Gott kvöld Í leikritinu koma fram margir óboðnir og furðulegir gestir sem strákurinn og bangsinn þurfa að taka á móti.
Gott kvöld Í leikritinu koma fram margir óboðnir og furðulegir gestir sem strákurinn og bangsinn þurfa að taka á móti.
Eftir Ingveldi Geirsdóttur ingveldur@mbl.is NÝTT barnaleikrit, Gott kvöld , eftir barnabókahöfundinn Áslaugu Jónsdóttur, verður frumsýnt í Kúlunni í Þjóðleikhúsinu á morgun.

Eftir Ingveldi Geirsdóttur

ingveldur@mbl.is

NÝTT barnaleikrit, Gott kvöld , eftir barnabókahöfundinn Áslaugu Jónsdóttur, verður frumsýnt í Kúlunni í Þjóðleikhúsinu á morgun.

Áslaug byggir leikritið á samnefndri bók sinni sem kom út fyrir tveimur árum, en hún hefur unnið verkið að nýju fyrir leikhús og meðal annars samið nýja söngtexta fyrir sýninguna.

"Þórhallur Sigurðsson, leikstjóri sýningarinnar, leitaði til mín síðastliðið haust og spurði hvort ég sæi ekki möguleika á því að gera barnaleikrit upp úr einhverjum af bókum mínum og Gott kvöld varð fyrir valinu," segir Áslaug spurð hvers vegna hún hafi litið upp úr bókunum og inn í leikhúsið.

"Fyrir mér hefur þetta verið spennandi og skemmtilegt verkefni enda dálítið ólíkt að raða persónum inn á leiksvið eða inn í myndabók.

Ég sá ekki fyrir mér þegar ég skrifaði bókina að hún gæti orðið að leiksýningu. Þegar ég skrifa sé ég stundum fyrir mér lifandi senur en það var mjög gott að fá pressuna frá Þórhalli til að láta verða af því að prófa leikhúsformið. Það er síðan annarra að dæma hvort þetta gengur upp hjá mér. Uppfærslan er auðvitað eitt stórt hópvinnuverkefni og þar á ég aðeins hlut að máli."

Einn í myrkrinu

Í Góðu kvöldi segir frá litlum strák sem þarf að vera einn heima í smástund þegar pabbi skreppur frá til að sækja mömmu.

"Við vitum auðvitað að það reynir á kjark og þor að vera aleinn heima en stráksi hefur náttúrlega bangsa sér til halds og trausts. En það er hægara sagt en gert að hughreysta bangsa sem óttast óboðna gesti eins og Hrekkjusvínið, Hræðslupúkann, Tímaþjófinn, Frekjuhundinn og ótal fleiri furðuskepnur. Það kemur í hlut stráksins að sjá um að taka á móti þessum skrýtnu verum sem birtast í hugarheimi þeirra tveggja, bangsa og stráksins, og hann býður þeim inn í stofu.

Verkið fjallar um óttann og það sem kemur upp þegar maður er aleinn og það er myrkur úti. Þetta er heimur sem öll börn þekkja, ég hef ekki enn hitt þá mannveru sem hefur verið fullkomlega óhrædd í lífinu og ekki velt fyrir sér sem börn hvað sé undir rúminu," segir Áslaug og tekur fram að verkið sé ekki alveg fyrir yngstu börnin því þau sem eru ekki alveg örugg geti orðið smáskelkuð.

"Þetta er samt mjög fjörug sýning, það er mikið sungið og dansað og gengur á ýmsu svo engum ætti að leiðast. Foreldrar hafa vonandi gaman af henni líka, um leið og þeir rifja upp þá tíma þegar ímyndunaraflið var ómengað."

Allir í leikhús

Þrír leikarar koma fram í sýningunni, Vignir Rafn Valþórsson fer með hlutverk stráksins, Þórunn Erna Clausen leikur bangsann og mömmuna og Baldur Trausti Hreinsson fer í hin ýmsu gervi auk þess að leika pabbann. Helga Arnalds gerir brúður af ýmsu tagi fyrir sýninguna. Söngtextar eru eftir Áslaugu og Sigurður Bjóla samdi nýja tónlist við þá. "Sigurður Bjóla var snillingur að semja lögin við vísurnar og gera þær áheyrilegar. Við vonum að tónlistin í verkinu komi út á geisladisk en núna má heyra tvö lög á netinu á síðunni leikhúsid.blog.is," segir Áslaug sem vonast til að allir foreldrar fari með börnin sín í leikhús enda leikhúsheimurinn upplifun fyrir börnin sem þau muna eftir alla tíð.

Kúlan í Þjóðleikhúsinu er tileinkuð barnaleiksýningum og er Gott kvöld fyrsta sýningin sem er frumsýnd þar í haust.

Gott kvöld

Höfundur: Áslaug Jónsdóttir.

Leikstjóri: Þórhallur Sigurðsson.

Leikmynd, búningar og brúðugerð: Helga Arnalds.

Tónlist: Sigurður Bjóla.

Lýsing: Páll Ragnarsson.

Leikarar: Baldur Trausti Hreinsson, Vignir Rafn Valþórsson og Þórunn Erna Clausen.