Engin jarðgöng Kristján L. Möller samgönguráðherra tilkynnti í gær að ríkisstjórn hefði hafnað tillögum um gerð jarðganga til Vestmannaeyja.
Engin jarðgöng Kristján L. Möller samgönguráðherra tilkynnti í gær að ríkisstjórn hefði hafnað tillögum um gerð jarðganga til Vestmannaeyja. — Morgunblaðið/G.Rúnar
Eftir Ylfu Kristínu K. Árnadóttur ylfa@mbl.is KRISTJÁN L. Möller samgönguráðherra tilkynnti á fréttamannafundi í gær að horfið hefði verið frá hugmynd um gerð jarðganga milli Vestmannaeyja og lands.
Eftir Ylfu Kristínu K. Árnadóttur ylfa@mbl.is

KRISTJÁN L. Möller samgönguráðherra tilkynnti á fréttamannafundi í gær að horfið hefði verið frá hugmynd um gerð jarðganga milli Vestmannaeyja og lands. Áður hafði skýrsla Verkfræðistofu Sigurðar Thoroddsen hf. um mat á kostnaði við gerð jarðganganna verið kynnt í ríkisstjórn. Að lokinni umfjöllun var niðurstaðan sú að öll áform um fyrirhuguð jarðgöng skyldu lögð á hilluna.

"Það er mat aðilanna sem unnu þetta verk, eftir beiðni frá fyrrverandi samgönguráðherra, að þessi átján kílómetra göng myndu kosta 52-80 milljarða króna þar sem lægri talan gengur út frá því ef göngin yrðu steypufóðruð fyrstu þrjá kílómetrana frá Vestmannaeyjum og allt að 80 milljarða ef það reyndist nauðsynlegt að steypufóðra þau öll," sagði samgönguráðherra. Hann vitnaði þá í skýrsluhöfunda sem telja álitamál hvort nokkurn tímann sé réttlætanlegt að grafa eða reka svo löng jarðgöng djúpt undir sjó á eins jarðfræðilega virku svæði og Vestmannaeyjasvæðið er.

Ný höfn í notkun árið 2010

Auk þessa var samþykkt að Herjólfur færi 15 viðbótarferðir á ári. Það fyrirkomulag mun gilda það sem eftir lifir samningstímans við Eimskip um siglingu Herjólfs, eða frá 2008 til 2010. Herjólfur fer nú 720 reglulegar ferðir á ári auk nokkurra aukaferða. "Viðbótarferðirnar verða gerðar með fullu samkomulagi við og eftir óskum Vestmannaeyinga. Unnið verður á ákveðinn hátt í tæka tíð á vorin og ferðirnar settar í kringum stóra viðburði sem eru í Vestmannaeyjum."

Í gildandi samgönguáætlun er gert ráð fyrir að framtíðarsamgöngur milli lands og Eyja verði með nýjum Herjólfi sem sigli milli Bakkafjöru og Heimaeyjar. Hönnun hafnar í Bakkafjöru er hafin sem og sáning á Landeyjasandi og er gert ráð fyrir að höfnin verði tekin í notkun árið 2010. Heildarkostnaður við nýju samgöngurnar verður um 5,6 milljarðar. Í því felst gerð hafnarinnar, ný sérsmíðuð ferja og nýr vegur upp á hringveginn. Ekki er vitað hvort Eimskip mun reka nýju ferjuna en til stendur að halda útboð. Ferjan verður töluvert minni en Herjólfur er nú en stefnt er að tíðari ferðum milli lands og Eyja.

Elliði Vignisson bæjarstjóri sagði það vonbrigði fyrir Eyjamenn að hugmyndir um jarðgangagerð á milli lands og Eyja hefðu verið lagðar á hilluna. Þeir hefðu a.m.k. átt von á frekari rannsóknum áður en slík ákvörðun yrði tekin. Hann telur þó uppbyggingu samgangna á milli Eyja og Bakkafjöru næstbesta kostinn.