HUGBÚNAÐUR frá Bandarísku alríkislögreglunni, FBI, vegna erfðaefnisskrár lögreglu hefur ekki enn verið afhentur ríkislögreglustjóra og því tefst enn um sinn að skráin komist í gagnið. Vonast er eftir því að hugbúnaðurinn verði settur upp fljótlega.

HUGBÚNAÐUR frá Bandarísku alríkislögreglunni, FBI, vegna erfðaefnisskrár lögreglu hefur ekki enn verið afhentur ríkislögreglustjóra og því tefst enn um sinn að skráin komist í gagnið. Vonast er eftir því að hugbúnaðurinn verði settur upp fljótlega. Alþingi setti lög um erfðaefnisskrá lögreglu árið 2001 og var ákveðið að nota hugbúnaðinn Codis sem er í eigu FBI. Samningaviðræður við bandarísk stjórnvöld hafa dregist á langinn vegna breytinga sem Bandaríkjamenn hafa verið að gera á samningum við erlend löggæsluyfirvöld en í ágúst í fyrra lá fyrir viljayfirlýsing frá FBI.

Að sögn Árna Albertssonar, aðstoðaryfirlögregluþjóns hjá ríkislögreglustjóra, var allur vélbúnaður kominn í hús fyrir rúmlega viku. Nú sé beðið eftir að FBI sendi staðfestingu um að hægt sé að nýta hugbúnaðinn og síðan muni FBI senda sérfræðinga til að setja upp hugbúnaðinn. Óvíst sé hvenær FBI sendi sérfræðinga sína til landsins en vonandi verði það sem allra fyrst.