15. júní 2006 | Minningargreinar | 2412 orð | 1 mynd

BJÖRN GUÐBRANDSSON

Björn Guðbrandsson fæddist í Viðvík í Skagafirði 9. febrúar 1917. Hann lést á Droplaugarstöðum 8. júní síðastliðinn. Foreldrar hans voru Guðbrandur Björnsson prófastur í Viðvíkurhreppi í Skagafirði og Anna Sigurðardóttir húsmóðir. Systur Björns voru fjórar, Guðfinna, Sigrún, Elinborg og Sigríður, þær eru allar látnar, hann var yngstur systkinanna. Björn kvæntist 11. janúar 1948 Sigríði Guðbrandsdóttur. Dætur þeirra eru fimm, þær eru: 1) Matthildur, gift Malcolm Sheard, búsett í Ástralíu. Áður gift Róberti Jónssyni. Börn Matthildar og Róberts eru a) Björn, í sambúð með Steinunni Steinarsdóttur; dætur þeirra Emelía Ósk og Embla Nótt, og b) Snædís, börn hennar Alexander og Aþena Sól. 2) Anna Sigríður, gift Einari Gústafssyni, þau eiga tvo syni, a) Gústaf, í sambúð með Silju Kristjánsdóttur, og eiga þau dótturina Sölku og b) Björn. 3) Inga Dóra, gift Birni Birnir, búsett í Kaliforníu og eiga þau tvö börn, Hallfríði Björk og Einar Björn. 4) Helga Birna, gift Kristni Hallgrímssyni og eiga þau þrjú börn, Hildi Helgu, Sigurð Kjartan og Hallgrím Björn. 5) Sigrún, gift Magnúsi Stephensen, sonur þeirra Sindri. Áður var Sigrún gift Jóni Ólafssyni, og eiga þau tvær dætur, Sigríði Birnu og Önnu Friðrikku. Sonur Björns og Rósu Jóhannsdóttur er Skúli Jóhann, kvæntur Önnu Sigríði Garðarsdóttur, börn þeirra eru Þórhallur, Elfa Rósa, Sigrún Kristín og Hlynur Skúli.

Björn brautskráðist frá MA 1938 og hóf málfræðinám, fyrst í Kaupmannahöfn og síðar við Kielarháskóla 1939. Hann lauk læknaprófi frá HÍ í maí 1945 og fór fljótlega til Bandaríkjanna í framhaldsnám í barnalækningum og starfaði þar sem barnalæknir. Frá 1949-1952 starfaði hann sem barnalæknir í Tókýó. Eftir að hann kom heim vann hann á barnadeild Landakotsspítala og rak læknastofu.

Björn var einn af stofnendum Fuglaverndunarfélags Íslands.

Útför Björns verður gerð frá Neskirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 13.

Kveðja frá dætrum

Pabbi.

Fuglar, skoða fugla. Fuglatalning.

Fara upp á spítala, lækna börn.

Göngutúrar á Álftanesi á sunnudagsmorgnum.

Fullur bíll af stelpum á leið í Skagafjörðinn.

Hlýja.

Rússneska, ítalska, bóklestur.

Sígild tónlist, óperur, Mozart.

Húmor.

Vernda örninn.

Ferðalög á Vestfirði og út í heim.

Vaknaður fyrir allar aldir til að útbúa morgunmat.

Stjörnuskoðun.

Ég kynntist tengdaföður mínum Birni Guðbrandssyni barnalækni sumarið 1976. Við sátum sitthvorumegin við eldhúsborðið í Grænuhlíð 6 með Sigríði og systrunum fimm og þær töluðu allar samtímis. Ég átti erfitt með að fylgjast með samræðunum en þá brosti Björn og kinkaði til mín kolli handan við borðið. Þegar öllu var á botninn hvolft var þetta ekki jafn mikill hávaði og í fuglabjargi. Ég komst fljótt að því að við Björn áttum mörg áhugamál sameiginleg. Hann hafði allt frá barnæsku haft mikinn áhuga á náttúrunni og fuglalífi og átti sem barn mikið safn af fuglseggjum sem hann hafði safnað í nágrenni æskustöðva sinni í Viðvík í Skagafirði.

Björn var frábær læknir og hafði sérstaka hæfileika til að sjúkdómsgreina. En öllum tómstundunum eyddi hann í bókmenntir og tónlist, alltaf þegar hann var í Grænuhlíðinni hljómaði Mozart um húsið. Hann stundaði líka tungumálanám og talaði meðal annars rússnesku og ítölsku. Margur rússneskur sjómaður varð feginn þegar hann var borinn fyrir lækni sem var altalandi á rússnesku, greindi fljótt hvað var að þeim og sendi þá síðan í viðeigandi meðferð.

Aðaláhugamál Björns var fuglaskoðun og fuglavernd. Hann stofnaði Fuglaverndunarfélagið og á heiðurinn af því að bjarga íslenska erninum frá útrýmingu. Þegar Björn fór að sinna þessum málum voru eftirlifandi arnarpör teljandi á fingrum annarrar handar. En Björn og vinir hans í Fuglaverndunarfélaginu fengu Alþingi til að vernda arnarstofninn.

Ef Björn hefði setið við svo búið er hætt við að arnarstofninn hefði samt liðið undir lok og íslenskt fuglalíf væri fátækara fyrir vikið. Það þurfti nefnilega líka að breyta viðhorfi Íslendinga til arnarins, sérstaklega þeirra sem voru nágrannar hans og töldu hann vera hættulegan ránfugl. Hann fór á hverju sumri í leiðangur að telja ernina og ræða við bændur sem áttu land með arnarhreiðrum. Ég fór með Birni í slíka leiðangra og þá opnuðust augu mín fyrir að það var erfiðra að vernda örninn en ég hafði gert mér í hugarlund.

Þó að hin gömlu viðhorf til arnarins séu nú að hverfa voru þau ríkjandi þegar Björn fór af stað og það má kalla það kraftaverk að honum tókst að vernda örninn. Ég komst að því í arnartalningaleiðöngrunum hvernig hann fór að þessu. Ég hjó eftir því að margir bændur höfðu Björn í einstöku uppáhaldi og voru sérstakir vinir hans. Jafnvel þó að þeir væru óvinir arnarins og lægju ekki á þeirri skoðun sinni. Það sem vó þyngst var að Björn var eini maðurinn sem þeir treystu fullkomlega fyrir börnunum sínum og barnabörnum. Alltaf þegar þau voru veik og mikið lá við sendu þeir þau til Björns í Reykjavík og hann læknaði þau. Þegar allt kom til alls voru börnin miklu mikilvægari en einhverjir æðarfuglar.

Íslendingar munu heiðra minningu Björns best með því að vernda náttúru og fuglalíf landsins. Og þegar íslenski "Örninn flýgur fugla hæst í forsal vinda" þá ber hann minningu Björns Guðbrandssonar barnalæknis á vængjum sínum.

Björn Birnir.

Þótt okkur bræðrunum væri ljóst hvert stefndi er við heimsóttum Björn frænda 7. júní sl. grunaði okkur ekki að hann myndi kveðja innan sólarhrings. Við andlát hans hrannast upp minningar frá liðnum dögum um ævintýralegan frænda í Ameríku og Japan, sem var læknir og átti þá þrjár stelpur. Eitt sinn kom til okkar risastór pakki frá Japan sem í var stórt málverk sem hann hafði látið mála af okkur fjórum eldri systkinunum eftir ljósmynd sem mamma hafði sent honum.

Þau fluttu síðan heim til Íslands fyrir rúmum fimmtíu árum þessi fallegu og glæsilegu hjón, Sigríður og Björn, með dæturnar þrjár.

Þá var það vordag einn að ég, Guðbrandur, var á gangi með skólafélaga mínum, Óla, í Tjarnargötu. Glæsilegur bíll, amerískur Oldsmobile af árgangi 1954, með grænum rúðum, svartur að neðan, hvítur að ofan, með hvítum dekkjum, og svo vel fjaðraður að hann næstum nam við jörðu, kom akandi niður Tjarnarbrekku.

Óli sagði að þetta væri flottasti bíll á Íslandi. Ég sagði að frændi minn ætti hann.

Óli efaðist um það. Bíllinn nam staðar og Björn kallaði á mig: "Komdu með mér í vitjanir, frændi." Ég stökk af stað og settist frammí. Óli stóð einn eftir við tjörnina.

Björn var mjög spurull og spurningunum rigndi yfir mig hratt.

"Á ekki bráðum að fara að ferma þig?" Hann vissi ósköp vel að það var ekki á næstu árum.

"Kanntu smærri spámennina?" "Nei." Hér þýddi ekkert að látast þekkja þá.

"Hóseas, ..., Zakkarías og Malakías." Björn kunni þá utanað. Við ókum um allan bæinn.

Eftir hverja vitjun tók Björn pappíra fram og nóteraði. Undir kvöld fórum við í síðustu vitjunina. Það var uppi í Rauðhólum, hverfið var mjög fátæklegt.

Sól var lágt á himni og skein á rauðamölina þegar Björn gerði upp bækur sínar. Hann hafði ekki viljað taka við borgun fyrir síðustu vitjunina.

Seinna skildi ég að þótt það væri gaman að eiga frænda á fínasta bíl landsins þá var það mun meira virði að þessi frændi hafði hjartað á réttum stað.

Ekki voru það eingöngu læknavitjanir sem við fórum í með Birni frænda. Fljótlega kom í ljós að hann var sérstaklega hugsunarsamur við okkur systkinin og þegar hann var að fara með stelpurnar sínar í sunnudagsbíltúra hafði hann hugsun á að taka okkur með. Markmiðið með þeim ferðum var að skoða fugla og fræða okkur um örnefni. Ferðirnar enduðu svo alltaf í síðdegiskaffi á Hótel Selfossi. Á Stokkseyri var það þórshaninn en í Biskupstungunum var það jaðrakaninn. Í þessum ferðum vakti Björn þann áhuga okkar á íslenskum fuglum og náttúru sem við búum ríkulega að enn í dag. Björn var einn af stofnendum fuglaverndunarfélagsins og honum var mjög annt um að haförninn myndi ekki deyja út. Björn var ákaflega barngóður maður. Setningin "Er ekki gaman að vera hjá Birni frænda?" hljómar nú í kollum okkar.

Sumarið 1956 var ég, Áslaug, send í sveit norður í Skagafjörð. Björn var á leið norður og tók mig með. Mér fannst mikill heiður að fá að vera heilan dag ein með frændanum og sitja frammi í. Alla leiðina var Björn að vekja athygli mína á umhverfinu.

Þegar við eignuðumst börn var ekkert í heimi eins gott og að leita til hans ef eitthvað var að þeim. Rétt eftir að Áslaug fluttist með barnahópinn sinn út á land sendi hann henni bóluefni gegn mislingum og lét þau skilaboð fylgja með, að það ætti ekki að leyfast að leggja það á börn að fá mislinga.

Ekki voru það bara börnin sem nutu læknishjálpar Björns. Oft var gott að skreppa til hans ef eitthvað var að og var hann jafnan fljótur að greina hvað var að og til hvaða aðgerða skyldi grípa. Þótt okkur væri þá ekki hlýtt yfir nöfn minni spámannanna var eins gott að hafa landsmálin á takteinum því að eins líklegt var að þar þyrfti að gera grein fyrir þekkingu sinni og skoðunum.

Með Birni frænda er genginn góður læknir og góður maður. Blessuð sé minning hans.

Áslaug, Guðbrandur, Halldís, Halldór og Steinunn

Ármannsbörn.

"Dóná er grá, ekki blá," var það eina, sem þessi herra sagði við mig á meðan við dönsuðum valsinn, sem Aage Lorange lék á píanóið uppi á sal í menntó vorið 1941. Ég vissi að hann var læknanemi að norðan.

Nokkrum árum síðar varð hann mágur minn. Brosandi hugsa ég um okkar kynni, sem byrjuðu í Washington D.C. 1948. Hann var þá yfirkandídat við hinn virta Children Hospital og fyrsti útlendingurinn, sem hafði hlotið þann heiður. Við systurnar reyndum auðvitað að hittast eins oft og við gátum, en eiginmenn okkar höfðu mikið að gera. En stundum fórum við öll saman í bíltúr og þá gat mágur minn pirrað mig, eins og þegar hann sagði: "Hættið þessari Íslandsvælu. Þið eruð í einni mestu menningarborg heims. Opnið augun og eyrun. Hvernig getur ykkur leiðst?" Einnig þegar hann fór í ísskápinn minn og sagði: "Hentu þessu, þetta er tveggja daga gamalt." - En auðvitað áttum við margar glaðar stundir.

Þegar hann hafði lokið framhaldsnámi og var orðinn fullgildur barnalæknir bauð Bandaríkjastjórn honum stöðu við herspítala í Tókýó. Þangað fluttu þau og bjuggu í þrjú ár og sneru aftur til Washington DC. Þá vorum við á leið til Tókýó, en við náðum að vera saman í nokkrar vikur. Síðan fluttust Sigga og Björn heim til Íslands. Árin liðu. Þau eignuðust fimm dætur og við eignuðumst fjögur börn og settumst að fyrir fullt og allt í Washington D.C. Björn og Sigga komu oft í heimsókn, Björn stundum á læknafundi eða á leið til Víetnam. Allaf skvöldruðum við systurnar og hann breytti aldrei tímanum á úrinu sínu.

Með árunum kunnum við hjónin betur og betur að meta Björn, þennan merkilega mann. Síðast þegar við Henry vorum heima á Íslandi árið 1995 skartaði Sigga sínum fallegasta borðbúnaði og bjó til frábæra máltíð. Á meðan við nutum hennar skvöldruðum við systur ekki en við fjögur ræddum um ferðalög, tungumál, náttúruvernd og tónlist. Björn var mikill tónlistarunnandi og kunni flestar óperur Mozarts, uppáhaldstónskálds síns, utan að. Um leið horfðum við á fagurt sólarlagið út um stofugluggann þeirra. - Okkur leið vel og við vorum sæl og þakklát fyrir okkar líf.

Við kveðjum Björn með virðingu.

Hallfríður (Adda) og Henry Schneider.

Við Björn Guðbrandsson urðum stúdentar sama vorið, hann fyrir norðan og ég fyrir sunnan, og sigldum báðir til náms erlendis sama haustið, sinn til hvors landsins. Leiðir okkar lágu ekki saman fyrr en rúmum áratug síðar, og þá í Bandaríkjunum. Ég var nýlega kominn vestur um haf en Björn var að snúa aftur frá störfum í Austurlöndum. Það var ekki stór hópur Íslendinga sem þá dvaldi í Washington, en kynnin innan hópsins urðu því nánari, og við Guðrún nutum í ríkum mæli vináttu þeirra Björns og Sigríðar, sem bætti okkur þann missi að systir Sigríðar og mágur höfðu flust brott um svipað leyti.

Björn var athafnasamur um þessar mundir. Á ótrúlega skömmum tíma tókst honum að brjóta sér braut sem frjálst starfandi barnalæknir í Maryland, í einu af úthverfum Washingtonborgar, þar sem hann naut brátt mikilla vinsælda. Um leið skemmti hann sér við að þreyta réttindapróf lækna í hinum ýmsu ríkjum Bandaríkjanna, sem lá við að hann safnaði sem minjagripum. Í samkvæmum landa sinna var hann hrókur alls fagnaðar og raulaði heilu óperurnar undir spilum ef svo bar undir. En þau Björn og Sigríður undu ekki lengi fyrir vestan, og fyrr en varði höfðu þau snúið aftur heim til Íslands. Nokkrum árum síðar fylgdum við Guðrún á eftir og vinátta okkar og samverustundir hófust að nýju.

Það var gott að eiga Björn Guðbrandsson að sem heimilislækni, ætíð reiðubúinn að bregðast við á augabragði, ætíð glöggur, öruggur og snarráður. Þeirra kosta nutu ekki aðeins vinir hans heldur allir sem til hans leituðu. Ég varð einnig þeirrar gleði aðnjótandi að mega styðja Björn við verndun arnarins, þegar það varð áhugamál hans, og fylgjast stundum með honum á þeim ferðum er hann fór í því skyni. Lengi vel gengum við árlega Reynisvallaháls endilangan og vitjuðum þess ríkis arnarins þar sem aðrir fuglar eru hljóðir.

Það er gæfa að hafa átt samleið með svo hæfileikaríkum, sérstökum og merkum manni sem Björn Guðbrandsson var. Við fráfall hans sendi ég Sigríði konu hans og fjölskyldu þeirra allri innilegar samúðarkveðjur.

Jónas H. Haralz.

Með Birni Guðbrandssyni er genginn einn af frumkvöðlum í stétt íslenskra barnalækna. Björn Guðbrandsson barnalæknir átti að baki farsælan feril sem barnalæknir um lönd og álfur.

Björn sótti sérmenntun sína til Bandaríkjanna á árunum eftir seinni heimsstyrjöldina. Hann lagði mikinn metnað í starf sitt og nám og átti farsælan starfsferil í Bandaríkjunum, en einnig í Asíu á vegum bandaríska hersins.

Að afloknu námi og starfi í Bandaríkjunum flutti Björn til Íslands. Árið 1959 var hann ráðinn sem barnalæknir að Landakotsspítala. Ráðning Björns í þá stöðu var vísir að barnadeild Landakotsspítala, deild, sem síðar reyndist afbragðs góð og sýndi frábæran árangur. Samhliða störfum á Landakoti rak Björn eigin lækningastofu um áratuga skeið. Fjöldi íslenskra barna og foreldrar þeirra eru Birni þakklát fyrir góða þjónustu.

Björn var fluggáfaður og skemmtilegur persónuleiki, hafði gaman af að segja sögur og lét eitt og annað flakka. Hann hafði úr miklum viskubrunni að miðla og bjó yfir mikilli reynslu í faginu. Af Birni eru til margar skemmtilegar sögur og frásagnir, bæði af störfum hans sem barnalæknir og áhugamálum hans sem fuglaskoðara. Við sem áttum þess kost að kynnast Birni sáum mörg dæmi þess hve fljótur hann var að greina vandamálin og taka af skarið með meðferð og önnur úrræði. Við yljum okkur nú við margar skemmtilegar minningar.

Barnalæknar á Íslandi eru þakklátir fyrir samferðina. Við vottum fjölskyldu Björns okkar dýpstu samúð. Megi Björn Guðbrandsson barnalæknir hvíla í friði.

Ásgeir Haraldsson,

Árni V. Þórsson.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.