Margt stjórnar því hvernig föt fólk velur sér. Merki, útlit, og verð eru stórir þættir í ákvarðanatöku flestra en samviskuþátturinn er sífellt að verða stærri. Fatamerkið Edun (nude - eða nakinn - aftur á bak) er eitt þeirra sem leggja mikið upp úr sanngjörnum viðskiptaháttum. Bono, söngvarinn mannelski, stendur á bak við þessa tískulínu ásamt eiginkonu sinni Ali Hewson, í samstarfi við New York-hönnuðinn Rogan Gregory. Þarna eru engin krumpusækin hörjakkaföt á ferð heldur er tískan aðalatriðið, verið er að höfða til manneskju sem vill vera ábyrgur neytandi en á sama tíma stællega klædd. Takmarkið er að framleiða falleg og nothæf föt en veita á sama tíma atvinnu og örugg viðskiptatengsl í þróunarlöndunum.
Áherslan hjá Edun er á lífræn efni og siðlega starfsemi en mörg fyrirtæki hafa farið illa út úr því að sinna ekki síðarnefnda þættinum. Upp komast tískusvik um síðir. Stórfyrirtæki á borð við Nike, Reebok og Gap þekkja þetta en orðspor þeirra hefur skaðast á síðustu árum þegar í ljós kom að dýrar tískuvörur þeirra eru framleiddar af verkamönnum við bág kjör í þróunarlöndunum. Flest fyrirtæki á Vesturlöndum láta framleiða fyrir sig annars staðar þar sem vinnuaflið er ódýrara en þrýstingurinn er orðinn meiri á stjórnendur því að neytendur eru meðvitaðari en áður. Fyrirtæki þurfa því bæði að standast kröfur um arðsemi frá hluthöfum og um siðgæði frá neytendum.
Hraðinn í tískuheiminum setur enn meiri pressu á framleiðendur. Samkvæmt upplýsingum frá bresku regnhlífarsamtökunum Ethical Trading Initiative hefur þessi krafa neytenda um að fá nýjustu tísku strax leitt til brota á vinnulögum, ekki síst hvað varðar lausráðna starfsmenn.
Ein leið fyrir fyrirtæki til að skera sig úr samkeppninni er að vera samfélagslega meðvituð. Það getur líka verið hagkvæmt eins og Gap hefur komist að raun um. Samkvæmt reynslu Gap gengur verksmiðjum sem eru með góð vinnuskilyrði betur að skila af sér í tíma.
Hérlendis hafa áhrif þessa sést í vinsældum fatnaðar sem seldur er til styrktar góðu málefni. Besta dæmið er þegar Nakti apinn og Dead tóku höndum saman í hönnun og framleiðslu á peysum og bolum í samstarfi við Félagið Ísland-Palestína en ágóðinn rennur til öryrkja í Palestínu. Söfnunarátakið hófst með tónleikum á Grand Rokki í lok nóvember en eftir það fór salan á fatnaðinum í fullan gang. Samkvæmt upplýsingum frá félaginu hefur með tónleikunum, sölu á klæðnaði og frjálsum framlögum nú safnast meira en hálf milljón króna.
Íslenska lopapeysan er líka orðin tískuflík og búin að taka á sig tískulegri mynd, oft prjónuð úr þynnri lopa, er síðari eða með hettu. Handprjónaðar lopapeysur eru a.m.k. framleiddar með umhverfisvænni orku og vonandi er ekki verið að brjóta mörg vinnulög með löngum setum með prjóna í hönd á baðstofuloftum landsmanna yfir kvöldlestrinum, eða öllu heldur í stofunni yfir sjónvarpinu. Reyndar eru svona peysur líka fjöldaframleiddar í erlendum verksmiðjun en ábyrgur neytandi hefur valið og valdið í hendi sér.
Inga Rún Sigurðardóttir (ingarun@mbl.is)