Þorsteinn Ó. Thorarensen fæddist á Móeiðarhvoli í Hvolhreppi, Rangárvallasýslu 26. ágúst 1927. Hann lést 26. október síðastliðinn. Foreldrar hans voru hjónin Óskar Þorsteinsson Thorarensen bóndi og hreppstjóri á Breiðabólsstað, Fljótshlíðarhreppi, Rangárvallasýslu, síðar forstjóri Bifreiðastöðvar Reykjavíkur, f. 24. sept. 1884, d. 20. sept. 1953 og Ingunn Eggertsdóttir Thorarensen húsfreyja f. 7. jan. 1896, d. 12. mars 1982. Foreldrar Óskars voru Þorsteinn Thorarensen, f. 2. sept. 1853, d. 29. apríl 1916, bóndi og hreppstjóri á Móeiðarhvoli í Hvolhreppi og Solveig Guðmundsdóttir, f. 8. ágúst, d. 29. apríl 1916, húsfreyja á Móeiðarhvoli. Foreldrar Ingunnar voru Eggert Pálsson, f. 6. okt. 1864, d. 6. ágúst 1926 prófastur og alþingismaður á Breiðabólsstað og Guðrún Hermannsdóttir, f. 18. mars 1866, d. 4. júní 1959, húsfreyja. Systkini Þorsteins eru Eggert, framkvæmdastjóri, f. 26. maí 1921, Guðrún aðalgjaldkeri, f. 1. apríl 1923, Oddur, sóknarprestur og síðar safnvörður, f. 12. jan. 1932, d. 20. apríl 2004, Skúli, lögfræðingur og fulltrúi, f. 12. jan. 1932, d. 28. ágúst 1969, Solveig, menntaskólakennari, f. 9. sept. 1933 og Ásta Guðrún, deildarstjóri, f. 10. júlí 1937.

Þorsteinn kvæntist 29. maí 1954, Sigurlaugu Bjarnadóttur, f. 4. júlí 1926 í Vigur, Ísafjarðardjúpi, menntaskólakennara, borgarfulltrúa og alþingismanni. Foreldrar hennar voru hjónin Bjarni Sigurðsson, f. 24. júlí 1889, d. 30. júlí 1974, bóndi í Vigur og Björg Björnsdóttir, f. 7. júlí 1889, d. 24. jan. 1977, húsfreyja í Vigur.

Börn Þorsteins og Sigurlaugar eru 1) Ingunn, f. 15. nóvember 1955 framhaldsskólakennari og síðar framkvæmdastjóri Fjölva í Reykjavík. Fyrri sambýlismaður Ingunnar er Friðrik Gústaf Friðriksson, f. 17. jan. 1943 í Reykjavík, cand. mag., hagfræðingur í Reykjavík. Sonur þeirra er a) Þorsteinn, f. 30. júní 1979. Sambýliskona Þorsteins er Dóra Gunnarsdóttir, f. 11. september 1981. Dóttir þeirra er Ingunn Marta, f. 16. sept. 2004. Sambýlismaður Ingunnar er Hallgrímur Þórarinsson, húsasmíðameistari og eiga þau synina b) Björn, f. 14. júlí 1995 og c) Stefán f. 5. október 2000. 2) Björn, f. 20. mars 1962 í Reykjavík, tölvunarfræðingur og tónlistarmaður. Fyrri kona hans er Eydís Kristín Sveinbjarnardóttir, f. 24. júní 1961, hjúkrunarfræðingur og sviðsstjóri. Börn þeirra eru a) Sveinbjörn f. 26. nóvember 1984 og b) Sigurlaug f. 18. desember 1990. Fyrrverandi sambýliskona Björns er Þórunn Ósk Marinósdóttir, f. 23. okt. 1971 víóluleikari. Dóttir þeirra er c) Arna Marín f. 28. mars 2000. 3) Björg, f. 24. sept. 1966, prófessor við lagadeild Háskóla Íslands. Eiginmaður hennar er Markús Sigurbjörnsson hæstaréttardómari. Börn þeirra eru a) Ingunn Elísabet, f. 4. mars 1994 b) Sigurbjörn, f. 28. febr. 1997 og c) Þorsteinn, f. 28. febr. 1997.

Þorsteinn varð stúdent frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1946 og lauk lagaprófi frá Háskóla Íslands 1952. Hann starfaði sem blaðamaður við Morgunblaðið frá 1947 til 1961, fréttastjóri við dagblaðið Vísi frá 1961 til 1966 og var fréttaritari Reuters fréttastofunnar á árunum 1951 til 1986. Þorsteinn stofnaði bókaútgáfuna Fjölva árið 1966 og starfaði þar við umfangsmikla útgáfu og margvísleg ritstörf allt þar til hann veiktist árið 2000. Eftir það minnkaði starfsgeta hans þótt hann ynni við skriftir nánast til dauðadags. Eftir Þorstein liggur fjöldi ritverka af fjölbreytilegum toga, bæði frumsamin verk og þýdd.

Þorsteinn verður jarðsunginn frá Dómkirkjunni í Reykjavík í dag og hefst athöfnin klukkan 15.

Það er skrítið að missa úr lífi sínu mann eins og hann afa minn Þorstein. Mann sem var minn tryggasti vinur og bakhjarl. Hann afi minn skilur eftir sig tóm sem verður seint fyllt.

Afi var sannarlega draumaafi. Sem barn var ég óendanlega stoltur af honum. Meðan aðrir krakkar hlustuðu á Grimmsævintýri upplesin af Þorsteini á kassettum fékk ég að njóta þeirra forréttinda að hlusta á ævintýrin beint af vörum sögumannsins sjálfs. Afi Þorsteinn var endalaus uppspretta af sögum, fróðleik og lífsspeki. Mér fannst alltaf og finnst reyndar enn að hann hafi verið einn fróðasti maður sem uppi hefur verið á Íslandi. Aðdáun mín á afa var slík að ég trúði því fram til 7 ára aldurs að hann væri höfundur Biblíunnar.

Alveg frá barnæsku hefur afi verið sá maður sem ég met hvað mest og engum manni vildi ég fremur líkjast. Hann var alltaf til staðar ef eitthvað bjátaði á, reiðubúinn að hjálpa, alveg sama hve upptekinn hann var sjálfur. Undir hann bar ég allar stórar ákvarðanir. Hann var klettur í mínu lífi.

Þegar ég var fjögurra ára gamall settist afi niður með mér og við áttum saman stund sem er mér greypt í minni. Hann sagði við mig að nú væri ég að verða svo stór, næstum fimm ára gamall, að hann hefði ákveðið að byrja að tala við mig um heimsmálin eins og fullorðinn mann og hætta tala við mig sem smábarn. Þessi viðurkenning frá afa mínum fyllti mig miklu stolti og síðan þá hef ég ætíð reynt að haga lífi mínu þannig að afi minn gæti verið stoltur af mér.

Þegar ég hugsa um allt það sem afi gerði fyrir mig fyllist ég miklu þakklæti fyrir að hafa fengið að upplifa æsku mína og unglingsár undir tryggri leiðsögn hans. Á sama tíma finnst mér það dapurt að dóttir mín og komandi kynslóð muni aldrei fá að kynnast manninum sem mótaði mig sem einstakling og skipti mig svo miklu máli.

En svona er víst gangur lífsins. Afi lifði innihaldsríku lífi og afkastaði ótrúlega miklu í starfi sínu sem rithöfundur og bókaútgefandi. Hann var gæfumaður að geta starfað við það sem honum þótti skemmtilegast; að skrifa bækur. Hann átti góða konu, hana ömmu mína, og saman bjuggu þau afkomendum sínum yndislegt heimili.

Afi hefur gefið börnum sínum og barnabörnum minningar sem við munum ætíð varðveita í hjarta okkar.

Þó svo að Ingunn Marta dóttir mín fái aldrei að kynnast afa Þorsteini, þá er það trú mín að hann lifi áfram í gegnum afkomendur sína. Það er ljúf skylda okkar að halda uppi minningu þessa mikla, góða manns.

Afi minn, um leið og ég þakka þér fyrir allt, vona ég að þú ljáir okkur styrk þinn til að halda áfram hnarreist í lífinu þrátt fyrir að þú sért horfinn á braut.

Þorsteinn Baldur

Friðriksson.

Þú komst í hlaðið á hvítum hesti,

þú komst með vor í augum þér.

Ég söng og fagnaði góðum gesti

og gaf þér hjartað í brjósti mér.

Ég heyri álengdar hófadyninn,

ég horfi langt á eftir þér.

Og bjart er alltaf um besta vininn

og blítt er nafn hans á vörum mér.

Þetta kvæði er órjúfanlega bundið minningunni um Þorstein móðurbróður minn. Það söng hann alltaf með miklum tilþrifum, gjarnan með White Horse-viskí í glasi, þegar stórfjölskyldan fagnaði nýju ári með söng, gleði og glensi í húsi foreldra minna. En Þorsteinn var ekki bara skemmtilegur á góðri stundu, hann var alltaf skemmtilegur. Feikilega vel lesinn og hafsjór af fróðleik um alla skapaða hluti. Skarpgreindur vinnuþjarkur og síkvikur í hugsun. Hann stofnaði bókaútgáfuna Fjölva og skapaði sér þannig vettvang til að vinna að hugðarefnum sínum með óbilandi þrautseigju, enda liggur eftir hann fjöldi bóka og þýðinga. Faðir minn Sturla vann í mörg ár með honum að bókaútgáfunni og bundust þeir sterkum vinaböndum.

Ég minnist heimsókna til Þorsteins, fyrst á Rauðalækinn, síðar í kjallarann í Njörvasundi þar sem hann sat með trefil um hálsinn, innan um himinháa bókastafla, pikkandi á IBM-ritvélina sína með tveimur fingrum á ógnarhraða. Forláta Reuterstelex í einu horninu sem spýtti út úr sér heimsfréttunum, Tinnabækur í öðru horni bíðandi innskriftar í tómar textablöðrur, listaverkabækur í því þriðja tilbúnar í prófarkalestur og í höfði Þorsteins kraumandi hugmyndir sem biðu þess að verða að veruleika.

Ég minnist skemmtilegra samtala yfir kaffisopa og dýrindis franskbrauði með hnausþykku smjöri í eldhúsi þeirra Sigurlaugar.

Ég minnist hvernig hann lauk upp ævintýraheimum fyrir stóreygum og opinmynntum börnum. Hvernig þau hlustuðu eftirvæntingarfull á litríkar og leikrænar frásagnir hans.

Ég minnist Þorsteins með virðingu og hlýju og kveð elskulegan frænda, fullviss um að honum verður tekið fagnandi er hann kemur í hlaðið hinumegin.

Þó líði dagar og líði nætur,

má lengi rekja gömul spor.

Þó kuldinn næði um daladætur,

þær dreymir allar um sól og vor.

(Davíð Stefánsson)

Ég votta eiginkonu hans Sigurlaugu, börnum hans Ingunni, Birni og Björgu og öllum aðstandendum mína dýpstu samúð.

Ingunn Ósk Sturludóttir.

Hann kom manni alltaf á óvart með hugmyndaauðgi sinni, manngæsku og góðlátlegum prakkaraskap. Þorsteinn Thorarensen var góður vinur. Hann beinlínis gneistaði af gáfum og minni hans var nánast óbrigðult. Enda var hann einstakur fjölfræðingur og grúskari af guðs náð. Eftir hann liggur gríðarlegt ævistarf, yfir 500 bækur, frumsamdar og þýddar. Maður kom aldrei að tómum kofunum hjá Þorsteini. Hann gat alltaf leiðbeint manni og gefið góð ráð auk þess sem honum var afar tamt að koma með nýja sýn á þau málefni sem rædd voru hverju sinni.

Ég kynntist Þorsteini sem barn að aldri og var tíður gestur á notalegu heimili hans og móðursystur minnar, Sigurlaugar Bjarnadóttur frá Vigur. Alltaf var jafngaman að koma í Njörvasundið til þeirra og sjaldnast fór maður tómhentur þaðan því Þorsteinn var svo gjafmildur að það gat stundum verið vandræðalegt fyrir mann. Á þessu menningarheimili var stöðugur straumur gesta enda var fyrirtæki Þorsteins, Fjölvi, með aðsetur á jarðhæðinni. Ógleymanleg eru jólaboðin þar sem stórfjölskyldan kom saman á jóladag og snæddi hangikjöt, laufabrauð og aðrar kræsingar sem Sigurlaug framreiddi og allir dönsuðu að lokum í kringum jólatréð og sungu jólalögin.

Þorsteinn var sístarfandi, vann myrkranna á milli og hafði brennandi áhuga á starfi sínu og lífinu almennt. Þannig réðst hann í hvert stórvirkið af öðru í bókaútgáfu sinni Fjölva, lauk þeim flestum en önnur biðu betri tíma.

Þorsteinn var einstakur frumkvöðull. Sagnfræðibækur hans um sjálfstæðisbaráttuna og stjórnmálaátök fyrri tíma voru skrifaðar á alþýðlegan hátt, sagan lifnaði við í meðhöndlun hans og varð spennandi, frekar en háfræðileg og þurr. Það væri að æra óstöðugan að telja upp öll þrekvirki Þorsteins. Hann þýddi og gaf út listasögu, mannkynssögu, náttúrufræði, svo og ríkulega litprentaðar og vandaðar bækur um stórmeistara listasögunnar. Þorsteinn hafði lag á því að bæta við og auðga þessi rit með eigin rannsóknum og viti. Hann bjó ennfremur til íslensk nýyrði í þúsundavís, sum hver lifa núorðið góðu lífi í tungumálinu, önnur hafa gleymst eins og gerist og gengur.

Þorsteinn þýddi einnig og gaf út margar af helstu perlum alþjóðlegra barnabókmennta. Þá réðst hann í útgáfu á helstu teiknimyndasögum heimsbókmenntanna og þýddi yfir á svo kjarnyrta íslensku að unun er að. Þorsteinn gaf út Tinna, Ástrík, Lukku-Láka og fleiri sögur sem heilluðu ungar sálir og menntuðu á margvíslegan hátt. Þorsteinn gætti þess að bækur þessar væru vel úr garði gerðar enda varð hann fyrstur til að gefa út teiknimyndasögur hér á landi og vissi sem var að margir yrðu til að gagnrýna ef ekki væri vel staðið að útgáfunni. Allar þessar bækur rötuðu til manns fyrir jólin ár hvert, stórir kassar fullir af bókum frá Þorsteini og Lullu frænku. Þá las hann upp þýðingu sína á Gosa og fleiri verkum í Ríkisútvarpinu þannig að spýtukallinn ósannsöguli varð ógleymanlegur þeim sem á hlýddu.

Þýðingar Þorsteins á Hringadróttinssögu og Hobbitanum eftir Tolkien eru nýjustu dæmin um fágætt listfengi þessa ofurhuga í íslenskri bókaútgáfu, síðustu stórvirkin sem hann vann áður en áfallið reið yfir og heilsan bilaði. Aðdáunarvert var að fylgjast með því hvernig hann glímdi við veikindi sín og lömun eftir heilablóðfallið sem gerði honum lífið erfitt síðustu árin. Eitt sinn kom ég að honum þar sem hann sat í kompu sinni og þjálfaði rithöndina með því að skrifa bókstafi inn í reiti krossgátu. Hugurinn var síkvikur og lifandi, þótt hann ætti stirt um mál og líkaminn hlýddi honum ekki. Veikindin reyndust honum erfið en hann lét hvergi deigan síga og tókst á við þau af hreinræktaðri karlmennsku.

Á meðan heilsan var í lagi og tungan enn liðug var ekkert skemmtilegra en að ræða við Þorstein um málefni líðandi stundar og allt milli himins og jarðar. Hann var líka einstakur grallaraspói og svo uppátækjasamur að hann gat gert mann kjaftstopp. Eitt sinn þóttist hann ætla að sofa í gömlu vindmyllunni í Vigur og dró mig með sér í rannsóknartúr til að athuga aðstæður. Þar inni var of þröngt og hvergi hægt að rétta almennilega úr sér þannig að hann lét gott heita og hætti við uppátækið. En hugmyndin var skemmtileg.

Þorsteinn var um árabil fréttaritari og umboðsmaður hinnar alþjóðlegu fréttastofu Reuters á Íslandi. Í gegnum það starf sá hann um tæknivæðingu dagblaðanna og fréttamiðlanna enda kom ekkert til greina annað en að þau hefðu nýjustu tækni til að Íslendingar hefðu sem greiðastan aðgang að fréttum og myndefni frá umheiminum. Reutersmenn voru tíðir gestir á menningarheimili hans og Sigurlaugar og í gegnum þessa fróðu gesti og Þorstein kynntist ég fyrst alþjóðlegri blaðamennsku af eigin raun.

Þrátt fyrir að Þorsteinn væri á kafi í verkefnum og sæi í raun aldrei fram úr þeim gaf hann sér samt tíma til ferðalaga og kunni að njóta lífsins þótt kyrrstaða og sólarvarnir væru honum ekki að skapi. Hann skoðaði heiminn til að mennta sjálfan sig enn frekar og samferðamenn hans fengu að njóta þess.

Skömmu eftir áramótin í fyrra bað hann mig um að koma með sér til Kaupmannahafnar en þar ætlaði hann að leggjast í rannsóknir á Bjólfskviðu í Konunglega danska bókasafninu. Ég gat því miður ekki orðið við þeirri bón, óaði hálfpartinn við ferðalaginu með honum því hann var ekki beint burðugur. Til Kaupmannahafnar komst hann engu að síður með aðstoð barna sinna enda viljinn einbeittari hjá honum en flestum.

Í lok júní sem leið, á einum af fyrstu fallegu sumardögunum, varð ég þess engu að síður aðnjótandi að fara í stutt en eftirminnilegt ferðalag með Þorsteini. Hann hringdi í mig og bað mig um að gera sér greiða. Ég varð að sjálfsögðu við því, enda viss um að lítið ævintýr væri í uppsiglingu, og var mættur til hans klukkan hálffimm um eftirmiðdag. Erindið var einfalt. Hann vildi að ég keyrði sig í gróðrarstöð til að kaupa sumarblóm. Hann ætlaði að koma Sigurlaugu og dætrum sínum á óvart. Við ókum sem leið lá á áfangastað, reyndar vísaði Þorsteinn veginn, ratvís á stystu leið, og hann valdi stjúpur af miklum áhuga og smekkvísi. Síðan leiðbeindi hann mér um það hvar ég ætti að pota þeim niður í beð. Ég átti að sjálfsögðu að þegja um þátt minn í verkinu enda átti þetta að líta þannig út að hann hefði sjálfur plantað blómunum. Svona var hann og vona ég að hann fyrirgefi mér að hafa nú ljóstrað þessu litla leyndarmáli okkar upp.

Þegar ég heimsótti þau hjónin á nýja heimilið þeirra í Bólstaðarhlíð fyrir skömmu var Þorsteinn vart svipur hjá sjón. Hann hafði lent í slysi heimafyrir, verið á spítala og þótt hann væri nú kominn heim var auðsætt að hann var á förum í hinstu ferðina. Hann lá fyrir og leið illa en kom samt fram til að heilsa upp á gestina. Sami gamli, góði og fjörmikli glampinn í augunum grábláu.

Með Þorsteini Thorarensen er genginn einn af máttarstólpum íslensks menningarlífs. Hann var fluggáfaður maður sem vann afrek í flestu sem hann tók sér fyrir hendur.

Ég þakka fyrir að hafa fengið að kynnast slíkum kraftaverkamanni. Hann var einstakur og snerti mann djúpt með verkum sínum og framkomu. Megi góður Guð geyma hann.

Aðstandendum hans, eftirlifandi eiginkonu, Sigurlaugu, börnunum Ingu, Birni og Björgu, mökum þeirra og börnum votta ég dýpstu samúð mína.

Bjarni Brynjólfsson.

Þar sem góðir menn eru er gott að dvelja. Öll bernskuár mín hljómaði þýð hrynjandi ritstarfa Þorsteins í eyrum mínum. Svarta ritvélin og ég vorum nágrannar á Rauðalæknum og í minningunni er hún sveipuð dulmögnun og töfrum. Eigandanum hélt hún í álögum og sleppti honum ekki nema stund og stund vegna matarbita eða kaffisopa og þá kom fyrir að við stöllur, dóttir hans og ég, náðum að fanga athygli hans að hann settist niður með okkur til að segja sögu eða lita myndir. En það var með sögurnar og myndirnar eins og annað, allt varð skemmtilegt og skondið hjá Þorsteini. Og þegar honum þótti nægilega rótað upp í kollinum á okkur gekk hann aftur til fundar við töfrana og taktföst hrynjandin ómaði að nýju.

Þannig liðu árin hvert af öðru og Fjölvi óx og dafnaði og dulmögnunin umbreytti með sífellt meiri hraða leiftrandi sköpunargleði í ótal fagrar bækur sem birtust mér á stofugólfinu heima hjá honum í öllum regnbogans litum, gerðum og stærðum.

Þegar kom að því að unglingsstúlkur þyrsti í alvöru ævintýri, þá greiddi hann leiðina inn á skákeinvígi aldarinnar sem fréttasnápum Reuters og stóð svo með glettnisbros á vör frammi fyrir þeim þegar ósköpin enduðu á forsíðum fréttablaða.

Og Fjölvi tók sífellt meira til sín. Þar kom að fjölskyldan varð að flytja og leið mín lá þá reglubundið inn í Njörvasundið. Þangað var svo margt að sækja og endurminningasjóðurinn ótæmandi. Vináttan við Ingu og samverustundirnar með þeim hjónum voru fyrir mér afar mikils virði, bæði hjónin skarpgreind, öllum öðrum fróðari og ástríðufullar hugsjónamanneskjur. Í eldhúskróknum hjá þeim tel ég mig hafa uppgötvað að raunveruleg velgengni í lífinu er í því fólgin að vera fær um að auðga samferðamenn sína með því að fá þá til að opna hug sinn og taka á móti því sem fagurt er og skapandi.

Það voru hvergi hindranir, aðeins lausnir, í huga Þorsteins, og þegar mér fannst ég vera slegin niður reisti hann mig á fætur og fékk mig til að bera höfuðið hátt og ganga í átt til sigurs. Hjá honum átti ég athvarf og sótti til hans öryggi og stuðning. Hann var velgjörðarmaður minn og til hans bar ég traust.

Þorsteinn var einn þeirra manna sem ekki verður lýst með orðum, hann var upplifun, stórbrotinn lífslistamaður sem skóp lífsbók sína með hugarafli og eljusemi, þar sem hver kafli var vandlega útfærður og engir lausir endar. Ekkert ósagt. Þannig verður sú bók mikilvægasta sem hann skrifaði og inntak hennar varðveitum við með okkur sem eftir lifum um ókomna tíð.

Anna Þorsteinsdóttir.

Þegar Inga vinkona tilkynnti mér lát Þorsteins tóku minningabrotin að birtast fyrir hugskotssjónum, hvert á fætur öðru, þó sérstaklega minningar sem tengdust samskiptum mínum við Þorstein á æskuárunum.

Heimili Þorsteins og Sigurlaugar á Rauðalæknum var að segja má mitt annað heimili enda vorum við Inga nánar vinkonur í æsku og höfum verið allar götur síðan. Samvistir við Þorstein og Sigurlaugu voru því óaðskiljanlegur og dýrmætur hluti af bernskunni á Rauðalæk. Í minningunni var Þorsteinn alltaf að vinna við skriftir. Þegar ég hugsa til þessa tíma sé ég Þorstein ljóslifandi fyrir mér, hamrandi á ritvélina sína og ritvélarhljóðið ómar í eyrum þegar hugurinn hverfur til þessa tíma. En þrátt fyrir mikið annríki gaf Þorsteinn sér alltaf tíma til spjalls við stelpukrílið sem læddist inn til hans í tíma og ótíma.

Eftirminnilegast er hvað Þorsteinn hafði gaman af að stilla upp ólíkum sjónarhornum til að fá fram rökræðu um hin ýmsu málefni. Sem dæmi velti hann því fyrir sér með ungu hnátunni hvort Íslendingar ættu að reyna að útrýma þágufallssýki eða líta á hana sem góða og gilda íslensku. Ógleymanleg eru líka skemmtileg skoðanaskipti við Þorstein um þorskastríðið, og nýstárleg sjónarmið sem hann setti fram í þeim efnum. Ég áttaði mig fljótt á að Þorsteinn var ekkert endilega að reifa eigin skoðanir heldur var þetta aðferð hans til að hleypa fjöri í umræðuna. Það var skemmtilegi kímnisvipurinn sem læddist yfir andlitið þegar líða tók á umræðuna sem kom upp um hann.

Samræður okkar Þorsteins á æskuárum mínum eru eitt af mörgum dæmum um þá mannvirðingu sem einkenndi viðmót hans. Skoðanir litlu stelpuhnátunnar voru jafnréttháar og ekkert síður áhugaverðar en skoðanir hinna fullorðnu. Annað minningabrot sem kemur í hugann er þegar Þorsteinn spurði mig eitt sinn: "Anna, hvað finnst þér að bækurnar um Ástrík og Tinna ættu að kosta út úr búð?" Síðan nefndi hann tölu sem hugmynd. Ég svaraði: "Þetta er alltof lítið Þorsteinn. Þú ert búinn að handskrifa allan textann í bækurnar, þetta er ekki einu sinni kostnaðarverð!" "Skiptir engu," sagði Þorsteinn þá, "málið snýst um hvað er sanngjarnt að láta fólk borga." Þannig var Þorsteinn. Hann var þessi leiftrandi eldhugi sem fyrst og síðast skrifaði og gaf út bækur af ástríðu og hugsjón. Hvað hann sjálfur bar úr býtum virtist einhvern veginn aukaatriði.

Þó að samverustundum okkar Þorsteins fækkaði eftir að ég komst á fullorðinsár rofnuðu vináttutengsl okkar samt aldrei. Dýrmætasta minningabrotið nú þegar komið er að hinstu kveðju er síðasta heimsókn mín í Njörvasundið fyrir örfáum vikum. Þetta var stuttu áður en Þorsteinn og Sigurlaug fluttu í þjónustuíbúð við Bólstaðarhlíð. Stundin sem ég átti í eldhúskróknum með Þorsteini og Sigurlaugu, skemmtilega spjallið okkar, hlýjan og væntumþykjan sem umvafði mig, er besta minning sem hægt er að ylja sér við á kveðjustund.

Elsku Inga mín, Sigurlaug, Begga og Bjössi. Ég sendi ykkur öllum sem og fjölskyldum ykkar og öðrum ættingjum Þorsteins mínar dýpstu samúðarkveðjur.

Anna Ólafsdóttir.

Steini Thor var hann ævinlega kallaður meðal bekkjarsystkina sinna í Menntaskólanum í Reykjavík frá 1940-1946. Á þeim viðkvæmu æsku- og unglingsárum kynnast bekkjarsystkin betur og nánar en á öðrum æviskeiðum og helst sú vinátta alla ævi, þó að ekki séu mörg tækifæri til samveru. Það kemur berlega í ljós á árlegri Góugleði okkar. Skólaminningar streyma þá fram eins og væri beint framhald af skólaárunum. Steini Thor var eins og ævinlega hress á síðustu samkomu okkar 14. júní sl., sem haldin var í tilefni af 60 ára stúdentsafmæli okkar, og beitti hárfínu skopskyni sínu í allar áttir við fögnuð okkar. Var eins og stuttur tími hefði liðið frá skólaárum okkar við skemmtilegar endurminningar.

Í tilefni af 50 ára stúdentsafmæli okkar 1996 kom út "Fauna - 1946". Þar skrifaði Steini Thor stutt sjálfsæviágrip, sem er svo fullt af kímni og ritfærni að aðrir gera ekki betur. Þess vegna leyfum við okkur að birta það hér: "Leit heiminn fyrst augum á Móeiðarhvoli einhvers staðar í Flóa eða Landeyjum, kominn af óðalsbændum, prestum og sýslumönnum í tíu ættliði. Faðirinn Óskar Thorarensen var hrossabóndi en fylgdi kalli tímans, slátraði hestum og át þá og varð bílabóndi í Reykjavík, meðan móðirin Ingunn Eggertsdóttir alþingismannsdóttir úr Hlíðum orti ljóð sem aldrei voru birt og þýddi og las Alís í Undralandi fyrir barnahópinn.

Pilturinn ætlaði aldrei að verða læs, en þegar það skall svo skyndilega yfir varð hann óstöðvandi og síðar er hann ófær um að fylgja kalli tímans um að hætta þessum lestri og hefur ekki enn tekist að stöðva hann. Var lærisveinn Jóns Þórðarsonar í Austurbæjarskóla, hins mikla Megaföður, en Vignir sundkennari lúbarði hann, því svo þungt var í stráknum að hann sökk alltaf til botns. Síðan tók Einar Magg við og pilturinn rétt skreið inn í gamla MR í miðri innrás Breska heimsveldisins.

Ekkert gerðist næstu árin, nema hann varð stúdent 1946 en féll í skugga af eldri árgöngunum á afmælisárinu. Missti af lestinni í Charlottenlund við sænsku landamærin og var látinn moka kolum og skræla kartöflur upp í fargjaldið. Hóf bókaútgáfu með myndabókinni Stúdentar 1946, nú ómetanlegur dýrgripur.

Vonandi er nú gleymd tilraun piltsins til að verða skáld undir tónum Hallgríms Helgasonar og síðan gerðist ekkert meira, nema hann tók þátt í vörn Alþingishússins og Íslands gegn atlögu Ólafs Jenssonar og kumpána og hefði hann þá helst viljað hafa hjálm og kylfu eins og Leifur til að berja á þessum rauðu dónum.

Upp úr því gerðist hann handgenginn Valtý Stefánssyni ritstjóra á sumrum og skrifaði nokkra leiðara og Reykjavíkurbréf fyrir hann og lauk í hjáverkum embættisprófi í lögfræði 1952, en þar sem ekkert sýslumannsembætti var laust sneri hann sér að öðrum hugleiknari hlutum svo sem að krækja í eina litfríða og ljóshærða sveitastúlku. Engin bekkjarsystranna hafði viljað líta við þessum peyja, en hún skaut þeim ref fyrir rass, var veislan í Þjóðleikhúskjallaranum 1954 með pelafylleríi, sem þá var í tízku. Brúðurin var Sigurlaug Bjarnadóttir frá Vigur, síðar frönskukennari og alþingismaður, foreldrar Bjarni Sigurðsson æðarbóndi og kona hans Björg Björnsdóttir.

Þá hófst hin endalausa ritræpa þessa manns, svo þjóðin hefur fengið nóg af. Hóf snemma baráttu fyrir frelsi Austur-Evrópu fyrstur allra og liðu 40 ár uns hann sá árangur verka sinna og múrinn hrundi. Hinsvegar varð hann fyrir vonbrigðum með að ekki tókst að útrýma bolsunum í Víetnam með napalmsprengjum.

Svo fór Bjarni Ben að regera á Mogganum. Steina líkaði illa við hann og Bjarna illa við Steina, svo hann rauk burt. Bjarni hallaði sér að Sigurði A. Magnússyni bolsa og Kastrósinna, sem síðan hefur þó snúið við blaðinu og gengið til liðs við Fjölva! Steini brotlenti þá á Vísi 1961, skrifaði föstudagsgreinar og setti blaðið á hausinn. Þar með hófst eiginlegt lífsstarf hans 1966 að stofna Fölva og setja hægt og bítandi á hausinn og nálgast hann óðum það langþráða mark. Hann gerðist pabbi Tinna á Íslandi og samdi einu skordýrafræðina sem til er á Íslensku. Hann hefur gefið út 600 bækur sem mynda einstakar 30 metra háa súlu, en allt upplagið vegur um tvö þúsund tonn, allt að verða uppselt. Var um tíma að dauða kominn, en bjargaði sér með Toppforminu og yngist nú upp með hverju ári og er orðinn algjört tölvufrík.

Óduglegur við að fjölga mannkyninu, spar á sín ættgóðu gen og hefur t.d. aldrei haldið framhjá frekar en frændi hans biskupinn." Við kveðjum Steina Thor með vináttu og væntumþykju og þökkum innilega góðar samverustundir með skemmtilegum bekkjarbróður.

Stúdentar frá Menntaskólanum í Reykjavík 1946.

Steini Thór var skemmtilegur maður, ætíð glaðlegur og gamansamur í viðræðum, geðþekkur í viðmóti og launfyndinn. Hann var í hópi áttatíu og fjögra stúdenta, sem útskrifuðust úr Menntaskólanum í Reykjavík vorið 1946. Hæfileikar hans til að móta hugsanir sínar í skrifaðan texta komu snemma í ljós, enda var hann farinn að skrifa og þýða fyrir Morgunblaðið á meðan hann var enn í námi við lagadeild. Hann varð síðan fastur blaðamaður við Morgunblaðið og gegndi því starfi í mörg ár. Þorsteinn var mjög góður rithöfundur og skáld og þegar vinnan var alveg að kæfa hann stofnaði hann útgáfufélagið Fjölva, og enn jókst álagið, því aldrei tók hann sér hvíld, en vann sleitulaust.

Þorsteinn var ákaflega vinfastur og trúr skólasystkinum sínum, og sínum gamla skóla, MR. Hann hélt líka mikið upp á gömlu kennarana sína og talaði alltaf um þá með hlýhug og virðingu, sérstaklega Pálma Hannesson rektor, sem einnig bar gagnkvæma virðingu og vináttu til þessa gáfaða nemanda sins, eins og oft mátti heyra í tali rektors. Ritlistin var ekki eina listgreinin, sem skreytti fjölbreyttan persónuleika Þorsteins. Hann var einnig afbragðs listmálari. Vatnslitamyndir hans voru einstök og einstæð listaverk, svo sem "Þrjár dansmeyjar" á Hvalvatni, og "Garðurinn heima" , hvorutveggja vetrarmyndir. Hann hafði einnig áhuga á fjallgöngum. Ég man sérstaklega eftir göngu á Esju eitt vorið og annað skipti á Baulu, ásamt fleiri félögum.

Þorsteini gleymir enginn.

Jón Magnússon.

Það er nokkur skaði, hve mikið er til af venjulegu fólki í heimi hér. Auðvitað eru þetta vænstu manneskjur, upp til hópa, en því miður lítt til þess fallnar að auka fjölbreytileik tilverunnar. En það er ástæðulaust að örvænta; stöku sinnum rekur á fjörur manns fólk, sem fer sínar eigin leiðir og varpar um leið nokkrum bjarma á tilveruna. Þannig maður var útgefandi minn hér á árum áður, Þorsteinn Thorarensen, blaðamaður af Guðs náð, skemmtilega sérvitur rithöfundur, og bókaútgefandi án hliðstæðu, það best ég veit. Mér er skapi næst að halda, að hann hafi trúað því, að bókaútgáfa og fjármál hafi verið hvort öðru óviðkomandi, svo dyggilega þjónaði hann eigin lund í útgáfunni og virtist oftar en ekki leiða þessi svokölluðu markaðslögmál gjörsamlega hjá sér.

Þorsteinn mun reyndar hafa byrjað bókaútgáfu sína á metsölubókum, en það voru bækur hans um pólitíkina á heimastjórnarárum, Eldur í æðum og fleiri slíkar. Þar var margt til bókar fært, án þess öllum þætti ástæða til að taka það bókstaflega. Hygg ég að ýmsum hafi sést yfir það, að þar hélt ekki sagnfræðingur á penna, heldur blaðamaður, sem freistaði þess, að varpa ljósi liðinna stunda á atburði róstusamra tíma og þá menn, sem þar komu við sögu. Slíkt uppátæki hlaut að vekja hörð viðbrögð.

Víkingur hefur leyst landfestar og stefnir til hafs. Hljóti hann góðan byr.

Pjetur Hafstein Lárusson.