Breyting Ekið um fyrsta eiginlega hringtorgið á Sauðárkróki.
Breyting Ekið um fyrsta eiginlega hringtorgið á Sauðárkróki. — Morgunblaðið/Örn Þórarinsson
Eftir Örn Þórarinsson Skagafjörður | Umferð hefur verið hleypt á síðasta kafla Þverárfjallsvegar, milli Skagastrandar og Sauðárkróks.

Eftir Örn Þórarinsson

Skagafjörður | Umferð hefur verið hleypt á síðasta kafla Þverárfjallsvegar, milli Skagastrandar og Sauðárkróks. Þá var ný brú við Gönguskarðsárós tekin í notkun og einnig hringtorg nyrst í Sauðárkróksbæ skammt frá steinullarverksmiðjunni.

Með tilkomu vegarins breytist innkoma vegfarenda til Sauðárkróks verulega. Þverárfjallsvegur er alls 35 kílómetar að lengd, 7,5 metra breiður og lagður bundnu slitlagi.

Ekki verður annað sagt en síðasti hluti framkvæmdarinnar hafi gengið vel því samkvæmt samningum átti að skila verkinu 1. ágúst 2008. Tekið skal þó fram að enn er eftir nokkur frágangur við veginn og hringtorgið. Verktaki við seinni hluta vegarins, sem var 12,4 kílómetra langur og náði frá Hestgili á Laxárdalsheiði og á eyrina norðan sláturhússins á Sauðárkróki, var Skagfirskir verktakar ehf., sem er félag sem verktakafyrirtæki í heimahéraðinu standa að.

Brúin sem áður var getið um er 30 metra löng, verktaki var Mikael ehf. frá Höfn í Hornafirði. Vinna við brúarsmíðina hófst haustið 2006 og lauk um miðjan júlímánuð.

Með tilkomu vegarins sést fyrir endann á miklu baráttumáli sveitarstjórnarmanna í Skagafirði, en við þetta styttist leiðin milli Sauðárkróks og Blönduóss um 30 kílómetra.