Jóhann Ársælsson
Jóhann Ársælsson
Jóhann Ársælsson fjallar um þorskastríðin og gerir athugasemd við umfjöllun í aukablaði Morgunblaðsins: "Þetta var sigur sameinaðrar þjóðar og djarfra forystumanna en ekki sigur Sjálfstæðisflokksins eins og Morgunblaðið lætur í veðri vaka með bláa blaðinu sínu á dögunum."
MEÐ Morgunblaðinu fengum við í hendur aukablað í bláleitum lit sem fjallaði um þorskastríðin. Lesendur sem ekki muna sjálfir þessa tíma og fletta þessu blaði, skoða uppsetningu, fyrirsagnir, myndir af ráðamönnum o.s.frv. hljóta að álykta sem svo að Sjálfstæðisflokkurinn hafi unnið aðalsigurinn í landhelgisdeilunum. Til að fá raunsanna mynd af málinu verða lesendur að lesa grein Guðna Th. Jóhannessonar sem ég vona að sem flestir hafi gert. Þar lýsir Guðni af fullri hlutlægni baráttu sem þjóðin háði af einurð undir forystu stjórnmálamanna sem þorðu að taka djarfar ákvarðanir.

Bak við þá forystu sem á hverjum tíma stóð í eldlínunni stóð þjóðin. Samstaðan var nánast órofa. Öll fjögur skrefin voru mikilvæg. Fjögurra mílna lögsaga með lokun flóa og fjarða var gríðarlega mikilvægt upphaf þar sem sjálfstæði þjóðarinnar til slíkra athafna hlaut eldskírnina. Þá var Hermann Jónasson forsætisráðherra en Ólafur Thors lék lykilhlutverk. Útfærslan í tólf mílur var ekki síður afar mikilvægur áfangi en þá bar hæst nöfn þeirra Hermanns Jónassonar og Lúðvíks Jósepssonar. En baráttan fyrir þessum tveimur fyrstu áföngum var þó að sumu leyti auðveldari en það sem á eftir kom vegna góðrar samstöðu sem myndaðist á milli margra strandþjóða um tólf mílna landhelgi. Og enn í dag tala Íslendingar um sigrana í landhelgismálinu. Það stríð vannst með viðurkenningu tólf mílna landhelginnar.

Efnahagslögsagan

En baráttan hélt áfram og nú fyrir efnahagslögsögu strandþjóða. Sú barátta snerist um að strandríki ætluðu í raun að helga sér úthöfin að mati margra öflugra fiskveiðiþjóða. Í þeirri baráttu heltust úr lest stuðningsmanna ýmsir sem ekki áttu sömu hagsmuni og Íslendingar af stærri fiskveiðilögsögu.

Útfærslan í fimmtíu mílur var þess vegna afar djörf ákvörðun, eftirleikurinn erfiður og átökin hörð. Aftur var Lúðvík Jósepsson í forystu en nú var það Ólafur Jóhannesson sem stýrði ríkisstjórn. Sigurinn í þeim áfanga var í raun aðalsigurinn. Þegar það varð ljóst að þjóðir gætu helgað sér fiskveiðilögsögu utan tólf mílna fór málið að snúast um hver ytri mörk slíkrar lögsögu ættu að vera á heimsvísu og fljótlega fóru strandríki að safnast saman um stuðning við tvö hundruð mílna lögsögu. Og enn tóku Íslendingar djarfa ákvörðun. En nú báru ábyrgðina Geir Hallgrímsson og Matthías Bjarnason. Með lokum þeirra hörðu átaka sem þarna fylgdu á eftir má segja að mál hafi verið í aðalatriðum í höfn. Hver af þessum áföngum var mikilvægastur?

Um það má hafa skiptar skoðanir en mín er sú að fimmtíu mílurnar hafi opnað leiðina að lokamarkinu. Allir stjórnmálaflokkarnir sem voru á dögum í þessum fjórum stríðum áttu hlut að lokasigrinum. Sjálfstæðisflokkurinn fylgdi lokasókninni fast eftir. Líklega vegna þess að hann átti hvorki þátt í tólf mílna útfærslunni né fimmtíu mílunum. Þannig tryggði atburðarásin hámarksárangur að mínu mati. Þetta var sigur sameinaðrar þjóðar og djarfra forystumanna en ekki sigur Sjálfstæðisflokksins eins og Morgunblaðið lætur í veðri vaka með bláa blaðinu sínu á dögunum. Svona blaðamennska á aldrei við en þó síst af öllu í landhelgismálinu. Það var stórvirki sem vannst vegna hetjudáða starfsmanna Landhelgisgæslunnar og vegna þess að forystumenn stjórnmála höfðu einurð og dirfsku til að taka stórar ákvarðanir. En það sem öllu skipti var að þjóðin stóð einhuga að baki þeim.

Höfundur er alþingismaður.