22. september 2007 | Íþróttir | 205 orð

Valur í stað Íþróttafélags stúdenta í kvennakörfu

ÍÞRÓTTAFÉLAG stúdenta, eina félagið sem hefur átt lið í efstu deild kvenna í körfuknattleik allt frá byrjun, hefur dregið lið sitt úr keppni og verður ekki með á Íslandsmótinu í vetur.
ÍÞRÓTTAFÉLAG stúdenta, eina félagið sem hefur átt lið í efstu deild kvenna í körfuknattleik allt frá byrjun, hefur dregið lið sitt úr keppni og verður ekki með á Íslandsmótinu í vetur. Flestir leikmanna ÍS eru gengnir til liðs við Val, sem ætlaði að senda lið í 1. deildina í vetur og vera með á Íslandsmótinu í fyrsta skipti í ellefu ár, en hefur nú þegið boð KKÍ um að taka sæti í úrvalsdeildinni.

Deildin verður þó ekki fullskipuð, með átta liðum eins og fyrirhugað var, þar sem Breiðablik hætti við þátttöku í deildinni fyrr í sumar og verður í staðinn með lið í 1. deild.

Liðin sjö sem leika í úrvalsdeild kvenna í vetur eru því Haukar, Keflavík, Grindavík, Hamar, Fjölnir, KR og Valur.

ÍS hefur verið með á Íslandsmóti kvenna allt frá byrjun, árið 1981, en þá voru aðeins þrjú lið með, ÍS, KR og ÍR. Stúdínur, eins og lið þeirra var jafnan kallað, urðu Íslandsmeistarar 1984 og 1991 og bikarmeistarar 1991 og 2003. Þá urðu þær deildarmeistarar árið 2002 en töpuðu síðan í úrslitum Íslandsmótsins og höfnuðu í öðru sæti, rétt eins og árið 2004.

Síðasta vetur höfnuðu Stúdínur í fjórða sæti af sex liðum og töpuðu fyrir Haukum í undanúrslitunum um Íslandsmeistaratitilinn.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.