19. apríl 2006 | Tónlist | 353 orð | 1 mynd

Tónlist | Tónlistarhátíð á Reykhólum tileinkuð Sigfúsi Halldórssyni

Litla flugan varð til á átta mínútum

Lögum Sigfúsar Halldórssonar tónskálds verða gerð góð skil á Reykhólum sumardaginn fyrsta.
Lögum Sigfúsar Halldórssonar tónskálds verða gerð góð skil á Reykhólum sumardaginn fyrsta.
Eftir Ingveldi Geirsdóttur ingveldur@mbl.is SIGFÚSARHÁTÍÐ verður haldin á Reykhólum á morgun, sumardaginn fyrsta. Tíu ár eru liðin frá andláti Sigfúsar Halldórssonar tónskálds og er hátíðin tileinkuð honum.
Eftir Ingveldi Geirsdóttur ingveldur@mbl.is
SIGFÚSARHÁTÍÐ verður haldin á Reykhólum á morgun, sumardaginn fyrsta. Tíu ár eru liðin frá andláti Sigfúsar Halldórssonar tónskálds og er hátíðin tileinkuð honum. Sigfús dvaldi þónokkuð á Reykhólum og samdi þar m.a. eitt þekktasta lag sitt, Litlu fluguna, og tvö önnur lög eftir Sigfús, Ljósanna faðir og Í grænum mó, voru frumflutt á Reykhólum á sínum tíma.

Ljóðið sem Sigfús samdi Litlu fluguna við er eftir Sigurður Elíasson, tilraunastjóri á Reykhólum. Í endurminningum Sigurðar, Lækur tifar létt, sem komu út hjá Fjölva 1993, segir Sigurður skemmtilega frá því hvernig þetta vinsæla lag varð til.

Sigurður hafði samið ljóðið þegar hann lá veikur af mislingum. Að eigin sögn páraði hann ljóðið niður á blað og lagði síðan inn í bók sem fór upp í hillu. Sigfús Halldórsson, vinur hans, kemur seinna í heimsókn og er eitthvað að sniglast í skrifstofu Sigurðar og fer að skoða bækurnar. Inni í einni bókinni finnur hann ljóðið og þykir það gott. Sigurður samþykkir það ekki og segir þetta vera bull úr sér og ætlar að hrifsa blaðið af Sigfúsi og brenna það. Sigfús segir að hann langi til að gera lag við vísurnar tvær, Sigurður samþykkir það með því skilyrði að hann verði þá að semja lagið á innan við tíu mínútum. Sigfús sest strax við píanóið og byrjar að semja eftir ljóðinu og Sigurður tekur tímann. Eftir átta mínútur var lagið fullskapað og stuttu síðar hljómaði það út um allt land og er í dag ein vinsælasta dægurlagaperla okkar Íslendinga.

Sigfúsarhátíðin hefst kl. 16 í nýja íþróttahúsinu á Reykhólum. Gunnlaugur Sigfússon, sonur tónskáldsins, byrjar á að flytja stutt ávarp og segja frá föður sínum og Reykhólum. Að því loknu syngja Álftagerðisbræður nokkur lög eftir Sigfús og fleiri, Hildur Sigurgrímsdóttir fiðluleikari í Árbæ leikur tvö til þrjú lög og dagskránni lýkur með að sönghópurinn Litlu flugurnar tekur lagið.

Að lokinni dagskrá í íþróttahúsinu verður frítt í Grettislaug, hina ágætu 25 metra sundlaug á Reykhólum. Þar verður líka dagskrá og fyrir utan sundföt er mælst til þess að sundlaugargestir hafi rammíslenskan ullarfatnað meðferðis.

Þetta er í fjórða skiptið sem Reykhólahreppur stendur fyrir menningardagskrá sumardaginn fyrsta.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.