Þorbjörg Inga Jónsdóttir
Þorbjörg Inga Jónsdóttir
Þorbjörg Inga Jónsdóttir fjallar um kynjajafnrétti og stjórnmálaflokka: "Þrátt fyrir alla jafnréttisumræðu liðinna ára, fögur fyrirheit og jafnréttisvilja ráðamanna eiga konur undir högg að sækja í stjórnmálum."

ÞEGAR Kvenréttindafélag Íslands var stofnað fyrir réttum 100 árum þá var það einn aðalhvatinn að stofnuninni að vinna að og ná fram jafnrétti kynjanna í stjórnmálum, eða stjórnmálajafnrétti eins og það var nefnt í fyrstu stefnuskránni. Á þeim tíma höfðu konur mjög takmarkaðan kosningarétt og ekki kjörgengi á við karla. Augljóslega hefur mikið áunnist og hafa öll þau formlegu réttindi sem Kvenréttindafélagið vann að fyrstu starfsár sín löngu verið staðfest. Eftir stendur að við eigum enn langt í land með að ná stjórnmálajafnrétti kynjanna eins og hlutur kynjanna á þingi, í ríkisstjórn og stjórnum stjórnmálaflokkanna sýnir glögglega og ljóst að miðað við niðurstöður þeirra prófkjöra sem þegar liggja fyrir, þá munum við ekki heldur ná stjórnmálajafnrétti hér á landi eftir kosningar næsta vor.

Miðað við umræðuna innan stjórnar Kvenréttindafélags Íslands og í þjóðfélaginu almennt á liðnu ári þá virðast allir íslenskir stjórnmálaflokkar í svipaðri stöðu. Í þeim er einfaldlega miklu auðveldara fyrir karla að fá framgang í stjórnmálum, leiða flokk, leiða lista og sitja í ríkisstjórn en konur. Ég ætla þó ekki að halda því fram að staða flokkanna sé nákvæmlega eins hvað þetta varðar, en hún er svipuð, og virðist hvergi það vera sett í forgrunn að tryggja jöfn hlutföll kynjanna í þingflokkum. Miðað við umræðu frá síðustu uppstillingum fyrir kosningar þá virðast flokkarnir leggja meira upp úr að framboðslistarnir endurspegli landsvæði í kjördæmunum en kynin og er engin leið að skilja röksemdirnar fyrir slíkri forgangsröðun. T.d. kom upp sú umræða eftir prófkjör Framsóknarflokksins í Suðurkjördæmi að tryggja þyrfti einstaklingi af Suðurnesjum 3. sæti listans, en ekki konu, jafnvel þótt karlar væru bæði í 1. og 2. sæti. Þá virðist Framsóknarflokkurinn eiga erfitt með að koma auga á eigin leiðtogaefni í hópi kvenna eins og fleiri flokkar, þó að því væri bjargað fyrir horn á síðasta ári að helstu forsvarsmenn flokksins væru ekki eingöngu karlar. Það sama höfum við margoft séð í Sjálfstæðisflokknum og horfi ég þar ekki síst til hins almenna flokksmanns sem virðist margur hver ekki telja að pólitík sé fyrir konur, m.v. niðurstöðu prófkjöra. Kynjapólitíkin í Samfylkingunni er okkur svo öllum ofarlega í huga eftir lestur frásagnar Stelpunnar frá Stokkseyri af slíkri baráttu og vegna síðustu hrókeringa formanna í flokknum. Hvað varðar Vinstri græna þá er það vissulega ánægjulegt að sjá hina nauðsynlegu fléttureglu í verki við uppröðun lista, þó hafa verði í huga að slíkt regla nær skammt þegar efstu menn listanna eru yfirleitt karlmenn og það eru aðeins þeir sem ná kjöri. Síðast en ekki síst ber hér að nefna Frjálslynda flokkinn, eða hóp innan hans, sem virðist með engu móti gera sér grein fyrir að kjósendur við þingkosningar eru af báðum kynjum. Og að til að ná stjórnmálajafnrétti þá þurfa helstu leiðtogar flokkanna að vera bæði karlar og konur.

Aðilar innan flokksins leyfðu sér meira að segja að beita forræðishyggju gagnvart sínum fremsta stjórnmálamanni úr röðum kvenna. Að ákveða að hún réði ekki við að vera framkvæmdastjóri flokksins um leið og hún ynni að eigin framboði. Ég gæti ekki séð fyrir mér að leiðandi karl í stjórnmálum fengi nokkru sinni slíka meðferð, hvorki fyrr né síðar. Þá tel ég að Margrét Sverrisdóttir sé ein hæfileikaríkasti stjórnmálamaðurinn á Íslandi í dag og veit að þar eru mér margir sammála eftir umræðu síðustu mánaða. Margrét er þekkt fyrir að setja sig vel inn í öll málefni sem hún fjallar um, hún stendur og fellur með þeim og gefur ekki afslátt af neinu til að bæta eigin stöðu. Einmitt eins og góðir stjórnmálamenn eiga að vera. En hvers vegna ná hennar samflokksmenn ekki allir að sjá það? Skyldi þar vera kynjapólitík á ferðinni eða eru karlar bara að passa eigin stóla eins og oft áður. Á Frjálslyndi flokkurinn ekki að vera flokkur sem höfðar til breiðs hóps kjósenda af báðum kynjum? Þá þarf hann að skipa bæði konum og körlum í sína framvarðasveit. Ég skora á alla áhugamenn um stjórnmál að fylgjast vel með kosningum á næsta landsfundi Frjálslynda flokksins því að í þeim getur flokkurinn gefið okkur almennum kjósendum, skilaboð um hvort hann er flokkur þröngs hóps sem hundsar kynjasjónarmið í pólitík eða hvort flokkurinn viðurkennir að pólitík sé líka fyrir konur.

Þrátt fyrir alla jafnréttisumræðu liðinna ára, fögur fyrirheit og jafnréttisvilja ráðamanna eiga konur undir högg að sækja í stjórnmálum. Þær virðast eiga erfitt uppdráttar í flestum flokkum og flokkarnir virðast ekki ætla að taka á þessu máli svo nægjanlegt er til breytinga. Stjórnmálaflokkar verða að átta sig á því að konur eru ekki bara upp á punt. Þær eru í stjórnmálum til að hafa áhrif. Eftir hundrað ára jafnréttisstarf í þessu þjóðfélagi sem lengst af var leitt af Kvenréttindafélagi Íslands, eigum við að vera komin lengra. Eða ætlum við að taka 100 ár í þetta í viðbót?

Höfundur er hæstaréttarlögmaður í Reykjavík og formaður Kvenréttindafélags Íslands.