Hraunreipi Ef til vill fyrirmyndin að skreyttu stefni á steinnökkvanum í níundu vísu.
Hraunreipi Ef til vill fyrirmyndin að skreyttu stefni á steinnökkvanum í níundu vísu. — Ljósmynd/Þorsteinn Jósepsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Hér er fjallað um Hallmundarkviðu, en flest bendir til þess að kviðan lýsi því þegar Hallmundarhraun rann úr Langjökli á tíundu öld.
Í ljóðasafnið Íslands þúsund ár valdi Einar Ólafur Sveinsson prófessor meðal annars dróttkveðið ljóð sem hefur oftast verið kallað Hallmundarkviða . Um dróttkvæðin íslensku segir Einar Ólafur að list þeirra sé gædd kynlegum þrótti sem virðist inni byrgður líkt og jarðeldur. Það á því vel við að Hallmundarkviða er ort undir þessum hætti, því að hún fjallar augljóslega um eldgos. Flest bendir til þess að kviðan lýsi því þegar Hallmundarhraun rann úr Langjökli á tíundu öld, en rúmmál þess er um það bil helmingur af rúmmáli Skaftáreldahrauna eða Eldgjárhrauna (Sveinn Jakobsson).

Hallmundarkviða er skráð í Íslendingaþáttinn Bergbúa þátt . Hér er farið eftir útgáfu Hins íslenska fornritafélags sem Þórhallur Vilmundarson sá um. Á eftir skáletruðum vísnaskýringum Þórhalls fara svo nokkrar hugleiðingar mínar um náttúrufræðina í kvæðinu, einkum hvernig lýsingarnar geta komið heim við Hallmundarhraunsgosið. Tvennt þarf þá að taka til greina. Skáldið notar kerfisbundið mikið af kenningum og heitum forna skáldamálsins. Auk þess eru lýsingarnar mjög mótaðar af þeirri heiðnu hefð að náttúrufyrirbæri séu lifandi, og gosmekki, fjöll, reykjarstróka, kletta og gróður megi skoða sem jötna eða aðrar vættir. Þegar frásögnin er leyst úr þessum böndum skáldamáls og trúarbragða fær hún raunsærri og hlutlægari svip. Við það bætist að um almælt og alvarleg tíðindi sem þessi eiga vonandi við þau orð Snorra Sturlusonar um hirðskáldin að enginn myndi þora að segja það sem fólk vissi "að hégómi væri og skrök."

1. Hrun hlýzt af för jötunsins (Hallmundar); hallandi björg taka að falla; fátt mun frítt í fornri veðrahöll hins aldna jötuns (fjöllunum); gnýr verður, þegar hinn gráhærði höfðingi gengur um bratta hamra; Hallmundur stígur hátt höllum (hallandi) fæti í gný fjalla.

Hallmundur jötunn hefur brugðið sér í líki gráa gosmakkarins sem gosefni hrynja úr. Sú hugmynd er ekki fráleitari en frásögn Mósebókar af því að Drottinn gekk fyrir Ísraelsmönnum ýmist í skýstólpa eða eldstólpa. Með hallandi og fallandi björgum er vel lýst hruninu við hraunjaðrana. Landslagið er ekki frítt, því að jökullinn, hið forna hríðarsetur, er sennilega kámaður af öskufalli en landið sundurtætt á eldstöðvunum, gígahrúgaldur mikið eins og Þorvaldur Thoroddsen orðaði það. Brattir hamrar einkenna Jökulstalla í grennd við eldsupptökin. Mökkurinn stígur hátt með miklum gný, en hallandi fótur jötunsins getur verið neðri hluti gosstróksins sem leggur til ýmissa átta.

2. Hinn dökkleiti eldur brýzt um drynjandi, áður en hann rýfur harðvirkur dyngjur fjallgarðanna; gnýr er í kringum hinn dökka mann; ég segi dimma eimyrju þeytast skjótlega upp; það verður hávaðasamt við klettana, er glóðirnar fjúka.

Dyngjurnar eða haugarnir eru vafalaust gígar, og þeir fleiri en einn, sjá fimmtu vísu. Hinn dökki maður er mökkurinn, annað í þessari sígildu goslýsingu segir sig sjálft.

3 Menn munu síðan að því loknu laugast í vatnsflaumi; vötn steypast heldur heit yfir menn; menn vita, að það vatn sprettur upp í jötnabyggðum; heitur eldur mun ekki sárari mönnum, þar sem þeir una sér glaðir (og eiga sér einskis ills von).

Undan Hallmundarhrauni (jötnabyggðum) sprettur enn upp vatnsflaumur og myndar meðal annars Hraunfossana fögru og köldu þar sem hraunið endar fyrir neðan Barnafoss. En sárheitir hafa þeir fossar verið meðan hraunið var nýlega runnið. Smám saman, "að því loknu", hafa þeir þó orðið þægilega baðvolgir.

4. Stór björg og stinnar bergbungur springa; og hin glymjandi fjallaborg skelfur; þá farast margir menn; þytur fer um árgljúfrin; ég þrammaði yfir ána fyrir skömmu, en fleiri menn magna ókyrrðina með öllum hætti.

Glóandi hraunkvikan flæðir mishratt undir storknu yfirborði sem sígur þá og rís, byltist og springur. Hér er sagt frá mannskæðum jarðskjálfta. Ekki er óþekkt að landskjálftar eigi upptök sín í uppsveitum Borgarfjarðar. Í jarðskjálfta 12. júní 1974 (5,5 á Richter) myndaðist löng sprunga eftir dalnum í Þverárhlíð, með 0,4 m háu þrepi í Kvíum, og steinsteyptur húsgafl á Hermundarstöðum hrundi (Þorsteinn Eggertsson, Kvíum). Og þegar Jökulstallarnir miklu í Langjökli mynduðust hefur mikið gengið á (Þorvaldur Thoroddsen). Í kvæðinu virðist sem gengið hafi verið fremur en vaðið yfir á fyrir skömmu þar sem straumurinn niðar nú í gljúfri. Boranir á móts við Kolsstaði í Hvítársíðu sýna að þar er hraunið allt að því 65 metra djúpt, og það bendir til þess að þar hafi verið gljúfur áður en hraunið rann. Vel má vera að hraunið hafi stíflað á (Norðlingafljót?) um stundarsakir, en síðan hafi hún ruðst fram í gljúfrið. Og ekki er að undra að þys hafi verið vaxandi meðal manna þegar hraunið stefndi niður í byggðina.

5. Þýtur í þungu grjóti; (.........); menn telja það enn undur, er jöklar brenna; þó mun maður fyrr hafa kynnzt stórum meira undri á Íslandi, því sem æ mun standa.

Önnur braglínan, þrír eskvinar (í einu handriti eskinnar) svíra, hefur reynst fræðimönnum torskilin og er því sýnd með punktum. Mér sýnist að hér þurfi ekki að skipta nema um einn staf til leiðréttingar, breyta orðinu eskinnar í eskingar. Það fer eðlilega á eftir töluorðinu þrír sem karlkyns fleirtala af orðinu eskingur. Það mundi upphaflega tákna öskufok, en hefur verið fært yfir á skafbyl (öskubyl) og kemur fyrir sem slíkt í trúverðugri lýsingu norðanáttar í Bárðar sögu frá Snæfellsnesi sunnanverðu. Næsta orð, svíra, verður að vera sagnorð ef braglínan er sjálfstæð setning. Það væri þá stakorð í íslensku máli en gæti verið skylt danska orðinu svire (þjóra; hringsnúast). Þá táknar braglínan: þrír öskustrókar þyrlast. Þetta er eitt merkilegasta auðkennið á gosinu, því að þrír gígar sjást á gígahrúgaldrinu sem hraunið er komið úr (Sveinn Jakobsson). Staðurinn mætti kannski heita Eskingar. Í framhaldinu er sagt að jöklar brenni. Það er ekki bókstaflega rétt, því að eldurinn kom upp fyrir neðan jökulröndina. Þetta er þó ekki meiri ónákvæmni en sú að Skjólkvíagosið í grennd við Heklu er kallað Heklugos Stórum meira undur sem áður hefur gerst og æ mun standa getur vel verið Eldgjárhraunið mikla sem eyddi Álftaver og nálægir sveitir um 934 og er sambærilegt við hraun Skaftárelda. Jarðeldsins er getið í Landnámu, en hann er meðal annars ársettur í Grænlandsjökli og hann hafði langvinn áhrif á veðráttu í Evrópu og víðar (Richard B. Stothers 1998). Eftir þessu að dæma rann Hallmundarhraun síðar en 934.

6. Svartir klettar springa (eða falla fram); eldurinn magnar hríðirnar (færist í aukana); undarlegur aur tekur að þeytast upp úr jörðunni; margir jötnar munu lifna; himinn rifnar þá; steypiregn gerir; það rökkvar af regni, áður en heimurinn ferst.

"Aurr tekr upp at færask undarligr ór grundu. Aurinn gæti verið jarðvegur sem lyftist þegar hraunið sem er þyngra í sér ryður honum á undan sér "(Sigurður Steinþórsson). "Undaðar moldir flaka", orti Jón Helgason um Skaftárelda og byggði eflaust á heimildum. Jötnarnir sem lifna eru meðal annars klettarnir sem taka að birtast í hraunstraumnum, stundum í ferlegri mannsmynd. Það hefur þótt váboði, jafnvel spá um ragnarök, hvað rigningu fylgdi mikið dimmviðri, einkum þegar vindur stóð af gosinu.

7. Ég stíg fjall af fjalli félaga minna (jötna); ég ferðast einatt myrkranna á milli; ég fer norður á bóginn dýpst niður í hinn þriðja heim; sá dökkleiti (eða: jötunn?), sem óttast komu mína, fari jafnan í Élivoga; ég er á öndverðum meiði við jötuninn.

Hér er Hallmundur látinn taka við frásögninni. Hann víkur að sjálfum sér í líki gosmakkarins sem leggur yfir fjöllin og er á öndverðum meiði við jötun nokkurn. Sumir halda að með þeim jötni sé átt við Þór, en Þórhallur telur það ólíklegt. Mér sýnist að þessi jötunn, bjarga gætir, sé skuggalegi norðanbylurinn, og það er snjöll myndlíking að skipa honum að bera (élja)skegg sitt sem oftast til heimkynnanna í Élivogum. Frá bæjum efst í Hvítársíðu hefur gosmökkurinn síst sést þegar hann lagði suður á bak við Eiríksjökul, Strút og Hafrafell, en frá einum bæ, Hallkelsstöðum, hefur hann blasað sérlega oft og vel við þegar hann lagði einmitt í norðurátt og sást í gegnum skarðið milli Strúts og Fljótstunguháls norður undan.

8. Vér vorum allir saman í myrkheimi (Niflheimi?); ég sá um það, að jarðhýsið dygði; vér nutum þeirra verka minna; það er furða, hve eldhríðin mundi hita mér, ef ég kæmi samt þangað, svo vel sem ég þoli eld.

Jarðhýsið (vallbingurinn) gæti verið hraunhellir sem Hallmundur þakkar sér að hafa gert, brennandi heitur fyrst eftir gosið. Um helli í hrauninu er snemma getið sem bústað útilegumanna, í Landnámu, Vatnsdælu, Grettis sögu og Harðar sögu og Hólmverja. Svo virðist líka að í nágrenni Hallkelsstaða milli Fljótstungu og Þorvaldsstaða hafi myndast grunnur hellir sem þakið hefur hrunið úr á nokkrum stöðum og myndað svonefnda kýla.

9. Menn báru mér gráskeggjaðan jötun handan frá vígvellinum; von mun vera á össu; en ég sendi jötninum sterklegan, járnsleginn steinnökkva, auðkenndan útskornum bröndum.

Gráskeggjaði jötunninn gæti verið reykjarmökkur frá skógar- eða sinueldi af völdum hraunglóðarinnar, samanber kvæði Jónasar um Skjaldbreið ("blágrár reykur"). Braglínan mun ván ara kvánar táknar þá: vindurinn stendur hingað, en Snorri segir vinda stafa af því að Hræsvelgur jötunn fljúgi í arnarham. Þá faðmar örninn maka sinn, vindinn. Hér sýnist viðhöfð sú líking að hraunið sé steinnökkvi sem siglir með skreyttu stefni (hraunreipum?) og plægir jörðina eins og skip klýfur sjóinn, samanber aurinn í 6. vísu.

10. Þór hinn sterki veldur böli manna; menn segja, að illt eitt hljótum vér af að deila við hann; felldur er sá, sem brennir jöklana; jötnum hefur fækkað; ég fer ekki að ástæðulausu dapur niður í sveit hins svarta Surts í hinn heita eld.

Hér mun sagt frá goslokum, þegar jötunninn (Hallmundur) sem brennir jöklana fellur, sennilega fyrir Þór óvini jötna, og reikar niður til Surts, hugsanlega í heitan Surtshelli.

11. Ég veð sem mjöll á milli heima; víða er svart af eldi; jörðin springur, því að ég ætla að Þór einn hafi þannig farið þangað; þungar áhyggjur má lesa út úr svip jötunsins, sjálfs mín, er ég fer víða; heldur verður augnatillit mitt ógnþrungið.

Höfundur jarðeldsins, Hallmundur, reikar nú um sprungið og svart hraunið, líklega sem afturganga eins og tvítekning síðasta vísuorðs í hverri vísu kann að benda til, áhyggjufullur og ógurlegur ásýndum eftir uppgjöf sína.

12. Ég á einn hús í hrauni; menn hafa sjaldan sótt mig heim; ég var aldrei fyrr slyngur að skemmta mönnum; lærið flokkinn, drengir, eða þið munuð sæta þungri refsingu; enn er skáldmjöðurinn þrotinn (kvæði á enda).

Í kvæðislok er staðfest að Hallmundur eigi heima í hrauninu, og þá líklega í helli. Ekki leynir sér hvað skáldinu er umhugað að kvæðaflokkurinn verði varðveittur. Þessi síðasta vísa gæti bent til að nokkuð hafi verið umliðið frá gosinu þegar kviðan var ort, en ekki lengra en svo að ýtarleg vitneskja um það hefur lifað, svo raunsæjar eru lýsingarnar.

Er þetta Hallmundarhraun?

Menn skyldu nú halda að eldgos séu ekki svo ólík hvert öðru að ráða megi sérkenni þeirra af lýsingum, síst af öllu skáldlegum lýsingum. Allt í þessari kviðu getur reyndar átt við Hallmundarhraun, en sumt þó óvíða eða hvergi annars staðar. Í fyrsta lagi eru það nöfnin Hallmundur og Surtur, sem tengjast fremur þessu hrauni en öðrum. Í öðru lagi koma bröttu hamrarnir í fyrstu vísu vel heim við Jökulstallana miklu. Í þriðja lagi eru upptökin í þremur gígum eins og ráða má af fimmtu vísu. Í fjórða lagi er heita vatnið í þriðju vísu, sem sprettur upp úr jötnabyggðum, að líkindum komið undan hrauninu, og það má sérlega vel heimfæra upp á Hallmundarhraun og Hraunfossa eins og áður er getið, þó að ekki sé hægt að fullyrða að svipað gerist ekki í öðrum gosum. Hins vegar er mjög ólíklegt að þennan vatnsflaum megi telja jökulhlaup sem er fremur ískalt en heitt. Í fimmta lagi getur kvæðið tæplega átt við gos sem hefði orðið eftir kristnitöku.

Uppruni Hallmundarhrauns

Ýmislegt má nota til að tímasetja þetta gos. Landnámsöskulagið frá því um 871 er undir hrauninu, og af fimmtu vísu má meira að segja ráða líkur til þess að gosið hafi orðið seinna en Eldgjárgosið mikla um 934. Andi þessa kvæðis er rammheiðinn eins og við hefði mátt búast fyrir kristnitöku um árið 1000. Á þessu tímabili, 934-1000, sýnist kviðan þess vegna ort og líklega byggð á frásögnum sjónarvotta, svo mikil er innlifun skáldsins, enda eru lýsingarnar flestar í nútíð

Þórhallur Vilmundarson nefndi í vandvirknislegri útgáfu sinni á Bergbúa þætti rök fyrir því að kviðan fjallaði um Hallmundarhraunsgos þó að hann teldi upp sitthvað sem efasemdarmenn gætu teflt á móti því: heit vötn, marga menn sem farast og óljósar lýsingar á hraunrennsli í kvæðinu. Þær mótbárur sýnast líka síður en svo standast, eins og áður er útskýrt. Þórhallur lagði sig fram um að aldur hraunsins væri kannaður. Í formála sínum að Bergbúa þætti segir hann:

"Kristján Sæmundsson jarðfræðingur lét árið 1966 aldursgreina mó undan Hallmundarhrauni með geislakolsaðferð (C-14-aðferð), og reyndist hann vera frá því um 700 e. Kr. +/- 100 ár. Fyrir tilmæli mín kannaði Haukur Jóhannesson jarðfræðingur jarðvegssnið undan Hallmundarhrauni haustið 1988. Niðurstaða hans er sú, að þar sé að finna landnámsöskulagið frá því um 900 og hraunið hafi þá að líkindum runnið á fyrstu áratugum 10. aldar. Þegar fyrrnefnd geislakolsgreining hafi verið leiðrétt með tilliti til breytilegs C-14-magns í andrúmslofti, sé niðurstaðan tímabilið 782-860 e. Kr. og stangist það ekki á við niðurstöður öskulagsrannsóknarinnar þegar tillit sé tekið til skekkjumarka.

Haukur hefur síðan staðfest afstöðu hraunsins við landnámslagið í óbirtri athugun.

Í Hallmundarhrauni hafa fundist mannvistarleifar í Víðgelmi og Surtshelli. Svo vill til að aldursgreining beina bendir til þess að þar hafi menn verið á 10. öld, einmitt þegar hraunið hefur verið ungt. Það er augljóst að um nokkurt skeið hefur verið tiltölulega notalegt að búa í hellunum eftir að hitinn hætti að vera óþolandi og þar til hraunið var orðið of kalt. Búseta sem hefði einungis verið í hellunum á þeim tíma væri þá um leið dálítil viðbótarvísbending um hvenær hraunið hafi runnið

Ekki sýnast þessar aldursgreiningar þurfa að hnekkja því sem má lesa úr fimmtu vísu: að höfundur kviðunnar hafi vitað að Hallmundarhraun væri yngra en Eldgjárgosið mikla um 934. En fleiri líkur geta stutt þá tímasetningu.

Richard B. Stothers sem fjallaði um Eld-

gjárgosið (1998) hefur það eftir spánska sagnfræðingnum Juan de Mariana (1606) að 15. október 939 hafi sólskinið tekið á sig fölan lit um skamman tíma, en ekki er vitað til að þá hafi verið sólmyrkvi. Var orsökin kannski móða í háloftum mynduð af lofttegundinni brennisteinstvísýringi úr "Eskingum" í sambandi við skýjadropa?

Í Landnámu er sagt að Músa-Bölverkur í Hraunsási í Hálsasveit veitti Hvítá í gegnum ásinn, en áður féll hún um Melrakkadal ofan. Spyrja má hvort sá atburður tengist breytingum sem hraunrennslið olli. Sá ás sem bærinn er kenndur við er ekki annað en hæð og hefði varla heitið ás ef áin hefði þá runnið eins og nú gegnum sandsteinshrygg sem sést í ásnum sunnan árinnar og að norðanverðu undir hrauninu í Gunnlaugshöfða. Sá hryggur, líklega langur jökulgarður frá lokum ísaldar, gat þá verið hærri en farvegurinn í Skolladal eins og hann heitir nú, svo að þangað hefði áin hlotið að falla. Við landnám má þó vera að hún hafi verið búin að brjóta sér farveg til norðurs gegnum jökulgarðinn áður en hún náði að Hraunsási. Þegar hraunið rann hefur það stíflað þá útrás og gott betur svo að áin hraktist aftur niður að Hraunsási og fór að falla að einhverju leyti í gamla farveginn, því að samkvæmt lauslegri GPS-mælingu lætur nærri að hraunið á Gunnlaugshöfða sé nú jafn hátt og botn síkisins í Skolladal (Baldur Pálsson). Þarna hefur þá myndast lón og rennsli sem Bölverki bónda hefur ekki líkað. Þá hefði hann tekið til við að hjálpa ánni að brjótast í gegnum sandsteininn í ásnum, en síðan hefði hún fullkomnað verkið sjálf eins og nú gefur á að líta. Frásögn Landnámu væri þá vitnisburður um að hraunið hafi verið nýlega runnið á dögum Bölverks, en hann átti í mannskæðum útistöðum við Tind Hallkelsson á Hallkelsstöðum og bræður hans, að líkindum á síðari hluta 10. aldar. Þessi saga væri þá vitnisburður um hraunrennslið á tíundu öld, þó að atburðarásin hafi ekki endilega verið eins og hér hefur verið giskað á.

Hvenær var Hallmundarkviða ort?

Í formála sínum getur Þórhallur þess að ýmsir fræðimenn hafi talið Hallmundarkviðu vera frá 12. eða 13. öld. Án þess að ég treysti mér til að gagnrýna þá aldursákvörðun sem aðallega mun byggjast á málfari finnst mér ýmislegt benda til annars. Dr. Ólafur Halldórsson hefur þó bent mér á að í ríminu sjáist í eldri orðmynd, þrammak á fyr skammu (skömmu). Fleiri slík dæmi má nefna, svo sem í 9. og 10. vísu.

Heiðin hugsun gegnsýrir allar atburðalýsingar. Jötunn er í aðalhlutverki í kviðunni, og hvarvetna bregður kumpánum hans fyrir, en þung orð falla um erkióvininn Þór. Þetta líkist ekki guðrækilegri frásögn Jóns Steingrímssonar af Skaftáreldum sem drottins tyftun og hörmungum, "þó með stærri biðlund og vægð en verðskuldað höfðum". Auk þess er innlifun skáldsins svo mikil að atburðirnir hljóta að hafa verið í fersku minni þess eða í það minnsta heimildarmanna þess. Lýsingarnar eru trúverðugar og mjög sértækar á köflum. Þess vegna er líklegt að Hallmundarkviða hafi verið ort í heiðni á tíundu öld og af manni sem hafði aðgang að heimildum um jarðeldinn frá fyrstu hendi.

Hver var höfundur Hallmundarkviðu?

Það fer ekki á milli mála að höfundur Hallmundarkviðu hefur verið skáld sem hafði gott vald á dróttkvæðum hætti, hafði auga fyrir athyglisverðum atburðum og lýsti þeim á trúverðugan hátt á þróttmiklu líkingamáli. Um leið hefur þetta gos fært honum nýja og magnaða sýn á heiðin trúarbrögð hans og átök jötna og goða í náttúrunni, og sennilega hefur hann átt heima í nágrenni við hraunrennslið á tíundu öld. Svo vill til að sögur greina frá einum manni sem þessi lýsing getur átt við. Það var Tindur Hallkelsson á Hallkelsstöðum í Hvítársíðu. Hann var enn á lífi um 1015 og Sigurður Nordal giskaði á að hann hefði verið fæddur um 960 . Tindur var sonarsonur landnámsmannsins Hrosskels Þorsteinssonar og afkomandi hins nafnfræga Braga skálds, en föðurbróðir Gunnlaugs ormstungu. Tindur orti drápu undir dróttkvæðum hætti um Hákon jarl Sigurðarson sem var uppi 935?-995, og Snorri Sturluson vitnar í hana bæði í Heimskringlu og Eddu. Í Jómsvíkinga sögu eru ellefu vísur úr drápunni. Tindur tók þátt í Heiðarvígum, og um þá orustu eru til tvær dróttkvæðar vísur hans. Í síðari vísunni brýnir hann liðsmenn sína að hefna hinna látnu, og síðasta braglínan er endurtekin í sumum handritum. Það minnir á Hallmundarkviðu. Frá Hallkelsstöðum hefur verið fyrsta og langbesta útsýnið úr byggð yfir hraunflóðið. Það lagði síðan leið sína fyrir neðan túnið. Þegar menn smöluðu Hallkelssstaðaheiði og inn á svonefnda Selhæð hafa blasað við þrír gígar í upptökum gossins í Langjökli í um 35 kílómetra fjarlægð. En vafalítið hafa menn líka farið inn á Arnarvatnsheiði til að virða betur fyrir sér náttúruundrið eftir að gosmökkurinn sást rísa bak við austurfjöllin. Þó að Tindur skáld hafi sennilega ekki verið fæddur fyrir jarðeldinn hefur hann vafalítið haft af honum sannar sögur frá fyrstu hendi og getað lifað sig inn í þessa einstöku atburðarás.

Spyrja má hvernig Hallmundarkviða hafi varðveist.. Eldri samtímamaður Tinds, Egill Skallagrímsson, kvaðst mundu koma Arinbjarnarkviðu sinni fyrir sjónir margra, og hlýtur þá að eiga við að hún yrði rituð, væntanlega með rúnum. Þorgerður dóttir Egils hét því líka að Sonatorrek yrði rist á kefli. Reyndar hlýtur hvert metnaðarfullt skáld að hafa viljað varðveita verk sín, eins og fram kemur í tólftu vísu Hallmundarkviðu. Ekki er heldur trúlegt að menn hafi lært Hallmundarkviðu þó að þeir heyrðu hana þrisvar eins og segir í Bergbúa þætti. Hún hefur þess vegna fremur varðveist með rúnaletri í upphafi en ritari þáttarins spunnið upp umgerðina. En þó að hann hafi ekki haft staðgóða þekkingu á tilefni kviðunnar verðskuldar hann heila þökk fyrir að skila henni til seinni tíma.

Elsta eldritið?

Þegar á allt er litið sýnast talsverð rök hníga að því að Hallmundarkviða sé frásögn af Hallmundarhraunsgosi, hugsanlega í október 939 (Stothers 1998), og að jafnvel sé líka vikið að Eldgjárgosinu mikla árið 934. Þegar lagt er mat á þessa lýsingu má hafa í huga að höfundur sér náttúruna hvarvetna sem lifandi fyrirbæri í ljósi heiðinnar trúar, en það auðveldar skilninginn á sögunni. Trúverðug og ýtarleg frásögn í samtíðarstíl bendir meira að segja til að skáldið byggi á heimildum um jarðeldinn frá fyrstu hendi. Þó að minnst sé á Eldgjárgosið í Landnámu má segja að Hallmundarkviða sé elsta eiginleg eldgosalýsing á Íslandi, ómetanlegt og trúverðugt verk á sviði bókmennta og jarðfræði, og Tindur skáld Hallkelsson á Hallkelsstöðum er ekki ólíklegur höfundur hennar.

Hallmundarkviða

Hrynr af heiða fenri;

höll taka björg at falla;

fátt mun at fornu setri

fríðs aldjötuns hríðar;

gnýr, þás gengr enn hári

gramr um bratta hamra;

hátt stígr höllum fœti

Hallmundr í gný fjalla,

Hallmundr í gný fjalla.

2. Hrýtr, áðr hauga brjóti

harðvirkr megingarða,

gnýr er of seima særi

sáman, eldrinn kámi;

eimyrju læt ek áma

upp skjótliga hrjóta;

verðr um Hrungnis hurðir

hljóðsamt við fok glóða,

hljóðsamt við fok glóða.

3 Laugask lyptidraugar

liðbáls at þat síðan,

vötn koma heldr of hölda

heit, í foldar sveita;

þat spretta upp und epla

aur-þjóð vitu jóða;

hyrr munat höldum særri

heitr, þars fyrða teitir,

heitr, þars fyrða teitir.

4. Springa björg ok bungur

bergs, vinnask þá, stinnar

stór, ok hörga hrœrir

hjaldrborg, firar margir;

þytr er um Þundar glitni;

þrammak á fyr skömmu,

en magna þys þegnar

þeir hvívetna fleiri,

þeir hvívetna fleiri.

5. Þýtr í þungu grjóti

"þrír eskvinar svíra";

undr láta þat ýtar

enn, er jöklar brenna;

þó mun stórum mun meira

morðlundr á Snjógrundu

undr, þats æ mun standa,

annat fyrr um kannask,

annat fyrr um kannask.

6. Spretta kámir klettar;

knýr víðis böl hríðir;

aurr tekr upp at fœrask,

undarligr ór grundu;

hörgs munu höldar margir,

himinn rifnar þá, lifna;

rignir mest; at regni

røkkr, áðr heimrinn søkkvisk,

røkkr, áðr heimrinn søkkvisk.

7. Stíg ek fjall af fjalli,

ferk opt litum, þopta;

dýpst ferk norðr et nyrðra

niðr í heim enn þriðja;

skegg beri opt sás uggir

ámr við minni kvámu,

brýtk við bjarga gæti

bág, í Élivága,

bág, í Élivága.

8. Várum húms í heimi,

hugðak því, svás dugði,

vér nutum verka þeira,

vallbingr, saman allir;

undr er, hví "örvar" mundi

"eitrhryðju" mér heita,

þó ef ek þangat kœma,

þrekrammr við hlynglamma,

þrekrammr við hlynglamma

9. Sendi mér frá morði,

mun ván ara kvánar,

handan Hrímnis kindar

hárskeggjaðan báru;

en steinnökkva styrkvan,

stafns plóglimum gröfnum,

járni fáðan Aurni,

auðkenndan réðk senda,

auðkenndan réðk senda.

10. Sterkr, kveða illt at einu

oss við þann at senna,

Þórr veldr flotna fári;

felldr er sás jöklum eldir;

þverrðr er áttbogi urðar;

ek fer gneppr af nekkvi

niðr í Surts ens svarta

sveit í eld enn heita,

sveit í eld enn heita.

11. Veðk sem mjöll í milli,

mart er eimmyrkligt, heima;

springr jörð, því at þangat

Þór einn kveðk svá fóru;

breitt er und brún at líta

bjargálfi, mér sjálfum,

heldr skek ek hvarma skjöldu,

harmstríð, er ek fer víða

harmstríð, er ek fer víða.

12. Einn ák hús í hrauni,

heim sóttu mik beimar,

fimr vark fyrðum gamna,

fyrr aldrigi, sjaldan;

flokk nemið it eða ykkat,

élherðar, mun verða,

enn er at Aurnis brunni

ónyt, mikit víti,

ónyt, mikit víti.

Höfundur er veðurfræðingur.