21. júlí 2007 | Menningarblað/Lesbók | 2803 orð | 3 myndir

Til varnar "Tyrkjum"

Hvers er verið að minnast?

— Reuters
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Íslendingar hafa verið iðnir við að halda minningu Tyrkjaránanna 1627 á lofti. Í þessum mánuði er ránanna minnst sérstaklega í Vestmannaeyjum þar sem 380 ár eru liðin frá árás erlendra ókristinna ofbeldismanna á hinn kyrrláta en glaðværa...
Íslendingar hafa verið iðnir við að halda minningu Tyrkjaránanna 1627 á lofti. Í þessum mánuði er ránanna minnst sérstaklega í Vestmannaeyjum þar sem 380 ár eru liðin frá árás erlendra ókristinna ofbeldismanna á hinn kyrrláta en glaðværa Vestmannaeyjabæ. Bæjarbúar standa nú fyrir ýmiskonar viðburðum til að minnast atburðarins og fórnarlamba þess sem bæjarstjórinn nefnir "hryðjuverk". 1 Af því tilefni er ráð að skoða Tyrkjaránin og hvernig þeirra hefur verið minnst á síðustu öldum. Hvers er verið að minnast?

Eftir Bryndísi Björgvinsdóttur

bryndbj@hi.is

Illviljaða Tyrkja þekktu Íslendingar fyrir Tyrkjaránin 1627. U.þ.b. hundrað árum fyrr var Tyrkjaveldi á hátindi frægðar sinnar og þoldi kristin Evrópa þennan nágranna sinn illa. Prestar kyrjuðu bölbænir Tyrkjum til handa og í gegnum slíkar óskir kynntust Íslendingar fyrst Tyrkjum.2 Til að mynda gaf Guðbrandur biskup Vigfússon út bænabók árið 1607 þar sem líta má "Bæn á móti Tyrkjanum og öðrum týrönum". Bænin kallar á hjálp og styrk "...á móti þeim grimma týranna og alls kristindóms höfuðóvin Tyrkjanum, og öðrum hans mökum; hindra hans ráð og illan ásetning...".3 Fleiri dæmi eru til um sambærilegar bænir eða sálma. Þegar svo þessir illu Tyrkir loks komu til landsins tóku sumir þeim fegins hendi sem holdtekna helvítis og hins illa, sem skyndilega urðu áþreifanleg, á Íslandi einn sólríkan dag í júlí.

Hverjir voru Tyrkjaránsmenn?

Víkjum nú til Norður-Afríku en flestir skjóta því réttilega inn í umræður um Tyrkjaránin að þaðan hafi ránsmenn siglt en ekki frá núverandi Tyrklandi. Á ströndum N-Afríku 1627 gaf að líta fjögur smáríki: Túnis, Tripolí, Algeirsborg og Salé.4 Tyrkjaránsmenn sigldu annarsvegar frá Salé, í núverandi Marokkó, og hinsvegar Algeirsborg í Alsír. Salé tilheyrði ekki Tyrkjaveldi en Algeirsborgarmenn mætti kalla Tyrki því ríkið var undir hælnum á Tyrkjasoldáni á þessum tíma en þá á sama hátt og kalla mætti Jón Sigurðsson Dana þar eð Ísland var undir hæli danska konungsins í tíð Jóns.5 Ef við færum okkur nær þessum borgum má sjá að íbúar þeirra eru sundurleit sveit manna af ólíkum uppruna. Þar gefur að líta Mára, marga hrakta frá Spáni, gyðinga, þræla frá Evrópu og Súdan, svo og evrópska menn fædda í kristnum löndum. Þeir síðastnefndu fluttu margir til Norður-Afríku frá Vestur-Evrópu þegar opinber sjóræningjaleyfi þeirra, sem voru partur af stríðsrekstri þátttakenda 30 ára stríðsins, voru kölluð aftur. Margir þeirra tóku upp íslamskan sið í Norður-Afríku. Er talið að þessir menn hafi eflt siglingarlist í Norður-Afríku og þá sérstaklega við strendur Vestur-Evrópu þar sem þessir vestrænu menn þekktu til.6 Ræningjahópurinn samanstóð af þessum fjölmenningarlega hópi, ef svo má segja. Séra Ólafur Egilsson, prestur í Vestmannaeyjum, var tekinn höndum af ránsmönnum og fluttur til N-Afríku. Hann komst ári síðar heim og lýsti hann í reisubók sinni ræningjahópnum svo:

En það er þar um sannast að segja að það fólk sér misjafnt út, bæði af vexti og ásýnd, sem annað fólk, sumir litlir, sumir svartir...kristnir menn úr öðrum löndum, sem að eru engelskir, þýzkir, danskir, norskir, og þeir og nær því hafa sinn gamla klæðabúnað, sem að halda sinni trú, og ekki hafa af henni gengið...[bls. 63]...Tyrkjarnir [voru] allir svartir á hár og með rakaðan haus og skegg, utan á efri vörinni, og það fólk er ekki svo mjög illilegt, heldur í viðmóti svo hæglynt fólk, ef svo mætti um þá tala. En það fólk, sem kristið hefir verið, og af trúnni gengið...það er nú það allra versta fólkið, sem að bæði drepur og lemstrar það kristna fólkið...þeir hinir sömu drápu fólkið hér, bundu og særðu;...7

Það er athyglisvert að nánast ekkert af því sem Ólafur skrifar um þennan fjölskrúða hóp ránsmanna kemur heim og saman við seinni tíma lýsingar.

Tyrkjaránsmenn í íslenskum þjóðsögnum

Tyrkjaránin hafa haft umtalsverð áhrif á íslenska menningu. Íslenskar þjóðsagnir um Tyrkjaránin eru til dæmis um þau áhrif. Þekkt er að sögulegir atburðir hlaði á sig ákveðnum sagnaminnum, breytist við flutning og einfaldist. Tilhneigingin verður oft sú að skerpa á andstæðum og samlaga atburði og persónur stöðluðum ímyndum eins og til dæmis ímynd hetjunnar eða ímynd óvættarins.8 Þátttaka einhverra Tyrkja í ránunum 1627 gaf Íslendingum færi á að líta framhjá hlut vestrænna manna í ránunum og beina frásögnum í þá átt að ránsmenn hafi einungis verið einsleitur hópur framandi manna, Tyrkja. Þjóðsagnir um Tyrkjaránin lýsa þannig sögulegum atburðum eins og Íslendingar kusu sjálfir að muna þá og handleika.

Í íslenskum þjóðsagnasöfnum má finna margar sagnir af átökum Tyrkja við íslenska galdramenn. Þegar Tyrkirnir koma að landi magna göldróttir íslenskir menn upp hin mestu stórveður þeim til handa svo bátar þeirra slitna upp og þá rekur undan landi.9 Ein slík sögn segir af Jóni bónda sem hittir fyrir Tyrki í Selvogi. Tyrkir afklæða Jón og ota að honum hnífum. Þá tekur að hvessa svo Tyrkir sleppa Jóni og halda í báta sína. Skip þeirra rekur frá landi og ná þeir ekki til þess á bátunum svo vitað sé. Jón, nú væntanlega búinn að tína á sig spjarirnar, hittir þá Eirík hinn rammgöldrótta frá Vogsósum, sem hafði fylgst með ofbeldi Tyrkjana, og ávítar hann Jón og segir, "...og farðu ekki oftar á fund óþekktra útlendra".10 Annað sinn komu Tyrkir undir Krýsuvíkurberg og drápu þar matselju, á meðan Eiríkur prestur var að messa í kirkjunni. Gekk Eiríkur fram í kirkjudyrnar og mælti til Tyrkjanna að þeir skyldu drepa hver annan og drápust þeir þá allir.11 Í sögninni Ræningjarnir, bænirnar og nautið segir frá árás Tyrkja á kerlingu eina sem var ein síns liðs í koti á meðan fólk fór til messu. Tyrkir brytjuðu hana niður í stykki og ætluðu því næst að ráðast á aldraða móður prestsins en sú gamla sigaði á þá mannskæðu nauti sem smalaði Tyrkjunum ofan í síki þar sem þeir drukknuðu.12 Í Íslenskum þjóðsögum og sögnum Sigfúsar Sigfússonar kemur fram að Tyrkir hafi elst við vinnukonuna Álfheiði en hún hljóp undan og faldi sig í skúta sem engum var fær nema brattgengum mönnum. Tyrkirnir komust allnærri skútanum en hrökk þá einn þeirra fram af og drapst svo hinir hörfuðu.13 Enginn gat náð til Álfheiðar enda varla við því að búast að Tyrkir séu jafn brattgengir og íslenskar vinnukonur. Í sögnum þessum fá Tyrkir, sem Ólafur Egilsson lýsti sem hæglátum, ítrekað hlutverk aumingjalegra ribbalda sem hafa ekki roð í svona sniðuga Íslendinga.

Atburðarás Tyrkjaránanna í sögulegum heimildum

Ef litið er á sögulegar heimildir um Tyrkjaránin má glögglega sjá sambærilega þróun og þá sem þjóðsagnirnar gengu í gegnum. Kláus lögréttumaður Eyjólfsson skráði niður atburðarás Tyrkjaránanna og er frásögn hans til í fjórum afritum, það elsta er frá sama mánuði og ránin áttu sér stað en það yngsta er frá árinu 1810. Þessi sama frásögn er svo ólík í hverju afriti fyrir sig að ljóst er að menn hafi verið ansi breytingaglaðir, aukið við, skerpt á andstæðum og ýkt.14 Sem dæmi má nefna píslarsögu séra Jóns Þorsteinssonar í þessum afritum röktum til Kláusar. Þar segir að Þorsteinn nokkur hafi svikið Vestmanneyinga og gengið til liðs við ránsmenn og að það sé meining sumra að hann hafi vegið séra Jón, en þeir hafi ræðst við og Þorsteinn hoggið Jón á milli setninga. Jón fól sig Jesús Kristi og enn heggur Þorsteinn uns Jón segir: "Það er nóg! Herra Jesú! meðtak þú minn anda!",15 því næst deyr hann. Í yngra afritinu er talið öruggt að Þorsteinn hafi drepið Jón og er hann þar enn frekar sundursaxaður og smátt niður brytjaður.16 Ljóst er að eftir því sem tíminn líður verður þessi frásögn af dauða Jóns sífellt ýktari. Seinni tíma skrásetjarar juku ofbeldið, kristni verður vinsælla umræðuefni morðingja og fórnarlambs þar sem annar er and-kristinn en hinn kristinn. Í afritum Kláusar má einnig finna frásögn af Guðrúnu einni sem smám saman, eftir því sem heimildir verða yngri, verður svo trúuð að þegar ræningjarnir höggva hana segir hún þeim að skera og skera því hún muni allt í Jesú blessaða nafni þola.17 Tyrkir geta ekki sigrast á kristnum anda þótt þeir skeri okkur, sundursaxi og deyði.

Síðasta þriðjudag var séra Jóns píslarvotts minnst með blessunarorðum í Vestmannaeyjum þar sem hann á að hafa verið niður brytjaður af Tyrkjaránsmönnum,18 en væntanlega ekki Þorsteini eyja-peyja. Þess má einnig geta að sýning sem nú stendur yfir í Vestmannaeyjum heitir, Sjóræningjar og kristnir þrælar – ferðir og örlög fórnarlamba Tyrkjaránsins,19 það virðist enn vera vinsælt að baða Tyrkjaránin kristnum ljóma; óvætturin er ekki kristin.

Hugmyndaflug Íslendinga tefldi ekki aðeins fram niðurbrytjuðum kristnum píslarvottum heldur færði það Tyrkjum einnig blóðbikar í hönd, mönnum sem samkvæmt Ólafi Egilssyni drukku ekkert annað en mýrarvatn.20 Áðurnefndur Kláus kallaði Tyrki blóðhunda, sagði þá ekki geta sig fullsatt í blóði þeirra saklausu og sagði þá hlaupa um sem hundar eða villidýr.21 Björn á Skarðsá er ritaði Tyrkjaránssögu sagði Tyrki vera "manndjöflaþjóð",22 hann lýsti innihaldi fimmta kafla bókar sinnar á þann hátt að hér fari frásagnir um "Tyrkjanna sódómítiska lifnað, vargslæti og blóðþorsta...".23 Með því að saka Tyrki um blóðdrykkju, skepnu- og djöflaskap má því segja að Íslendingum hafi tekist á aðeins örskömmum tíma að skapa goðsögn um átök hins góða og hins illa. Lýsingar sögulegra heimilda minna á dómsdagssagnir þar sem helvíti sameinast jarðnesku lífi. Þegar samfélagið speglar sig í Tyrkjaránunum birtist það sjálfu sér sem kristinn söfnuður vegna þess að nú gat það greint sig frá and-kristnum andstæðingum.24 En Tyrkir létu ekki þar við sitja, þeir héldu áfram að vera áberandi í Evrópusögunni, héldu áfram að vera siðprúðum, kristnum þjóðum víti til varnaðar.

Tyrkjaránin á 19. öld

Á 19. öld fer Tyrkjaránið að gegna hlutverki í þjóðfrelsisbaráttu Íslendinga. Framtíð lands og þjóðar verður mönnum hugðarefni og til þess að hún yrði "rétt" og félli að þjóðernishugmyndum Evrópuþjóðaþurfti að móta ákveðna framtíðarsýn. Fræðimaðurinn Nicholas B. Dirks heldur því fram að sjálfsmynd Evrópubúa hafi mótast af kynnum þeirra af "nýju heimshlutunum" á tímum heimsvaldastefnunnar. Leiddu kynnin til nýrra leiða til að ímynda sé heiminn.25 Þar sem Íslendingar tóku ekki þátt í heimsvaldastefnunni má segja að heimsókn Tyrkja 1627 hafi verið stór hluti af fábrotnum kynnum af fólki er stóð fyrir utan Evrópu. Þjóðverjarnir, Englendingarnir eða Norðmennirnir sem tóku þátt í ránunum tilheyrðu ekki því "framandlega". Tyrkjaveldi var hinsvegar á mörkum okkar heims og "annarra". Tyrkir gáfu Íslendingum kost á að ímynda sér heiminn handan við Evrópu. Þann heim sem var hvaðeina sem Evrópa var ekki og stóð fyrir öllu sem Ísland átti ekki að sækjast eftir ætti sjálfstætt Ísland að verða að veruleika. Skrif ýmissa Íslendinga í Skírni endurspegla þetta. Hegðun hinna "siðaðri" þjóða Evrópu er hampað óspart á síðum Skírnis á 19. öld á meðan "ósiðaðar" þjóðir handan Evrópu voru kallaðar ljótari nöfnum. Tyrkjum var gjarnan úthúðað í Skírni, lýst sem "einþykkustu og lötustu þjóð sem til er",26 fornri og siðlausri vígaþjóð, 27 óhroða28 og að lokum með hinu klassíska viðurnefni Tyrkja, sem hundtyrkjum.29 Þegar fréttir af Tyrkjum voru skráðar í Skírni var stundum minnst á Tyrkjaránin 1627, sem Tyrkir einir virðast alltaf hafa framið. Sífellt kveður við þann tón að Tyrkir séu fylgismenn Múhameðs og þess vegna hljóti þeir að vera andstæða kristinna manna: "...Hundtyrkirnir...[eru] innan um kristna menn líkari úlfum í sauðahjörð, enn samvinnendum siðaðra þjóða."30

Árið 1898 líkir Skírnir Tyrkjaveldi við Axlar-Björn, frægasta fjöldamorðingja Íslandssögunnar, en á því herrans ári létti fréttaritaranum því frést hafði að Tyrkjaveldi væri að dragast saman. Segir hann að við hverja styrjöld Tyrkja "saxist nokkuð á "limina hans Björns míns"".31 Áhersla fréttaritara Skírnis á 19. öld er þannig augljós; Ísland á að þróast í átt til þess sem gerist á meðal herraþjóða Evrópu en mannleysurnar í austri, sem við Íslendingar þekkjum af eigin raun, eru andstæða evrópskrar siðmenningar.

Tyrkjarán síðustu ára

Íslendingar samtímans nýta sér enn ránin til þess að auka áhrif boðskapar síns. Prestur hélt ræðu á héraðsfundi í septembermánuði árið 2003 þar sem hann velti fyrir sér framtíð kirkjunnar. Kvað hann múslima og íslam æða yfir Evrópu eins og fyrr á tímum en við Íslendingar létum varla sjá okkur í kirkjum landsins. Loks spurði presturinn: "Hvaða myrkur er það sem við bíðum eftir? Nýtt Tyrkjarán með nýjum formerkjum? Hversu svart þarf það að vera til að við snúum okkur til hans sem sagði: Ég er ljós heimsins".32 Annar prestur spurði almúgann á svipuðum tíma að því hverjar áhyggjur unga fólksins væru í dag. Dauðinn, óttinn við náttúruhamfarir eða ofbeldi? Óttinn við hryðjuverk, íslam eða "ný Tyrkjarán eins og nú eiga sér stað í Írak þar sem vestrænt fólk er tekið í gíslingu?"33 Af þessu má sjá að við notum enn þann dag í dag orðið "Tyrkjarán" yfir eitthvað sem tengist atburðinum 1627 ekki vitund. Nýjasta dæmið má sjá á bloggsíðu bæjarstjóra Vestmanneyja þar sem hann kallar ránin "hryðjuverk" upp á nútíma-tungu.34 Atburðurinn er síbreytileg hugmynd sem tjáir eitthvað illt, eitthvað sem er mjög slæmt fyrir Íslendinga, eitthvað sem gefur okkur tækifæri til að skilgreina okkur í liði með "vestrænum þjóðum". Með vísan til Tyrkjaránanna getum við sagst hafa upplifað hryðjuverk eins og Bandaríkjamenn. Við eigum okkar eigin hryðjuverkafórnarlömb.

Svo virðist sem Tyrkjaránin séu vel til þess fallinn að magna áróður, hræra í tilfinningum og mála á vegginn andstæðu kristinna manna. Ránin má yfirfæra á alla utanaðkomandi ógn, einkanlega ef hún er sprottinn af ólíkri menningu. Tyrkjaránin eru sífellt endursköpuð og nútímavædd, og þannig haldast þau á lífi.

Af Tyrkjans hryðjuverkum og fórnarlömbum þeirra

Þróunin á lýsingu Tyrkjaránanna frá séra Ólafi Egilssyni til Elliða Vignissonar bæjarstjóra í Eyjum sýnir vel hvernig Tyrkjaránin sem atburður hætta að skipta máli. Meira máli skiptir að breyta, nýta, ýkja og bæta við sundursaxanir, vargslæti og blóðþorsta. Það var gert í þágu okkar Íslendinga til þess að skapa okkur hina hrikalegustu martröð sem hugsast getur. "Hinir" eru fljótlega eftir Tyrkjaránin gerðir sem ólíkastir "okkur", t.d. með því að útiloka Vestur-Evrópumenn frá ránunum, svo "við" höfum andstæð viðmið til að greina "okkur" frá. "Raunveruleg" og "sannsöguleg" viðmið sem fá fólk til þess að trúa annars vegar á tilvist hins illa, helvítis á jörðu, og hins vegar á raunverulegan hóp manna sem eru allt það sem við, sem kristnir evrópskir Íslendingar, eigum ekki að sækjast eftir. "Hinir" eru vargar, múhameðstrúarmenn, Tyrkir, blóðhundar og aðskotadýr Evrópu. Þar sem neikvætt viðhorf til Tyrkja var gegnumgangandi í Evrópu á 17. öldinni og allt fram á daginn í dag voru Íslendingar aðeins þátttakendur í hnefasteytingum í austurátt. En með því að taka virkan þátt í slíku, eins og fréttaritarar Skírnis, þá reyna Íslendingar að skapa sér sess innan um herraþjóðir Evrópu.

Það væri ráð að íslensk kirkja og stjórnvöld legðust á eitt og skrifuðu þakkarbréf til Tyrkja fyrir að hafa lagt sitt að mörkum til þess að styrkja íslenska bændur í kristni og fyrir að vera 19. aldar Íslendingum víti til varnaðar á umbrotatímum. Og nú geta Vestmanneyingar boðið upp á menningarlega sumardagskrá í tilefni hörmunganna á 10 ára fresti, kallað atburðinn "hryðjuverk" eða hvað sem er móðins þann áratuginn.

Í upphafi spurði ég hvers við værum að minnast nú þegar talað er um 380 ára "afmæli" Tyrkjaránanna 1627. Við erum að upphefja okkar eigin ímynd af hörmulegri atburðarás sem er sífellt endurmótuð, og nú eftir bandarískri "911" forskrift. Þegar Tyrkjaránanna er minnst skiptir atburðurinn sem slíkur ekki máli, það sem máli skiptir er notkun okkar Íslendinga á honum. Þau "Tyrkjarán" sem við höfum verið að minnast í gegnum aldirnar og minnumst í dag gerðust aldrei.

Árið 1615 drápu Íslendingar á fjórða tug spánskra skipbrotsmanna og slógu síðan upp veislu þar sem dansað var og sungið glatt.35 Er kannski ráð að minnast þeirra atburða?

1 http://ellidiv.blog.is/blog/ellidiv/entry/189841/

2 Ólafur Egilsson: Reisubók séra Ólafs Egilssonar. Bls. 32

3 Tyrkjaránið á Íslandi 1627. Bls. XIV.

4 Helgi Þorláksson: "Tyrkinn og tíðarfar". Bls. 280.

5 Sama. Bls. 280.

6 Þorsteinn Helgason: "Hverjir voru Tyrkjaránsmenn? Bls. 126.

7 Ólafur Egilsson: Reisubók séra Ólafs Egilssonar. Bls. 63. (Skáletrunin er mín eigin).

8 Giolláin, Diarmuid Ó.: "Myth and History. Exotic Foreigners in Folk-belief". Bls. 70.

9 Sjá t.d.: Þjóðsagnakver. Magnús Bjarnason frá Hnappavöllum safnaði. Bls. 26.

10 Íslenzkar þjóðsögur og ævintýri I. Bls. 562.

11 Sama. Bls. 562.

12 Íslenzkar þjóðsögur og ævintýri IV. Bls. 167.

13 Íslenskar þjóðsögur og sagnir IV. Bls. 119-120.

14 Tyrkjaránið á Íslandi 1627. Bls. 18.

15 Sama. Bls. 29.

16 Sama. Bls. 84-85.

17 Sama. Bls. 83.

18 http://tyrkjaran.eyjar.is/

19 http://www.artfest.is/default.asp?page_id=7161&event;_id=4176

20 Ólafur Egilsson: Reisubók séra Ólafs Egilssonar. Bls. 65.

21 Tyrkjaránið á Íslandi 1627. Bls. 21.

22 Sama. Bls. 209.

23 Sama. Bls. 278.

24 Matthías Viðar Sæmundsson: "Íslands er þjóð, öll sökkt í blóð". Bls. 356-7.

25 Kristín Loftsdóttir: "Tómið og myrkrið. Afríka í Skírni á 19. öld". Bls. 119.

26 Skírnir 1837. Bls. 24.

27 Skírnir 1862. Bls. 43.

28 Skírnir 1877. Bls. 40.

29 Skírnir 1888. Bls. 13.

30 Skírnir 1877. Bls. 12.

31 Skírnir 1898. Bls. 48.

32 http://www.kirkjan.is/annall/thorvaldur/2004-02-02/14.37.56

33 http://www.gudfraedi.is/annall/ornbardur/2004-09-26/23.25.55

34 http://ellidiv.blog.is/blog/ellidiv/entry/189841/

35 Spánverjavígin 1615. Bls. 27-28.

Höfundur er meistaranemi í þjóðfræði.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.