24. nóvember 2006 | Minningargreinar | 5267 orð | 1 mynd

Pétur Þór Melsteð

Pétur Þór Melsteð fæddist í Reykjavík 27. janúar 1941. Hann varð bráðkvaddur 13. nóvember síðastliðinn. Foreldrar hans voru Helga Símonardóttir Melsteð, f. 22.5. 1914, d. 1.11. 2000, og Gunnlaugur Bjarnason Melsteð, f. 5.5. 1908, d. 21.1. 1963. Systkini Péturs eru fjögur: Sigursteinn, f. 22.8. 1938, d. 18.2. 2005, Símon, f. 25.9. 1939, d. 4.10. 1983, Jónína, f. 8.8. 1944, og Gunnlaugur Bjarni, f. 12.4. 1949, d. 6.8. 1979. Hálfsystkin samfeðra voru Erla, f. 2.1. 1946, og Einar, f. 4.11. 1949.

Börn Péturs eru 1) Grétar, f. 30.11. 1960, maki Cilje Alexandersen. Þeirra börn eru Iselin og Christoffer. 2) Sigríður, f. 21.12. 1962, maki Sigurður Ingimarsson. Þeirra synir eru Friðrik og Ellert. 3) Ragnheiður, f. 6.5. 1971, maki Magnús Scheving. Þeirra börn eru Sylvía Erla og Kristófer. Einnig á Magnús dótturina Sunnu.

Pétur ólst upp í Reykjavík. Hann dvaldi öll sumur á Þingvöllum og tengdist Þingvöllum órjúfanlegum böndum. Hann lauk iðnskólanámi og meistaranámi í hárskurði. Pétur opnaði sína eigin stofu, Hárskerann, 1964 og rak hana til dauðadags. Einnig gaf Pétur út tímaritið Hár og fegurð í 25 ár. Samhliða útgáfunni stóð Pétur fyrir fjölda hárkeppna og sýninga.

Útför Péturs verður gerð frá Hallgrímskirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 13.

Dökkir skuggar umlykja hjarta okkar við þá óvæntu frétt að nánasti ættingi okkar hefur lokið lífsins ferðalagi. Stórt skarð hefur verið höggvið í fjölskyldu mína með fráfalli einstakrar manneskju, fráfalli tengdaföður míns Péturs Melsteð.

Kletturinn í lífi okkar er fallinn og með miklum trega og söknuði horfi ég á eftir frábærum tengdapabba, börnin mín hugljúfasta afa í öllum heiminum og unnusta mín missir hjartahlýjan föður með meiru.

Pétur Melsteð var góður maður. Hann var alltaf tilbúinn að hjálpa öðrum. Hann var alltaf tilbúinn að taka þátt í okkar daglega streði, mættur í lakkskónum og svörtu fötunum, brosandi og sagði: "Hvað get ég gert?" Það var eitthvað svo indælt og gaman að þiggja hjálp frá Pétri. Hann hjálpaði af heilum hug. Pétur gætti barna okkar oftar en nokkur annar og það sem hann gerði fyrir okkur er ómetanlegt. Ég stend í ævinlegri þakkarskuld við hann.

Pétur Melsteð var umfram allt framsýnn maður. Hann var opinn fyrir þeim tækifærum sem lífið bauð upp á. Jafnvel þótt Pétur hafi ekki verið langskólagenginn né fræðimaður í þeim skilningi, var hann einn gáfaðasti maður sem ég hef kynnst. Hann var hamingjusamur maður, ánægður með lífið og sáttur. Það þarf styrk, þol og gáfur til að ná svo langt að vera sáttur.

Frumkvöðlakraftur Péturs var keyrður áfram á ótrúlegri þrjósku og einstakri góðvild. Með miklum dugnaði gaf Pétur út fagtímaritið Hár og fegurð ásamt því að reka rakarastofu í hartnær 40 ár. Það verður ekki af honum tekið að hann var þrautseigasti útgefandi Íslandssögunnar á fagtímariti. Tímaritið Hár og fegurð kom út í 25 ár. Einnig hélt hann árlega keppnina Tískan. Þar gaf hann ungu fólki í greininni tækifæri á að sanna sig og koma fram. Fjöldinn allur steig sín fyrstu skref á sviðinu hjá Pétri og enn aðrir unnu sín fyrstu verðlaun í þessum keppnum.

Pétur var óvenjulegur maður en samt svo venjulegur. Það var þægilegt að umgangast hann. Ekki var það þó svo að Pétur léti hluti og málefni sig ekki varða. Hann átti mörg baráttumál; fagið sitt, náttúruna, umhverfið, mataræði, andleg mál og líkamsrækt. Hann lét sig þetta allt varða en á svo sérstakan máta að ekki var eftir tekið fyrr en horft er til baka. Maður gerir sér þá grein fyrir að sá tími og stund kallaði ekki á athygli athafna, en í spegli fortíðar sér maður einstakan mann vinna verk sín í hljóði með því að hafa áhuga.

Það var eftirtektarvert og lærdómsríkt að verða vitni að því að í mótbárum lífsins kvartaði Pétur aldrei heldur blés þrótti og byggði upp jákvæða orku í kringum sig. Þegar Pétur fékk heilablóðfall var aðdáunarvert að fylgjast með honum læra allt upp á nýtt, að tala, lesa og skrifa. Tveimur árum síðar barðist hann hetjulega við ristilkrabbamein. Hann fór í uppskurð og geislameðferð með fullri vinnu og vann þá baráttu.

Pétur fór ásamt félögum í bíltúra að skoða jökla, fjöll og dali. Hann var góður fjallamaður og lenti aldrei í vandræðum öll þau ár sem hann stundaði fjallamennsku. Hann var varkár og mat aðstæður rétt hverju sinni.

Um sextugt fór Pétur að æfa karate. Ég spurði hann að því í gríni hvort ekki væri erfitt fyrir hann að vera í hvítum galla. Þá sagði hann: "Það er alltaf hægt að stefna á svarta beltið," og átti hann ekki langt í að ná þeim áfanga.

Elsku tengdapabbi, það er örlítill léttir í þungri sorg að þú fékkst að fara fullur af lífsgleði og við þá iðju sem þú hafðir svo gaman af. Maðurinn sem var alltaf í svörtu, kvaddi í hvítum karategalla. Pétur, ég mun ávallt minnast þín, hver þú varst, hvernig þú varst og hvernig um þig er talað í hópi þeirra sem elska þig mest.

Blessuð sé minning þín.

Magnús Scheving.

Elsku afi. Takk fyrir að vera svona góður við fjölskylduna okkar. Þú ert besti afi sem við höfum átt. Þú gerðir allt sem við vildum og við hlýddum þér næstum því alltaf. Það var svo gaman þegar þú passaðir okkur. Þá spiluðum við, sungum karókí, hoppuðum á trampólíni úti í garði og stundum fórum við í júdó og karatekeppni. Síðan fórum við með þér á listasöfn, að veiða, á kaffihús, í fjallaferðir og allar ferðir enduðu á ísbíltúr. Það var svo gaman að eftir allar þessar ferðir komstu með fullt af myndum sem þú tókst og núna eru þær eitt það dýrmætasta sem við eigum. Frábærar minningar um skemmtilegan afa.

Þú keyrðir okkur í hvert sinn sem við báðum þig um það, til að skoða hunda eða að fara á æfingar. Það er erfitt að trúa því að við sjáum þig aldrei meir, en minningarnar um þig lifa með okkur um aldur og ævi.

Núna eru englarnir að passa þig fyrir okkur. Guð blessi þig, elsku afi.

Sylvía og Kristófer.

Nú er komið að kveðjustund. Pétur bróðir minn hefur kvatt þetta líf. Erfitt er að sjá á eftir fjórða bróðurnum langt fyrir aldur fram. Hann var sá þriðji í röðinni af okkur fimm alsystkinum sem ólumst upp saman. Hann varð bráðkvaddur á karateæfingu. En hann hefði helst viljað kveðja svona, að vera í karate eða uppi á fjöllum. Hann ætlaði ekki að láta veikindi stoppa sig frá æfingum né ferðalögum. Mikil var seiglan þar og lét hann krabbameinsmeðferð ekki stöðva sig í að taka eitt belti af mörgum sem honum áskotnuðust í karateíþróttinni. Hann var mikið náttúrubarn. Varla leið svo vika að hann færi ekki á fjöll. Hann ásamt öðrum stofnaði ferðaklúbb og var ferðast víða í hópum og oft komið við í bústaðnum í Framnesi þar sem faðir hans ólst upp. Segja má að hann hafi fengið í arf frá foreldrum útivistarbakteríuna og ferðaáhugann.

Oft var farið til Þingvalla. Þar voru ræturnar. Barnabörnin Sylvía og Kristófer voru þá oft með afa sínum á ferð. Við systkinin vorum þar öll sumur hjá afa og ömmu sem börn og unglingar. Þau kenndu okkur að meta náttúruna. Þar var farið á skauta og skíði. Á sumrin var hjálpað til við heyskap, silungs- og murtuveiði. Afi hafði búið til vatnahjól, sem við notuðum mikið til að hjóla á um vatnið. Þarna var okkar sælureitur. Pétur hafði glöggt auga fyrir fegurð og sérkennum landsins. Hann setti upp heimasíðu fyrir tímaritið Hár og fegurð sem hann gaf út í mörg ár. Á þeirri heimasíðu hafði hann hlekk þar sem hann sagði frá Vatnskoti í máli og myndum.

Hann stóð fyrir hárgreiðslu- og förðunarkeppni í mörg ár á Hótel Íslandi.

Að hann lesblindur maðurinn hafi getað gefið út tímarit sem hann skrifaði auk þess mikið í sjálfur, var auðvitað mikið afrek. Þetta lýsir vel þeim krafti sem hann bjó yfir til þess m.a. að yfirvinna þá erfiðleika, sem á vegi hans urðu. Hann var duglegur í sjálfsnámi, t.d. var hann að nema ensku nú undir það síðasta og notaði til þess enskuspólu í bílnum svo hann gæti nú nýtt tímann vel og bætt sig í enskunni um leið og hann keyrði út um hvippinn og hvappinn. Allar stundir voru vel nýttar og virðist Pétur hafa tileinkað sér máltækið að svo lengi lærir sem lifir.

Pétur rak rakarastofu í mörg ár. Þar var eiginmaður minn fastakúnni hjá honum í yfir 40 ár og sagði að enginn kynni betur að klippa burstaklippingu en Pétur bróðir. Ragnheiður dóttir hans lærði rakaraiðnina hjá pabba sínum og vann á stofunni í mörg ár. Hún reyndist pabba sínum vel í öllum veikindum hans. En undanfarið fannst okkur hann vera að ná sér upp úr veikindunum. Fyrir stuttu fór Pétur í sína síðustu fjallaferð. Þá skoðaði hann Landmannalaugar og Heklu með frænda sínum Símoni Ívarssyni. En núna er hann farinn í ferðina löngu.

Hvíl þú í friði. Samúðarkveðjur til barna, tengdabarna og barnabarna.

Samúðarkveðjur frá Gunnari, Maríu, Ingibjörgu, Sveinborgu og Gunnlaugi.

Jónína Melsteð.

Mig langar að minnast frænda míns og vinar Péturs Melsteð, með nokkrum orðum. Ég man fyrst eftir Pétri þegar ég var fjögurra ára og hann dvaldi á heimili foreldra minna eftir aðgerð sem hann gekkst undir. Þrátt fyrir að hann ætti að hvílast og okkur bræðrum væri uppálagt að ónáða hann ekki, var Pétur ánægður þegar við kíktum inn til hans og var þakklátur fyrir félagsskapinn. Strax kom fram félagslyndi og skemmtileg kímnigáfa við þessi kynni. Hann vildi gjarnan vera ónáðaður og vildi að eitthvað væri að gerast í kringum sig.

Leiðir okkar lágu oft saman þegar við komum í heimsókn á Rauðarárstíg 3, þar sem fjölskyldan bjó. Pétur var með herbergi út af fyrir sig á fjórðu hæðinni og þar heimsóttum við bræður hann gjarnan og vorum ætíð velkomnir.

Vegna aldursmunar okkar átti ég meiri samleið með Gunnlaugi Melsteð, bróður Péturs, en þegar hann féll frá, óx vinskapur okkar Péturs, enda áttum við margt sameiginlegt og studdum hvor annan í því sem við vorum að gera.

Pétur var maður athafna en um leið mjög örlátur.

Hann kom manni oft á óvart með því sem hann tók sér fyrir hendur. Útgáfa hans á fagritinu "Hár og fegurð" var ótrúleg. Hann var fljótur að taka í notkun tölvutækni og hélt úti heimasíðu fyrir blaðið og vann í því á rakarastofunni sinni við Skúlagötu af mikilli natni. Blaðið var einstaklega vandað og fékk alþjóðlegar viðurkenningar. Sýningar og keppnir sem hann stóð fyrir á Broadway voru stórglæsilegar.

Pétur var mikill náttúruunnandi og hafði einstaklega gaman af því að ferðast um landið. Oft fékk ég að heyra sögur um ferðir hans um óbyggðir, hálendið og jökla sem hann fór í á jeppanum sínum.

Pétur átti það til að hringja á laugardags- eða sunnudagsmorgni og spyrja hvort við hjónin værum til í að fara í dagsferð upp á hálendið. Hann var þá yfirleitt mættur skömmu síðar, glaður og fullur tilhlökkunar. Tvær slíkar ferðir voru farnar í september og október sl. Ég get staðfest að ekkert var slakað á, það var farið víða um fjöll og firnindi og dagurinn nýttur til fulls.

Hann talaði oft um börnin sín, Ragnheiði og Grétar, af miklu stolti, hvað þau væru að gera og var umhugað um að þeim liði vel.

Pétur varð fyrir ýmsum áföllum í lífinu, en barðist hetjulega fyrir bættri heilsu og síðari árin hugsaði hann mikið um mataræðið og hreyfingu. Ekki slapp maður við að láta mæla blóðþrýstinginn þegar komið var í heimsókn á rakarastofuna og uppfræðsla um gildi góðrar hreyfingar var ávallt á dagskrá.

Hann virtist vera á góðum batavegi eftir áfall þegar hann lést, og kom andlátið mér mjög á óvart. En enginn ræður sínum næturstað, er stundum sagt og hér hefur það verið sannreynt.

Það verða viðbrigði að geta ekki lengur hitt Pétur á rakarastofunni, rætt málin, fengið klippingu og skroppið með honum dagsferð upp um fjöll og fagra dali.

Við hjónin og börn okkar erum þakklát Pétri fyrir langa og góða vináttu.

Börnum, barnabörnum, ættmennum og vinum Péturs vottum við innilega samúð.

Símon H. Ívarsson.

"Pétur er dáinn." Þannig hljómaði röddin þegar frænka mín tilkynnti mér sviplegt fráfall Péturs frænda.

Við slíkar tilkynningar fara hugsanir af stað, hvernig bar þetta að og í huga manns koma fram myndir af hinum látna.

Fyrstu kynni mín af Pétri tengjast frumbernsku minni þar sem ungviðið lék sér í risinu á Laugavegi 18. Á Laugavegi 18 var mætt í afmæli og á stórhátíðum, þessar samkomur voru einn þátturinn í samstöðu og innilegu sambandi systkinanna frá Framnesi, föðurfólks Péturs. Einnig kynntist maður Vatnskots-fólkinu og þótti mikið til þess koma.

Það var mikið lán að vera meðlimur í slíkri stórfjölskyldu.

Leiðin lá síðan upp á Rauðarárstíg 3, þar sem fjölskyldan kom sér fyrir í húsi sem faðirinn, byggingameistarinn, byggði.

Margt var brallað, undirritaður varð sér úti um alls konar þekkingu. Sigursteinn og Símon með mekaníska færni í bókstaflega "öllu", það var ýmislegt gert og þakkarvert að engin alvarleg óhöpp urðu. Pétur var strax í huglægu deildinni, myndir skoðaðar og veggirnir skreyttir myndum. Ég fann mig vel í flestu sem þeir gerðu.

Æskuárin liðu og eitt atvikið leiddi af öðru. Pétur fann sitt fag sem honum hugnaðist, komst í læri á einni af frægustu rakarastofum borgarinnar sem staðsett var í Eimskipafélagshúsinu. Þar komst hann í höfuðið á helstu mönnum þjóðarinnar.

Unglingsárin gengu yfir með þeim ósköpum sem þeim fylgja, Pétur var vel fær um að stíga dans og dáðist ég í laumi að faglegum tilburðum hans.

Það hefur sjálfsagt ekki hæft Pétri að vera ósjálfstæður og fyrirtækið "Hárskerinn" var sett á fót á hans æskuslóðum.

Pétur þótti djarfur og hikaði ekki við að taka upp nýjungar í frágangi hárs. Hann bauð upp á litun og aflitun, "permanent", og aðrar nýjungar í meðferð á hári karlmanna.

Mig skorti kjark til að þiggja breytingar á kolli mínum og baðst undan þegar hann brosandi bauð mér litun og krullur.

Pétur var ákveðinn og drífandi þegar málin voru sett í gang, "ekkert mál" var viðkvæðið, drifið var í hlutunum svo mörgum varð um og ó, sannfæringarkrafturinn var mikill og hann dró fólk með sér með miklum ákafa.

Ég varð vitni að því að lögregluforingi fór út frá honum með bæði strípur og krullur, sem betur fór var hann með höfuðfat.

En tískan var svona og er breytileg, Pétur var eitthvað fyrr á ferðinni svo foringinn gat tekið ofan eftir nokkra daga.

Rakarastofan var ekki nægilega stórt viðfangsefni, ráðist var í blaðaútgáfu, "Hár og fegurð" kom út, umfang Péturs jókst og leiddi það af sér sýningar og ferðir út um allan heim.

Ég gat ekki annað en dáðst að dugnaði og því áræði sem þessu fylgdi og var oft leystur út með eintaki af "Hár og fegurð", málefnið bar ég lítið skynbragð á en blaðið bar með sér að Pétur hafði góðan smekk.

Farinn er góður frændi sem skilur eftir minningar. Börnum hans, tengdabörnum, barnabörnum, eftirlifandi systkinum og fjölskyldum þeirra bið ég blessunar.

Far vel frændi.

Sveinbjörn Matthíasson.

Það er stutt síðan við hittumst, ég kom við eins og svo oft áður, fékk mér burstaklippingu, við spjölluðum aðeins og svo var ég þotinn. Einhvern veginn átti maður ekki von á að þetta yrði síðasta klippingin því alltaf varstu sprækur og kepptist við þrátt fyrir ýmis veikindi. Upphafið að þessum viðkomum var þegar við peyjarnir á Rauðarárstígnum heilsuðum upp á Pétur rakara, fengum að hjálpa til við að sópa eða snattast í smá sendiferðir fyrir tyggjó og gos. Á unglingsárunum fékk Pétur að gera tilraunir með klippingar og permanent. Margt var reynt til þess að falla að tískunni og Pétur alltaf til í slaginn. Já, Pétur var til í slaginn, hann hafði gaman af að takast á við ýmis verkefni og var svona dellukarl. Hann hafði t.d. talsverða bíladellu sem síðari ár varð að mikilli jeppadellu. Það þurfti að reyna jeppann, fara upp á hálendi og jökla, stuttar, snöggar ferðir og að sjálfsögðu mikið myndað. Minnisstæð er skemmtiferð með Grétari syni hans og samstarfsmönnum frá Noregi inn í Landmannalaugar, frábær ferð inn í Hrafntinnusker og Heklu á sólbjörtum vetradegi þegar hálendið skartaði sínu fegursta. Margar ferðirnar á Þingvöll og inn að Skjaldbreið með viðkomu í gufunni á Laugarvatni og svo mætti lengi telja. Pétur átti einnig þátt í að ég kynntist konunni minni í einni slíkri ferð, seigur Pétur, takk fyrir. Við töluðum oft um þessar ferðir sem og önnur mál sem voru efst á baugi. Ekki vorum við alltaf sammála en það skipti ekki máli. Um leið og ég þakka fyrir skemmtilegar stundir viljum við Hlín senda okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Gunnlaugur.

Því miður er vinur minn Pétur farinn yfir móðuna miklu. Hann hringdi þrisvar í mig í síðustu viku og var með hugmyndir að því sem hann ætlaði að gera á næsta ári; gefa út Hár og fegurð og halda keppni í hárgreiðslu eins og hann hafði gert í gegnum tíðina. Þegar ég spurði hann hvernig hann hefði það kom karate upp í huga hans: "Ungu strákarnir hafa ekki roð við mér og ég er í mjög góðu standi."

Fyrst þegar ég hitti Pétur unnum við saman að því að gefa út tímaritið Hár og fegurð og kom fyrsta tölublaðið út 1981. Síðan byrjaði Pétur að standa fyrir keppnum og ekki bara í hárgreiðslu heldur einnig förðun, nöglum og fatnaði. Þetta gerði hann ekki bara hér í Reykjavík heldur líka á Akureyri.

Pétur fæddist 27. janúar 1941 og hann lærði hárskurð í Eimskipafélagshúsinu hjá Páli Sigurðssyni. Hann lauk sveinsprófi 12. apríl 1961 og vann við iðn sína til dauðadags.

Pétur hafði yndi af því að fara á fjöll og var búinn að bjóða mér að fara með sér upp á Snæfellsjökul. Áður höfðum farið nokkrum sinnum á Heklu, sem var hans uppáhald, en við þurftum alltaf að koma við á Þingvöllum þar sem Símon afi hans bjó og skoða rústirnar af Vatnskoti þar sem hann hafði verið sem barn í sveit. Vatnskot var síðasti bóndabærinn í þjóðgarðinum.

Síðan var farið á Laugarvatn í gufuna, sem var mikið uppáhald hjá honum. Í þessum bílferðum, sem voru þó nokkrar, skipulögðum við næstu keppni og blað. Hann hafði mikla ánægju af að fara í bílferðir. Þegar ég hitti hann síðast í Bónus og hann vildi endilega keyra mig heim, þá var það klukkutíma akstur til að skoða nýjar stofur í Reykjavík.

Þá var hann alltaf tilbúinn að hjálpa, sérstaklega ef hann gat notað bílinn til þess. Keyrði mig út á flugvöll þegar ég var bíllaus til að ná í son minn sem var að koma frá Englandi og ég er ekki frá því að hann hafi verið leiður að geta ekki ekið mér lengra. Hann hafði mikla gleði af að aka bíl.

Pétur var ötull við að gefa út Hár og fegurð og halda keppnir sem urðu hárgreiðslunni til framdráttar. Það skarð sem myndast við fráfall hans verður erfitt að fylla.

Það vekur hjá mér mikinn söknuð að geta ekki unnið með honum að keppni og blaði.

Í fornu kvæði segir:

Deyr fé,

deyja frændur,

deyr sjálfur ið sama;

en orðstír deyr aldregi,

hveim er sér góðan getur.

(Úr Hávamálum)

Það á vel við um Pétur því öll þau blöð sem hann gaf út verða ódauðleg.

Ég votta aðstandendum mína dýpstu samúð.

Torfi Geirmundsson.

Félagi okkar Pétur Melsteð sem er nú látinn var mikill afreksmaður í því að kynna iðngrein okkar og halda keppnir og gefa út Hár og fegurð. Það var mikill eldmóður í Pétri og hann vann gott starf fyrir félagið. Félagsmenn kunna honum sínar bestu þakkir fyrir þetta starf. Það er ómetanlegt og kannski hefur hann ekki fengið að njóta þeirrar virðingar sem hann átti skilið í lifanda lífi. Hann var alltaf tilbúinn að vinna félagsstörf og var iðn sinni til sóma.

Við vottum ættingjum hans okkar samúð og virðingu.

Sigurpáll Grímsson,

formaður Meistarafélags hárskera.

Fyrir um 20 árum kynntist ég Pétri Melsteð vini mínum. Þótt langt sé um liðið finnst mér það eins og gerst hefði í gær þegar ég kom fyrst inn á Hárskerann á Skúlagötu til að að freista þess að komast á samning í hárskurði hjá meistaranum.

Við náðum einhvern veginn strax saman og það reyndist auðsótt að hefja störf á litlu stofunni sem ég komst að eftir stuttan tíma að var ekki svo lítil eftir allt.

Pétur reyndist mér góður kennari og það sem meira er um vert, góður vinur sem ég gat leitað til og fengið aðstoð hjá hvað sem á dundi, enda margt að gerast í heimi 17 ára gutta sem var að stíga sín fyrstu spor í heimi alvöru atvinnu ásamt því að vera upptekinn af öllum þeim dásemdum lífsins sem opnast fyrir manni á þessum aldri.

Hvort sem hann var að kenna mér að skafa raksápu með rakhníf af uppblásinni blöðru án þess að sprengja hana (þær spungu ófáar í andlitið á mér) eða að klippa fullkomna burstaklippingu eingöngu með vél á vinum og kunningjum sem voru tilbúnir að gefa "stráknum" tækifæri, þá stýrði hann mér alltaf inná réttu aðferðina án þess að hækka röddina eða tala niður til "nemans".

Pétur gaf einnig út tímaritið Hár & fegurð sem á þeim tíma var það eina sem einhverju máli skipti í hársnyrtifaginu á Íslandi.

Ekki löngu eftir að ég hóf störf hjá honum ákvað hann að fjárfesta í tölvu til að vinna blaðið í og þar sem ég var eini starfsmaðurinn kom ekki annað til greina en að ég settist við tölvuna og lærði að nota hana. Þetta var Apple Macintosh Plus, þvílíkt tæki sem gat gert allt. Án þess að við vissum af því þá reyndist þetta vera brautryðjandastarf í vinnslu á tímariti á Íslandi og eftir því sem vélarnar voru uppfærðar í gegnum árin var Pétur ávallt fljótur að nýta sér tæknina sem fólgin var í öllum þeim nýungum sem komu fram, oftast nær var þetta gert á þrjóskunni einni saman frekar en af vissu um að hlutirnir myndu ganga upp.

Pétur lagði sig allan fram um að gera hársnyrtiiðninni hátt undir höfði og þegar ekkert var að gerast þá setti hann á fót keppnir og sýningar sem urðu faginu mikil lyftistöng. Margir voru ekki alveg tilbúnir í allt það sem hann vildi láta gerast, en hrifust með, tóku þátt og sjá ekki eftir því í dag. Keppnir og sýningar sem áður þóttu í besta falli fjarlægur draumur eru í dag sjálfsagður hlutur og Pétur var maðurinn sem kom þessu af stað.

Að vinna hjá Pétri á þessum árum voru forréttindi, hvort sem um var að ræða að setja upp stærstu hár-, snyrti- og tískusýningar landsins, vera með honum á keppnum og sýningum erlendis, lenda með honum og Erró í boði menningarmálaráðherra Frakklands eða ræða við forseta alheimssamtaka hársnyrtifóks. Þetta varð allt svo eðlilegur hlutur og partur af því að taka þátt í vinnu á "litlu" stofunni á Skúlagötu.

Ég kveð þig Pétur og veit að þú ert að gera einhverja frábæra hluti á öðrum stað. Samfylgdin við þig var fjörugt ferðalag sem ég hefði ekki viljað missa af, mikið af skemmtilegum hlutum að skoða á leiðinni og margir ógleymanlegir vinir sem við kynntumst.

Takk fyrir mig

Ingvi Már.

"Hvað gerum við nú, hver á að klippa okkur?" Þetta voru einlæg viðbrögð 11 ára sonar míns, þegar hann sá andlátsfregn Péturs í Morgunblaðinu, en enginn annar rakari hefur haft hendur í hári hans frá upphafi. Sjálfur er ég í svipuðum vanda, því í rúm 30 ár hef ég reglulega sest í stólinn hjá Pétri og fyrir vikið hitt hann oftar en marga ættingja mína. Langt er síðan við Pétur hættum að eyða orðum í það hvernig ætti að klippa, þess þurfti ekki.

Áhugamál Péturs tengdust ferðalögum og bardagaíþróttum og við það umræðuefni dvöldumst við gjarnan meðan á klippingu stóð. Við æfðum saman júdó í júdódeild Ármanns á árum áður, en síðar fór Pétur að æfa karate, og var hann mjög áhugasamur um þá íþrótt og náði ótrúlega góðum árangri, þrátt fyrir að hafa ekki byrjað að stunda íþróttina fyrr en hann var kominn fast að sextugu. Oft gerði Pétur hlé á klippingu til að sýna myndir frá seinustu jeppaferð og útlistaði þá stundum tæknileg atriði varðandi akstur í misjöfnum snjó á jöklum og átti hann til að gleyma sér í umræðunni.

Mér er minnisstætt þegar ég kom með áðurnefndan son minn í klippingu, þá þriggja til fjögurra ára gamlan. Var vinurinn hreint ekki á því að láta klippa sig og barðist um á hæl og hnakka. Við Pétur urðum fljótlega sammála um að best væri að viðhafa hermannataktík í þetta skiptið. Var rafmagnsklippunum rennt nokkrum sinnum snarlega yfir kollinn og mínútu seinna var drengurinn nær hárlaus og allir hæstánægðir, nema mamman.

Fyrir nokkrum dögum heimsótti ég Pétur í fyrsta sinn með yngsta son minn, sem er á öðru ári. Klippingin gekk ljúflega, þrátt fyrir grát og gnístran tanna, og þakkaði Pétur fyrir að sá litli berðist ekki um eins og eldri bróðirinn gerði stundum, og átti von á því að þeim mundi semja vel í framtíðinni. Staddur var á rakarastofunni í þetta skipti æskufélagi Péturs, búsettur í Svíþjóð til margra ára, og nú var umræðuefnið skútusiglingar. Pabbinn sat undir drengnum, Pétur klippti, en æskufélaginn þerraði tár drengsins, og þannig gekk þetta fljótt og vel fyrir sig og verður minningin um þessa fyrstu og seinustu klippingu einkar ljúf.

Við feðgarnir sendum aðstandendum Péturs innilegar samúðarkveðjur.

Gísli I. Þorsteinsson.

Fjórir bræður, fjögur lauf af hinu stóra lífsins tré fallin til jarðar í mold eilífðarinnar langt um aldur fram, og nú þú síðastur í röðinni, á þrettándadags kveldi nóvembermánaðar, allir mannkostamenn. Fallnir fyrir sigð þess sem spinnur hinn margráða örlagavef. Pétur var lífskúnstner útaf fyrir sig sem hafði ákveðnar skoðanir á mönnum og málefnum eins og gengur. Fór hiklaust ótroðnar slóðir og bauð flestu byrginn ef svo bar undir, sótti þrótt og þrek til fjalla þess á milli sem hann skerti hár af höfði samborgara sinna. Ávallt varstu trúr þínum starfa, alltaf til staðar á rakarastofu þinni við Skúlagötu, alltaf mættur á réttum tíma til vinnu, alveg sama á hverju gekk, þá var starfið ávallt í öndvegi. Aldrei heyrði ég þig hallmæla nokkrum einasta manni, þó svo jafnvel væri tilefni til. Oft á tíðum eftir annasaman dag var brunað á jeppanum stóra út og suður, þó einkum austur fyrir fjall, og þá til Þingvalla þar sem afi þinn síðasti bóndinn í þjóðgarðinum háði lífsbaráttu sína í árafjöld. Ekki er ég frá því að bernskudvöl hans hjá Símoni afa sínum í Vatnskoti hafi mótað drenginn og þá miklu þörf að aka um grýttar slóðir okkar fagra lands og taka myndir af því sem fyrir augu bar. En það var ekki bara náttúra landsins sem fangaði hugann. Útgáfa á tímaritinu Hár og fegurð var þér sérstaklega hugleikin og því samfara haldnar miklar uppákomur varðandi hártísku og förðun, og þá oftast á Broadway með miklum bravúr. Margur herrann og ungmeyjan skartaði sínum fyrstu verðlaunum að kvöldi dags á þeim vettvangi. Pétur sagði eitt sinn við mig, ég veit varla hvað ég er að fara út í, því mig skortir alla þekkingu á þessu sviði, en með áræðni tókst þetta nú allt saman, með góðra vina hjálp. Og það er einmitt þetta áræði sem einkenndi Pétur, að takast á við hið óþekkta, er ekki sagt að hugmyndaríki sé mikilvægara en þekking, jú dropinn holar víst steininn. Að efla atgervi líkamans var ávallt í fyrirrúmi hjá Pétri, hann byrjaði snemma að æfa júdó með íþróttafélagi Ármanns og að síðustu var æft stíft í karate. Máski var það honum ofraun eftir undanfarin veikindi, en keppnisskapinu sem fyrir löngu er orðið þekkt í ættboganum voru engin takmörk sett. Undir það síðasta gæti ég ætlað að þér haf verið innanbrjósts eins og skáldinu góða frá Sandi G.F. þegar hann um þrítugt kvað, veikur á sál og líkama.

Er ævi mín á enda þrædd

er úti nú þegar mitt gönguleyfi

við atferli dauðans er önd mín hrædd

þó yfir mér karluglan skálminni veifi

en fjandi er það bölvað að falla á knén

og fá ekki að stíga á þroskamanns veginn

að baki er æskunnar foræði og fen

en fjalllendi blómvaxið hinum megin.

Enginn kemst sársaukalaust í gegn um lífið, það er hinsvegar hægt að ráða því hvernig við vinnum úr þeirri þjáningu sem lífið færir okkur.

Með þessari stuttu kveðju á ég alveg eins von á því kæri vin að tekið verði vel á móti þér í himnavist framtíðar á grónum bala með fjallasýn allt um kring.

Staðfesti mína dýpstu samúð til allra aðstandenda, barna og barnabarna,

Hilmar H. Gunnarsson.

Pétur Melsteð var einn af þeim mönnum sem ég þakka skringilegum tilviljunum tilverunnar, eða Guði, ef út í þá sálma er farið, fyrir að hafa kynnst. Hann var sannur vinur og félagi. Það voru ekki fáar stundirnar sem hann kenndi mér hvernig ætti að feta ranghala mannlífsins. Ég heyrði Pétur aldrei tala illa um neinn mann né gagnrýna nokkurn tímann athafnir annarra. Það var alveg nýlunda fyrir mér.

Við fórum oft saman í jeppanum hans út úr borginni, á vit óvissunnar, upp á fjöll og jöklatinda, meðfram sjávarströndum og um víðlendi íslenskrar náttúru. Það voru alveg yndislegar stundir. Þegar lagt var af stað vissum við hvorugur hvert förinni væri heitið. ,,Það kemur bara í ljós," sagði hann sposkur. Gufubað og sund var þó yfirleitt fastur dagskrárliður. Pétur kenndi mér að meta það sem landið okkar hefur upp á að bjóða. Hann var frumkvöðull. Einn af þeim vinum sem maður óskar að sem flestir hefðu kynnst og notið návistar við á lífsleiðinni.

Pétur gaf út tímaritið Hár og fegurð áratugum saman, skipulagði alþjóðlegar tískusýningar og var með fyrstu mönnum til að senda út myndefni á netinu. Eitt sinn þegar iðnaðarráðherra var gestur á einni tískusýningunni hans spurði hann Pétur hvernig hann færi eiginlega að þessu. Þá svaraði meistarinn: ,,Þetta er bara spurning um hugmyndafræði." Hvaða hugmyndafræði hann hafði þá í huga veit ég ekki. Nema hún hafi verið hann sjálfur, brautryðjandastarf hans og velvilji. Það þykir mér líklegast. Enda safnaðist í kringum Pétur ógrynni af fólki sem ber mannkostum hans best vitni.

Ég á eftir að sakna Péturs í þessari jarðvist. En ég er ekki sorgbitinn. Ég veit að hann keyrði ferðina héðan örugglega. Inn í nýjar víddir og verund. Þar munum við hittast aftur. Glaðbeittir og fagnandi. Eins og ekkert hafi í skorist. Hvað er dauðinn? Bara ein önnur jeppaferð á vit hins ókunna.

Guðmundur Sigurfreyr Jónasson.

Pétur var mjög sérstakur maður. Hann var alltaf óhræddur við að prófa alla skapaða hluti sem honum datt í hug. Ég kynntist honum þegar ég byrjaði að vinna með honum í keppni sem tímaritið Hár og fegurð hélt, fyrir þó nokkuð mörgum árum síðan. Keppnirnar höfðu alltaf þema sem tengdist náttúru eða einhverju mikilvægu málefni sem þurfti að ná augum og heyru fólks. Í huga hans var ekki sú hugsun til staðar að neitt væri óframkvæmanlegtþess í stað hvaða leiðir væru færar til þess að gera markmið framkvæmanleg. Hann var einstakur fagurkeri á náttúru, bíla og tísku. Hann gat alltaf horft á það fallega í litlu hlutunum. Hann var frumkvöðull á sínu sviði og var óhræddur við svartsýnisraddir. Ef einhver baktalaði hann eða setti út á hann þá fann hann samt alltaf leiðir til að sjá hið góða í viðkomandi. Frumkvöðlar eru oft öfundaðir og misskildir. Hann var með bjartsýnni mönnum sem ég hef kynnst. Pétur var mikið fyrir allskyns tækni og tækninýjungar og var alltaf fyrstur til þess að prófa allt það nýjasta þar. Hann var t.d. með þeim fyrstu til að sjá tækifærin með því að nota Netið.

Ég mun sárt sakna þess að kíkja ekki á hárgreiðslustofuna, fá kók og spjalla um lífið og tilveruna. Ég kom alltaf brosandi út eftir að hafa spjallað við Pétur og full bjartsýni á þau verkefni sem ég þurfti að takast á við.

Pétur minn, ég mun alltaf hafa þig í hjarta mínu og hugsa til þín þegar ég er að byrja á einhverju nýju og nýta mér það sem þú kenndir mér um bjartsýni.

Þinn vinur,

Anna F. Gunnarsdóttir.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.