Sigríður Ingvarsdóttir
Sigríður Ingvarsdóttir
Sigríður Ingvarsdóttir minnir á styrktartónleika Caritas: "Caritas Ísland, hjálparstofnun kaþólsku kirkjunnar, vill með gleði beina styrkjum frá árlegri aðventusöfnun sinni til fatlaðra barna."

NÚ ÞEGAR líða tekur að aðventunni er ágætt að staldra við og íhuga stöðuna mitt í velsældinni sem er ofarlega á baugi. Fram hefur komið í nýlegri könnun sem gerð var í Bretlandi að þessi nágrannaþjóð okkar eyðir milljörðum punda í munaðarvörur og gjafir fyrir jólin sem enginn þarf á að halda og flestir mundu án vera. Markaðskannanir eru að vísu engin guðspjöll en það má vel draga ályktanir af slíkum upplýsingum. Enginn vafi er á því að margir hlaupa eftir áróðri fagurgalans og sækja í hunangið og umhverfið stendur á öndinni yfir því að missa nú ekki af neinu. Hér er ekki verið að gagnrýna þann fallega sið kristins fólks að færa vinum og ættingjum gjafir og halda gleðileg jól. Velmegun hefur sjaldan verið meiri og því ber að fagna. Lífið er stutt og það er full ástæða til að gera sér dagamun þegar ástæða er til. Ef ekki um aðventu og jól, þá hvenær?

Enn hvað sem því líður og hvað sem líður þeim könnunum sem sýna að við erum þjóða ánægðust með okkar kjör eigum við talsvert í land að því marki að nota kristindóminn til að ýta undir mannlega reisn. Það þarf ekki að leita langt yfir skammt til að finna hjálparþurfendur sem við getum lagt lið. Við lesum fréttir af því að á sl. ári leituðu yfir tvö þúsund fjölskyldur á náðir hjálparstofnana. Mörg börn eiga að erfitt uppdráttar, ekki síst börn sem glíma við alls konar fötlun. Við skulum muna að fagnaðarerindið birtist mannkyninu í litlu barni. Oft eru jólin líka kölluð hátíð barnanna. Enn eru mörg börn á biðlista hjá Greiningarstöð ríkisins sem starfar að velferð fatlaðra barna og fjölskyldna þeirra. Fjárskortur hefur háð starfsemi stofnunarinnar. Biðin getur verið hátt á annað ár eftir greiningu og þjónustu en börnum er vísað þangað þegar grunur hefur vaknað um þroskahömlun, hreyfihömlun og einhverfu. Þessi börn eru því miður ekki bara tölur á blaði. Þau og aðstandendur þeirra líða oft ótrúlegar þjáningar og til að bæta gráu ofan á svart bætist við óvissan og biðin. Mikilvægt er að greina fötlun barna sem fyrst svo unnt sé að hefja þjálfun við hæfi. Forsenda þjónustu, sem fötluð börn eiga rétt á skv. lögum, byggist á því að barnið hafi fengið greiningu. Vonir standa þó til að starfsemin verði efld jafnt og þétt með auknu fjárframlagi og biðlistar muni hverfa. En hvers vegna gengur svona hægt að koma til móts við þarfir þessara barna? Er það vegna þess að þau eru meðal þeirra smæstu í þjóðfélaginu sem eiga lítið undir sér? Væri ekki þeim mun meiri ástæða að sinna þeim eins og þau eiga skilið og rétta hlut þeirra? Borgarskáldið Tómas Guðmundsson minnti okkur á:

Því meðan til er böl er bætt þú gast

og barist var á meðan hjá þú sast,

er ólán heimsins einnig þér að kenna.

Caritas Ísland, hjálparstofnun kaþólsku kirkjunnar, vill með gleði beina styrkjum frá árlegri aðventusöfnun sinni til fatlaðra barna. Vertu með því framlag þitt mun koma til ómetanlegrar hjálpar. Hvert eitt skref og sérhver áfangi fram á við skiptir miklu.

Caritas Ísland efnir til tónleika til styrkar fötluðum börnum í Kristskirkju við Landakot sunnudaginn 19. nóvember kl.16 þar sem landskunnir listamenn koma fram og gefa vinnu sína. Þetta verða 13. styrktartónleikarnir sem Caritas stendur að til styrktar góðu málefni og eins og á síðasta ári mun allur ágóði tónleikanna renna til Greiningar og ráðgjafarstöðvar ríkisins. Dagskráin verður glæsileg í flutningi úrvals einsöngvara, kóra og hljóðfæraleikara og gefa allir vinnu sína.

Caritas Ísland óskar öllum landsmönnum gleðilegrar aðventuhátíðar.

Höfundur er formaður Caritas Ísland.