari sýningu. Það eru til dæmis allt nemendur sem vinna í því að setja upp leikmyndina og smíða hana og sauma búninga," segir Sandra.

Að sögn Söndru er hún búin að læra helling um leikhús og hvernig leiksýning skapast og mótast þangað til hún verður að flottri leiksýningu. Þau læri líka heilmikið á að vinna með Friðriki."Hann er mjög ákveðinn og vill gera þetta flott, hann er mjög kómískur í sér og sýningin verður mjög fyndin. Þetta er heimspekileg skáldsaga og er skrifuð sem ádeila á bjartsýnisheimspeki. Við ákváðum að taka þetta og snúa upp í algjört grín. Það eru mörg atriði mjög skemmtileg og skemmtilegir karakterar sem eru mjög ýktir."

Skemmtilegir karakterar

Það er Baltasar Breki Baltasarsson sem leikur aðalhlutverkið, hann Birting. Baltasar Breki er á fyrsta ári í MR og því að taka þátt í Herranótt í fyrsta sinn. Hann hoppar af sviðinu í smá stund til að tala við blaðamann en annars er Birtingur á sviðinu í hverri einustu senu í leikritinu. "Þetta er bara ótrúlega gaman," segir hann en áður hefur hann leikið í uppsetningum á söngleikjum í Hagaskóla. "Þetta er alveg ótrúlega mikil vinna." Baltasar Breki segist ekki hafa hugmynd um hvort hann muni leika í framtíðinni og segist ekki vera að feta í fótspor föður síns, Baltasars Kormáks, sem tók þátt í Herranótt á sínum tíma. "Ég vil fara mína eigin leið," svarar hann en viðurkennir að Herranótt var það sem helst dró hann í MR. "Það er bara fílingurinn í kringum þetta, það er klassi og metnaður í kringum Herranótt. Þetta er ótrúlega spennandi sýning og ég hvet alla til að mæta. Þetta er kómísk kaldhæðni og mikið af skemmtilegum karakterum."

Formaður og leikari

Klara Jóhanna Arnalds er formaður Herranætur og sér um að halda utan um þetta batterí ásamt stjórninni. Hún er í miðju kafi að æfa atriði en hún leikur líka fjögur smáhlutverk í sýningunni. "Ég hef tekið þátt öll árin mín í MR þannig að þetta er þriðja skiptið mitt," segir hún.

"Það myndast mjög þéttur hópur, um tuttugu manns verða rosalega náin og borða pitsur saman, það myndast ákveðin stemning og okkur þykir líka voðalega vænt um Tjarnarbíó. Það er þreyta og stress en svo smellur þetta allt saman að lokum."

Herranótt er öflugt starf og dregur að nemendur í Menntaskólann í Reykjavík sem hafa brennandi áhuga á leiklist þó að það séu ekki endilega allir sem leggi þetta svo fyrir sig í framtíðinni. "Þetta á það til að gleypa mann, maður álpast í Herranótt og þá er ekkert aftur snúið," segir Klara að lokum og þau halda áfram að æfa.

Birtingur verður frumsýndur 24. febrúar í Tjarnarbíói.


1. Baltasar Breki Baltasarsson og Kristín Guðmundsdóttir í hlutverkum Birtings og Kúnígúndar.
2. Kristín Guðmundsdóttir og Erna Svanhvít Sveinsdóttir sem Kúnígúnd og Kelling.
3. Baltasar Breki og Gunnar Atli Thoroddsen æfa skylmingaatriði.
4. og 5. Æfing í Tjarnarbíói.
Texti Hanna Björk
Myndir Brynjar Gauti