2. apríl 2006 | Tímarit Morgunblaðsins | 565 orð | 1 mynd

Pistill Steinunn Ólína -

Móðir... kona... meyja

Í höfuðborg lýtalækninganna, Los Angeles, njóta nýjar tegundir fegrunaraðgerða sívaxandi vinsælda. Lýtalæknar kunna sannarlega að skapa sér ný sóknarfæri því hvað á að gera þegar búið er að fitusjúga, andlitsstrekkja og augnpokadraga viðskiptavininn?
Í höfuðborg lýtalækninganna, Los Angeles, njóta nýjar tegundir fegrunaraðgerða sívaxandi vinsælda. Lýtalæknar kunna sannarlega að skapa sér ný sóknarfæri því hvað á að gera þegar búið er að fitusjúga, andlitsstrekkja og augnpokadraga viðskiptavininn? Hvernig á að halda honum við efnið og fá hann til að halda áfram þessari endalausu viðureign við sjálfan sig? Þessum linnulausu slagsmálum við andlitið, búkinn eða hvað það nú er sem hrjáir viðkomandi.

Jú, lausnarorðið er endurreisnarsköp eða Vaginal Restoration eins og fagfólk kýs að kalla það. Og það virðist vera auðvelt að plata konur og hafa þær að féþúfu með því að halda því fram að kynfærin á þeim þurfi á viðreisn eða ásjónulyftingu að halda. Ég er að reyna að gera mér í hugarlund hvernig samtal læknis við væntanlegan viðskiptavin gæti hljómað.

Læknir: Jæja, vina mín, hvað er að angra okkur í dag?

Afturbatapíka: Ja..., æ, mér finnst hún bara orðin eitthvað svo rytjuleg á mér.

Læknir: Kíkjum á hana.

Afturbatapíkan leggst á bekkinn.

Læknir: Uss, uss, uss, það eru ó-sköp að sjá þetta.

Afturbatapíka: Hvað er til ráða?

Læknir: Nú, hér verður að stytta, þrengja og fylla.

Afturbatapíka: Og hvað gerum við?

Læknir: Við fáum fitu að láni úr mallanum á þér, af nógu er nú að taka og sprautum henni hérna. Þá verður hún öll miklu búsældarlegri. Síðan verður náttúrlega að þrengja þetta ginnungagap.

Afturbatapíka: (Bregður við) Ha?

Læknir: Já, en þú ert með drjúga bakfitu sem ætti að nýtast okkur í fóðringu. Svo getum við skellt restinni í varirnar á þér.

Afturbatapíka: Og hvað með aukaverkanir?

Læknir: Þú verður að öllum líkindum alveg tilfinningalaus í lengri eða skemmri tíma en maðurinn þinn ætti að verða alveg himinlifandi.

Vestrænar þjóðir hafa eytt töluverðum tíma og þrótti í að berjast gegn umskurði á kvenfólki í þriðja heiminum. En nú þykja aðgerðir af þessu tagi fullkomlega eðlilegar og má nánast tala um tískufyrirbæri, að minnsta kosti hér í Ameríku.

Datt inn í sjónvarpsþátt um daginn þar sem læknir var að líta á afrakstur neðanmálsaðgerðar sinnar. Auðvitað eru kynfæri og geirvörtur kvenna ekki sýnd í amerísku sjónvarpi. Það þykir háskalegt andlegri velferð barna. Því eru þessir líkamspartar sýndir ruglaðir. Undarlegur tvískinnungur þar á ferð. Sömu sögu er reyndar að segja í amerískum tískublöðum. Geirvörtur kvenna eru þar jafnan fótósjoppaðar út.

En sem sagt, læknirinn bograði þarna yfir kvenmannsbelgnum og rausaði skælbrosandi upp úr sér:

,,Nei, sjá bara hvað hún er sæt. Ég er virkilega glaður fyrir hennar hönd. Hún er bara alveg fullkomin á henni. Þetta á eftir að breyta öllu fyrir hana. Síðan bætti hann við hreykinn: ,,Ég setti líka í hana nýtt meyjarhaft þannig að hún er svo gott sem ný."

Ég veit ekki afhverju mér skullu í hug hendingar úr ljóðinu Minni kvenna eftir Matthías Jochumsson.

Fósturlandsins Freyja,/fagra Vanadís,/móðir, kona, meyja,/meðtak lof og prís!

Takið eftir því í hvaða röð Matthías raðar orðunum í þriðja vísuorði: Móðir, kona, meyja. Hér er komin forspá skáldsins. Fyrst verðum við, eins og títt er á Íslandi, mæður barnungar. Svo verðum við sjálfstæðir einstaklingar þegar börnin vaxa loks úr grasi og getum því þá fyrst talist konur. Og svo á gamals aldri getum við aftur orðið meyjar. Og það meira segja hreinar meyjar. Þvílíkt afbragð! Ég sé sjálfa mig í anda á elliheimilinu raupandi um það í hópastarfinu hvað það sé spengilegt í mér meyjarhaftið. Synd náttúrulega með sjónina og heyrnina en meyjarhaftið sé eins og nýþvegið snúrustrengt lak. | steinunnolina@mbl.is

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.