Að morgni 17. júlí 1627 Tyrkjaránsmenn herjuðu á Vestmannaeyinga í þrjá daga, myrtu 34 en höfðu á brott með sér 242 samkvæmt frásögn Ólafs Egilssonar sem fyllti hópinn ásamt fjölskyldu sinni.
Að morgni 17. júlí 1627 Tyrkjaránsmenn herjuðu á Vestmannaeyinga í þrjá daga, myrtu 34 en höfðu á brott með sér 242 samkvæmt frásögn Ólafs Egilssonar sem fyllti hópinn ásamt fjölskyldu sinni.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ránsferð Tyrkjanna frá Algeirsborg til Íslands reiknast afrek af þeirra hálfu og fékk því sinn sess í erlendum ritum. Siglingin var löng og ströng norður Atlantshaf og herfangið umtalsvert.

Ránsferð Tyrkjanna frá Algeirsborg til Íslands reiknast afrek af þeirra hálfu og fékk því sinn sess í erlendum ritum. Siglingin var löng og ströng norður Atlantshaf og herfangið umtalsvert. Reisubók séra Ólafs Egilssonar er merkileg heimild um ránið en hann telur að 242 hafi verið numdir á brott og 34 hafi látist. Sjálfur átti hann afturkvæmt ásamt eiginkonu sinni en börn sín sá hann aldrei aftur. Hér er bók Ólafs skoðuð ásamt fleiri heimildum um Tyrkjaránin.

Eftir Steinunni Jóhannesdóttur

steinjoh@akademia.is

Þegar séra Ólafur Egilsson ritaði "reisukver" sitt eftir að hafa lent í miklum mannraunum frá því honum var rænt með fjölskyldu sinni um miðjan júlí 1627 og þar til hann kom aftur heim til Vestmannaeyja réttu ári síðar, vann hann afrek á sviði sagnaritunar og heimildaskráningar sem Íslendingum samtímans er flestum hulið.

Í formála að útgáfu Almenna bókafélagsins á Reisubók séra Ólafs 1969 segir Sverrir Kristjánsson sagnfræðingur að séra Ólafur muni "vera fyrstur norrænna manna sem skráð hefur frásögn af lífi og háttum fólks í ríki sjóræningja í Algier, Barbaríinu, svo sem það var kallað á Evrópumálum".

Til grundvallar útgáfu AB var eldri útgáfa úr hinu mikla safni dr. Jóns Þorkelssonar þjóðskjalavarðar, Tyrkjaránið á Íslandi 1627 , sem kom út á vegum Sögufélagsins 1906-1909.

Nokkuð samtak af reisukveri síra Ólafs Egilssonar,

sem með öðrum ræntur var úr Vestmanna-

eyjum af Tyrkjum á því ári frá

Christi fæðing 1627, en kom

aftur hingað 1628 nokkr-

um dögum fyrri að

jafnlengd til

að telja.

Sjálfur hafði Ólafur gert "merkilegan formála um kross og mótgang yfir sitt reisukver, um hvert sitt ferðalag hann kveðst beðinn hafa verið saman að taka, frá þeim 16. Julii og til þess hann koma aftur í Vestmannaeyjar þann 6. Julii ári síðar".

Fræðafrömuður á biskupsstóli

Guðbrandur Þorláksson, biskup á Hólum, lést 20. júlí 1627, daginn eftir að Tyrkir lögðu úr höfn frá Vestmannaeyjum með hátt í fjögur hundruð fanga innanborðs, Eyjafólk og Austfirðinga, en Landakirkju og Dönsku hús höfðu ránsmennirnir áður brennt til grunna. Eftirmaður Guðbrands á stólnum, Þorlákur Skúlason, tók biskupsvígslu í Danmörku vorið 1628 og þann 5. apríl hittust þeir í gestaboði hinn þrítugi biskup og Eyjaklerkurinn ferðamóði, séra Ólafur Egilsson. Prestur var þá nýkominn til Kaupmannahafnar úr sinni háskafullu reisu norður um Evrópu frá Algeirsborg í þeim tilgangi að greina konunginum, Kristjáni IV., frá ráninu og fara fram á lausnargjald fyrir konu sína og börn. Í boðinu voru garnirnar raktar úr ferðalangnum og það er freistandi að álykta að Þorlákur biskup hafi þá þegar hvatt séra Ólaf til þess að skrifa ferðasögu sína.

Þorlákur var háskólamenntaður og gerðist fljótt hvatamaður þess að lærðir menn hæfu á ný að rita annála eftir aldalangt hlé. Hann réði fyrstan til verksins fræðabóndann Björn Jónsson á Skarðsá sem síðar ritaði sögu Tyrkjaránsins, einnig að undirlagi biskups. Þá varð reisukver séra Ólafs ein mikilvægasta heimildin.

Ritfærir ættingjar

Séra Ólafur Egilsson var ekki einn um að valda penna af sínu ættfólki. Bróðir hans var séra Jón Egilsson í Hrepphólum, höfundur Biskupaannála og fyrirrennari Björns á Skarðsá í sagnaritun. Kláus Eyjólfsson, lögréttumaður og bóndi á Hólmum í Landeyjum og um tíma sýslumaður í Vestmannaeyjum, var bróðursonur séra Ólafs Egilssonar og systursonur séra Jóns Þorsteinssonar, sálmaskálds í Kirkjubæ, sem myrtur var í ráninu. Kláus tók á móti flóttafólki, kannaði valinn í Eyjum, taldi líkin sem voru grafin og skrifaði fyrstur manna lýsingu á því hvernig umhorfs var eftir árásina í júlí 1627. Honum blöskraði aðkoman: "því eg meina ei muni slíkt hafa, hvorki utan lands né innan, mótstöðulausu fólki og meinlausu gert verið..."

Guðríður Símonardóttir var systurdóttir Kláusar ef hún er rétt ættfærð, eina konan sem skrifaði bréf frá Alsír sem varðveist hefur.

Vestmannaeyjar reistar úr rústum

Eftirmál Tyrkjaránsins komu mjög til kasta Kláusar eins og sést í grein eftir Guðrúnu Ásu Grímsdóttur, Úr Tyrkjaveldi, og bréfabókum í Griplu 1995. Það heyrði undir sýslumanninn, prestana og kaupmennina að hafa forystu um endurreisn byggðarinnar. Nákvæmar tölur um mannfjölda í Eyjum eru ekki til fyrir tíma manntalsins 1703, en líklegt að þar hafi búið um 400-450 manns. Hitt er ljóst að íbúatalan hefur hrunið í einu vetfangi í ráninu. Ólafur Egilsson telur að 242 hafi verið numdir brott en 34 myrtir sem mun nærri sanni. Þetta voru sóknarbörnin hans.

Séra Ólafur lifði það að fá konu sína, Ástu Þorsteinsdóttur, leysta úr herleiðingunni, hún kom aftur til Eyja 1637. En ekkert barna þeirra sem rænt var átti afturkvæmt. Ólafur lést 1639 og hafði þá ásamt Kláusi leitað lausna á flóknum siðferðismálum sem hlutust af ráninu. Báðir lögðu drjúga fjármuni til að reisa nýja Landakirkju en Kláus lét ekki þar við sitja. Árið 1650 gaf hann Krosskirkju í Vestur-Landeyjum altaristöflu í félagi við kaupmanninn í Eyjum, Niels Clementsson, sem túlka má sem vísun til Tyrkjaránsins. Þorsteinn Helgason sagnfræðingur hefur fjallað um töfluna í Árbók Hins íslenska fornleifafélags og greint myndefni hennar sem ættað er úr dómsdagsspádómum Opinberunarbókarinnar. Hann telur boðskapinn vera viðvörun til Íslendinga. Láti þeir ekki af syndugu líferni muni þeir kalla yfir sig nýjar hörmungar. Altaristaflan í Krosskirkju á sér enga hliðstæðu í öðrum kirkjum á Íslandi, hún er lítt þekktur dýrgripur í kirkjusögunni sem hefur í 357 ár prýtt lítið guðshús fjarri alfaraleið. Töflunni eru gerð skil í sýningu um Tyrkjaránið sem sett var upp í Vestmannaeyjum sl. vor í samvinnu við Listahátíð.

Cervantes, Mascarenas, d´Aranda

Ránsferð Tyrkjanna frá Algeirsborg til Íslands reiknast afrek af þeirra hálfu og fékk því sinn sess í erlendum ritum. Siglingin var löng og ströng norður Atlantshaf og herfangið umtalsvert. Hertaka kristinna manna, sem hófst í byrjun 16. aldar á Miðjarðarhafinu og strandhéruðum Suður-Evrópu í hefndarskyni fyrir brottrekstur Mára (múslíma) frá Spáni til Norður-Afríku, þróaðist með tímanum í mikilvæga atvinnugrein. Algeirsborg varð voldugasta vígið, íbúatalan um 100 þúsund á seinni hluta 16. og á 17. aldar. Talið er að þá hafi að jafnaði verið þar 20-25 þúsund kristnir þrælar. Meðal þeirra leyndust stundum ritfærir menn, þar á meðal höfundur Don Kíkóta , Cervantes. Vitnisburður hans er meðal hinna fyrstu þekktu um kjör þrælanna í borginni.

En aðrir höfundar áttu eftir að gera þrælavistinni nákvæmari skil og tveir þeirra komu undirritaðri að miklum notum sem heimildamenn við ritun Reisubókar Guðríðar Símonardóttur . Annar var Portúgalinn Joao Mascarenas, þræll 1621-1626, hinn spænskættaður aðalsmaður frá Bruges, Emanuel d´Aranda, þræll 1640-1642. Einn kafli í bók d´Aranda er birtur í heimildasafninu mikla, Tyrkjaránið á Íslandi 1627. Þar segir af íslenskum trúskiptingi sem gekk á fund höfundar skömmu áður en hann yfirgaf Alsír á leið til Madríd og bað hann fyrir bænarskjal til sendiherra Danmerkur sem myndi koma því áfram til Kristjáns IV. Erindið var að fá móður Íslendingsins leysta úr ánauð. Seinna frétti D´Aranda að bænarskjalið hefði borið árangur, sem getur staðist því síðasta tilraun til þess að leysa út íslenska þræla átti sér stað 1645 eins og Þorsteinn Helgason greindi frá á Íslenska söguþinginu 1997.

D´Aranda segir m.a. frá því hve illa Íslendingar þoldu umskiptin: "Margir dóu af loftslagsbreytingunni og aðrir köstuðu trúnni, því þeir örvæntu um það að þeir yrðu keyptir lausir..." Til samanburðar skrifar séra Ólafur Egilsson, sem yfirgaf Algeirsborg eftir aðeins mánaðardvöl, "að íslenzka fólkið dæi niður og lægi þá sjúkt um allan staðinn,[...]og að í legstaðargarðinn þeirra kristnu væru komnir 31, því að þetta fólk þolir ekki þann hræðilega hita, sem að þar er".

Lýsing á trúvíkingum (corsairs)

Lýsingar Ólafs eru glöggar og ýkjulausar þrátt fyrir hörmungarnar sem yfir hann og fjölskyldu hans dundu. Það sýna mörg dæmi.

Hann lýsir um 300 manna innrásarliði sem skipað er mönnum af ólíkum uppruna, sumir eru dökkir yfirlitum en aðrir Evrópumenn af ýmsu þjóðerni, enskir, danskir, þýskir og norskir, og sér á klæðnaði þeirra, hverjir eru kristnir þrælar og hverjir trúskiptingar. Trúskiptingarnir klæðast eins og Tyrkirnir og það eru þeir sem ganga fram af mestri grimmd gagnvart varnarlausu fólkinu, binda það, lemstra og myrða.

Það voru Evrópumenn, oft Hollendingar, sem kynntu Norður-Afríkumönnum þá tæknibyltingu sem fólst í að smíða hafskip og sigla undir seglum um úthöfin. Evrópumenn stýrðu skipunum lengi framan af, m.a. til Íslands, og margir í áhöfnunum höfðu gengið af trúnni og gerst "Tyrkir". Með því gátu þrælar keypt sér frelsi.

Fæðing barns og fórnarathöfn

Séra Ólafur var grimmilega pyntaður af kapteininum á stærsta ræningjaskipinu en eftir að komið var á haf út naut hann og fjölskylda hans nokkurra forréttinda, sem hugsanlega helgaðist af 63 ára aldri hans eða því að kona hans, Ásta Þorsteinsdóttir, var háólétt. "Á þann 30. dag Julii, þá fæddi mín fátæka kvinna barn til veraldarinnar eftir tímans hentugleikum." Hann lýsir því einnig hvernig framkoma ræningjanna mildaðist við þennan atburð og tveir komu með gamlar skyrtur af sér til þess að vefja utan um barnið.

Nokkrum dögum eftir fæðingu barnsins skall á "stór stormur af landnyrðingi, svo lá við töpum". Skipin hröktust hvert frá öðru, stærsti skipsbáturinn slitnaði upp og brotnaði í spón, maður féll útbyrðis og skipverjar fylltust örvæntingu. "En illmennin tóku það til ráðs á því skipinu sem ég var," skrifar Ólafur, "að þeir slátruðu einum hrút mjög svo feitum sér til offurs, annað hvort djöflinum eða einhverjum sínum afguði, hvað mér var óvitanlegt, hvern þeir skáru í tvo parta og köstuðu svo sínum helmingi á hvert borð við skipið, og stormurinn stilltist innan fárra tíma."

Í nýlegri bók eftir enska rithöfundinn Giles Milton, White Gold , byggðri á sögu Tomasar Pellow frá Penryn sem var hertekinn 11 ára gamall á Miðjarðarhafinu og haldið föngnum sem þræli í Marokkó í 23 ár á fyrri hluta 18. aldar, er lýsing á sams konar fórnarathöfn. Sauður var skorinn um kverk og afhöfðaður, skrokkurinn höggvinn í tvennt og helmingunum kastað sínum fyrir hvort borð.

Skiptareglur um mansal

Frásögn séra Ólafs af uppboðinu á hinu hertekna fólki á aðaltorgi Algeirsborgar kemur heim við lýsingar annarra höfunda og fræðimanna: "Síðan tekur þeirra kóngur, sem svo skal heita, áttunda hvern mann og áttundu hverja konu, áttunda hvern dreng og svo af börnunum, og síðan hann hefur það tekið, þá er skipt í tvo parta, og þá er annar skipseigendanna, en annar stríðsfólksins."

Á þrælatorginu varð séra Ólafur fyrir djúpri sorg þegar "kóngurinn" pasjan (deyinn), valdi fyrstan úr son hans, ellefu ára dreng, "sá mér gengur aldrei úr minni meðan eg lifi vegna skilnings og lærdóms..."

Þannig var fjölskyldum tvístrað enn frekar en gerst hafði í sjálfu ráninu. Þó voru yngstu börnin ekki tekin af foreldrum sínum og þegar séra Ólafur var gerður út með passa á fund Danakonungs fylgdi kornabarnið móður sinni, sem og það ársgamla, bæði fársjúk. Sama er að segja um Sölmund, son Guðríðar Símonardóttur. Hann var með henni fyrstu árin eins og hún skýrir frá í bréfi til eiginmanns síns í Vestmannaeyjum.

Evrópulýsingar standast

Séra Ólafur var lítt nestaður fyrir ferð sína norður á bóginn og hún reyndist bæði háskafull og erfið á ófriðartíma. Hann hraktist um Miðjarðarhafið og milli borga og landshluta í Suður-Evrópu fram í byrjun desember þegar hann lenti loks í borginni Marsilíu eða Marseille og þá má enn fyllast aðdáun á hinu glögga gestsauga.

"Um þann stað Marsilien er það að segja, að hann er byggður utan í kringum einn fjörð kringlóttan, sem er svo mjór framan, að ég meina hann ekki fulla 40 faðma fyrir utan fjarðarkjaftinn, og í því sundi eru settir fjórir stólpar í sjóinn af múr, og á milli þeirra allra eru járnhlekkir furðanlega sterkir, og stórir broddar af járni hanga niður úr hverjum hlekk, svo þar kunna ekki skip að komast eða bátar út eður inn með nokkru móti. En öðru megin við þann fjarðarkjaft stendur staðarins kastali, en iij stórtré á floti föst á endunum við þann stólpann, sem næstur er, en annar er læstur hjá þeim í kastalanum, hvar fyrir innan öll skipin liggja, hver eg meina ekki færri en 100, því að það er mikill kaupstaður, v húsa hár, og í sumum stöðum vj húsa hár, og allur með geysistórum stykkjum [fallbyssum] forvaraður, svo hvergi sá ég þau jafnstór á minni eymdarreisu, og þar fer enginn út né inn, nema þeir leyfi sem eru í kastalanum."

Í bókinni Le vieux port de Marseille (Gamla höfnin í Marseille) eftir Régis Bertrand er steinþrykk frá 1636 sem sýnir nákvæmlega þá borg, innsiglingu og höfn sem séra Ólafur teiknar upp fyrir lesendur, stólpana fjóra með járnhlekkjunum, stórtrén, bátafjöldann, kastalann og fimm hæða hús. Myndin og texti Ólafs er hluti sýningarinnar um Tyrkjaránið í Vestmannaeyjum. Myndin er einnig birt í Reisubók Guðríðar Símonardóttur , bls. 308-309.

Ekki brást Ólafi bogalistin þegar hann fór að lýsa því merkilega landi Hollandi sem "eg ekki betur veit en það sé gert af mönnum..." Dvöl hans var nógu löng til þess hann gæti skilið og útskýrt hvernig landið var ræst fram, fyllt upp og þurrkað með afli vindmyllna. Þar væri mál manna, "að ef vindurinn kæmi ekki í mánuð, þá væri landið í kafi".

Óþekktur sjóður í sögu Evrópu

Fleiri ritfærir Íslendingar en séra Ólafur voru herteknir í Tyrkjaráninu, því eins og kunnugt er skrifuðu nokkrir þeirra bréf frá Alsír þ. á m. bræðurnir Helgi og Jón Jónssynir frá Grindavík og Guttormur Hallsson frá Djúpavogi. Lengsta bréfið í heimildasafni Sögufélagsins er sár harmaklögun og neyðaróp frá sumrinu 1635 sent til Danakonungs í nafni 70 íslenskra fanga í Algeirsborg sem enn voru á lífi og óskuðu þess að verða leystir úr ánauðinni. Sláandi líkindi eru með örvæntingunni í ákalli Íslendinganna til yfirvalda í Danmörku og enskra þræla í Marokkó sem fannst þeir gleymdir af kóngi sínum í London og lýst er í bók Giles Milton, White Gold . Milton þekkir þó engin skrif okkar manna.

Ríkulegar heimildir okkar um Trykjaránið 1627 og eftirmál þess eru óþýddar á alþjóðamál og því nær óþekktar meðal erlendra fræðimanna á sviðnu. Aðeins ein vísindagrein eftir Þorstein Helgason bendir þeim á atburðinn og heimildirnar. Historical Narratives as Collective Therapy: the Case of the Turkish Raid in Iceland, sem birtist í Scandinavian Journal of History 1997. Grein undirritaðrar, Slaveraid på Island, birtist svo norskum lesendum í 3. hefti tímaritsins Levende historie í ár. Í Evrópusögunni hafa fangarnir 400, sem fljótt týndu tölunni, horfið nafnlausir inn í heildarfjölda kristinna þræla í Tyrkjaveldi sem losaði eina milljón á þrem öldum.

Vestmannaeyjar vettvangur rannsókna

Í Vestmannaeyjum eru einstæðar aðstæður frá náttúrunnar hendi til þess að varðveita og viðhalda þekkingu á þessum dramatíska kafla í sögu lands og þjóðar og kynna hann umheiminum. Í stórbrotnu umhverfi blasir vettvangur áhlaupsins enn við sjónum og þar urðu til nákvæmar heimildir sem eiga erindi inn í alþjóðlegar sögurannsóknir samtímans. Heimildir okkar ná utan um atburðinn frá fyrsta áhlaupinu á Grindavík, yfir fríkaupaferlið og til þess að síðasta Tyrkjamanið lokaði augum hinsta sinni. Það er því mikið verkefni sem býður vandvirkra þýðenda, sagnfræðinga, rithöfunda og framkvæmdamanna af ýmsu tagi að gera þennan sögukafla aðgengilegan bæði Íslendingum og erlendum gestum. Og hver veit nema fræðimenn og ferðalangar frá miðju hins forna heimsveldis, Tyrkir nútímans, vilji verða samtalshæfir um gamla sögu ef við síðar tökumst í hendur sem þegnar tveggja jaðarþjóða í Evrópusambandinu.

D'Aranda, Emanuel. Relation de la Captivité & Liberté du sieur Emanuel D'Aranda jadis Esclave a Alger;... Troisieme Edition, augmentée de treize Relations, & autres Tailles douces, par le meme Autheur. Bruxelles 1662. Texte établi par Latifa Z'Rari. Édition Jean-Paul Rocher, Paris 1997.

Ari Gíslason. Niðjatal Hallgríms Péturssonar og Guðríðar Símonardóttur. Þjóðsaga, Rvík 1989.

Björn Jónsson. Skarðsárannáll 1400-1640. Inngangur, Hannes Þorsteinsson. Hið íslenska bókmenntafélag. Rvík 1922 -1924.

Davis, Robert C. Christan Slaves, Muslim Masters. White Slavery in the Mediterranean, the Barbary Coast, and Italy, 1500-1800. Early Modern History: Society and Culture.Palgrave Macmillan 2003.

Guðrún Ása Grímsdóttir Úr Tyrkjaveldi og bréfabókum. Gripla 1995.

Jón Halldórsson. Biskupasögur. Hólabiskupar 1551-1798. Sögufélag. Rvík 1911-1915.

Kláus Eyjólfsson. Skrif um rán það, sem Tyrkjarnir gerðu á Vestmannaeyjum frá 17da til 19da Julii 1627. Reisubók s. Ó. E. AB, Rvík 1969.

Ólafur Egilsson. Reisubók séra Ólafs Egilssonar. Almenna bókafélagið, Rvík 1969.

Mascarenas, Joao. Esclave a Alger, récit de captivité de J M (1621-16269). Traduit du portugais & présenté par Paul Teyssier. Édition Candeigne, 1993.

Milton, Giles. White Gold. The Extraordinary Story og Thomas Pellow and Islam's One Million White Slaves. Hodder & Stoughton 2004.

Spencer, William. Algiers in the Age of the Corsairs. University of Oklahoma Press 1976.

Tyrkjaránið á Íslandi 1627. Ritstj. Jón Þorkelsson. Sögurit IV, Rvík 1906-1909.

Þorlákur Skúlason biskup. Bréfabók. Heimildaútgáfa Þjóðskjalasafns I. Inngangur, Jón þ. Þór. Rvík 1979.

Þorsteinn Helgason. Sverð úr munni Krists á Krossi. Árbók Hins íslenska fornleifafélags 2000-2001. Sjá einnig grein ÞH um sama efni í Lesbók Morgunglaðsins 12. febr. 2005.

Höfundur er rithöfundur.