26. október 2007 | Innlendar fréttir | 1646 orð | 3 myndir

Mikill fengur að því að fá gripina heim frá Svíþjóð

Þjóðminjasafnið Margrét Hallgrímsdóttir þjóðminjavörður segir að Þjóðminjasafnið verði með sýningu á gripunum sem koma heim frá Svíþjóð í Bogasalnum. Sýningin verður opnuð 6. júní á þjóðhátíðardegi Svía.
Þjóðminjasafnið Margrét Hallgrímsdóttir þjóðminjavörður segir að Þjóðminjasafnið verði með sýningu á gripunum sem koma heim frá Svíþjóð í Bogasalnum. Sýningin verður opnuð 6. júní á þjóðhátíðardegi Svía. — Morgunblaðið/Ómar
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Í næsta mánuði koma um 800 forngripir til Íslands sem hafa verið í Svíþjóð síðan á síðari hluta 19. aldar. Egill Ólafsson ræddi við Margréti Hallgrímsdóttur þjóðminjavörð um munina.
Margrét Hallgrímsdóttir þjóðminjavörður segir að það sé mikill fengur að því að fá heim 800 íslenska forngripi frá Svíþjóð, en munirnir koma heim í næsta mánuði. Gripirnir hafa verið í Nordiska Museet í Svíþjóð frá því á seinni hluta 19. aldar. Verið er að pakka munum niður og ganga frá þeim til flutnings. Margrét segir að meðal munanna séu hlutir sem séu ekki til hjá okkur.

Munirnir verða til sýnis á sýningu sem opnuð verður í Bogasalnum í Þjóðminjasafninu á þjóðhátíðardegi Svíþjóðar, 6. júní á næsta ári.

"Þetta eru 800 munir sem margir hverjir eru mjög merkir. Þeir hafa verið í geymslum úti á landi í Svíþjóð og hafa ekki verið rannsakaðir neitt að ráði," segir Margrét.

Fluttir til Svíþjóðar á 19. öld

"Mununum var safnað á 19. öld af Arthur Feedersen sem fór um Ísland og safnaði munum. Einnig sendi séra Helgi Sigurðsson, prestur á Melum í Melasveit, muni til Svíþjóðar, en hann átti sinn þátt í að Þjóðminjasafnið var stofnað. Munum var safnað til að vera hluti af norrænu safni.

Matthías Þórðarson þjóðminjavörður skráði munina árið 1922 og helstu fræðimenn á Þjóðminjasafninu hafa því vitað af þessu safni og haft þetta með í sínum rannsóknum, en að öðru leyti er þetta mjög lítið rannsakað efni. Það verður mikill fengur að því að fá þetta til okkar og við gerum okkur vonir um að þetta opni leið til nýrrar þekkingarsköpunar."

Heimflutningur munanna frá Svíþjóð er búinn að eiga sér talsverðan aðdraganda.

"Málið fór af stað þegar ég og forstöðumaður danska þjóðminjasafnsins, Carsten Larsen, ræddum um það árið 2002 að nauðsynlegt væri að stofna samráðshóp safnstjóra Norðurlandanna til að fara yfir ýmis mál. Á fyrsta fundi ræddum við þetta, ég og Christina Mattsson, forstöðumaður Nordiska Museet. Hún var mjög opin fyrir því að afhenda þessa muni til framtíðarvarðveislu hér á landi. Munirnir verða áfram í eigu norræna safnsins en koma hingað til framtíðarvarðveislu. Jafnframt ræddum við um að við myndum í sameiningu velja 5-10% af munum sem yrðu áfram í Svíþjóð. Fyrirhugað er að setja upp sýningu á þeim í Svíþjóð.

Í svona málum gengur ekki að horfa á sína muni sem eyland heldur verður að sjá þetta í stærra samhengi. Mér finnst það sjálfsagt og eðlilegt mál að það verði eftir munir í Svíþjóð og að Svíar geri menningararfi okkar skil."

Sýning opnuð í vor

Munirnir sem nú eru á heimleið eru af ýmsu tagi. "Þarna er m.a. búningaskart og búningar, sem eru um margt merkilegir. Þarna eru útskornir hlutir eins og kistlar, rúmfjalir og trafakefli. Svo er þarna ýmislegt sem varðar hestinn, t.d. söðlar, söðulsáklæði og koparhlutir sem tengjast reiðtygjum. Þetta er því gott úrval alþýðlegra hluta sem tengjast 18. og 19. öld. Sumt gæti þó verið eldra eins og t.d. útskurðarmunirnir.

Strax og þessir munir koma förum að undirbúa sýningu á hlutunum og þessari sögu. Þar verður útskýrt hvers vegna þessir munir fóru til Svíþjóðar á sínum tíma og fjallað almennt um hvers vegna hlutir voru fluttir á milli landa. Eins verður varpað fram spurningum um hvers vegna eigi að skila þeim og hvers vegna eigi ekki að skila þeim. Þetta eru allt áhugaverðar spurningar en um leið viðkvæmar. Þær tengjast íslenskum munum sem enn eru í Danmörku.

Þó að ekki sé á döfinni að flytja hingað íslensku gripina frá Danmörku er fullur áhugi á samstarfi af beggja hálfu. Danir hafa t.d. lánað okkur merka muni á sýningu í Þjóðminjasafninu og þar hafa engin vandamál komið upp. Það er einnig mikill áhugi á að fara af stað með sameiginleg rannsóknarverkefni og sýningar, m.a. til að varpa nýju ljósi á þessa sögu."

Margrét sagði að Nordiska Museet hefði sýnt mjög nútímalegt viðhorf með því að samþykkja að flytja munina til Íslands. Þetta væri í samræmi við hugsun alþjóðlegra samtaka safna (ICOM), að söfn eigi að stuðla að aukinni þekkingarsköpun og betra aðgengi að menningarverðmætum. Hún sagði að heimkoma munanna væri ekki aðeins fengur fyrir íslenska fræðimenn heldur vissi hún til þess að hönnuðir og listamenn væru spenntir að fá að skoða búninga sem þarna væru.

Góðar geymslur forsenda heimflutnings

Samþykkt var í vor að ríkissjóður legði 1,5 milljónir króna til að kosta heimflutning munanna frá Svíþjóð. Margrét sagði að forsenda þess að hægt hefði verið að taka við mununum hefði verið að hér væru góðar geymslur og nægt geymslurými. Hún sagði að þó að geymslur Þjóðminjasafnsins væru fullar væru gripirnir frá Svíþjóð ekki fyrirferðarmiklir. Munirnir kæmu líka heim á réttum tíma því að í fjárlagafrumvarpinu væri gert ráð fyrir 70 milljóna króna fjárveitingu til þess að móta framtíðarsýn og lausnir í geymsluvanda þjóðmenningarstofnana. "Með þessu er menntamálaráðherra að stíga mjög stórt og mikilvægt skref. Það er verið að fara yfir geymsluþörf Listasafns Íslands, Þjóðminjasafnsins, Landsbókasafns og Þjóðskjalasafns og skoða þetta heildstætt. Það er auðvitað eina vitið í stað þess að hver stofnun sé að takast á við geymsluleysi. Mér finnst þess vegna vera aukinn skilningur á nauðsyn þess að tryggja góða varðveislu á ómetanlegum menningarverðmætum þjóðarinnar.

Það er ljóst að eitt af skilyrðunum sem söfn setja almennt við afhendingu og skil á munum er að það sé 100% aðstaða til að geyma þá og varðveita hér á landi."

Margrét sagði að flutningur gripanna heim frá Svíþjóð rímaði ágætlega við stefnu Þjóðminjasafnsins að lána muni frá safninu til safna á landsbyggðinni sem væru í stakk búin til að taka við þeim. Þannig hefðu munir verið fluttir til Tækniminjasafnsins á Seyðisfirði. Bílar hefðu farið á safnið í Skógum. Landbúnaðarvélar væru lánaðar til Landbúnaðarsafnsins á Hvanneyri og bátar eru víða um landið. Sömuleiðis er hús í húsasafni Þjóðminjasafnsins nýtt í þágu safnastarfs á landsbyggðinni.. Einnig hefði verið rætt um að lána meginþorra bátasafnsins til Vestfjarða, en forsenda þess væri að komið yrði upp geymsluaðstöðu fyrir þá í landsfjórðungnum. Þetta styrkti safnastarf á landsbyggðinni, ferðaþjónustu og atvinnulíf.

Sýning um rannsóknir Kristnihátíðarsjóðs

Í síðustu viku var opnuð sýningin "Á efsta degi" í Bogasal Þjóðminjasafnsins, en þar eru Bjarnastaðahlíðarfjalirnar sýndar, en þær eru taldar vera úr Hóladómkirkju á 12. öld. Fjalirnar eru taldar meðal merkustu minja í vörslu Þjóðminjasafnsins, en talið er að aðeins leifar af tveimur býsönskum dómsdagsmyndum í tré hafi varðveist í heiminum. Sagan af því hvernig þessar fjalir björguðust er einnig merkileg, en hún sýnir að stundum varð fátækt landsmanna og nýtni til þess að gamlir munir varðveittust.

Fleiri sýningar eru í undirbúningi í Þjóðminjasafninu. Í undirbúningi er sýning um árangur af Kristnihátíðarsjóðsverkunum. Gerð verður grein fyrir fornleifarannsóknum sem ráðist var í fyrir tilstuðlan sjóðsins og einnig verða til sýnis munir sem fundust. Sérstök fjárveiting fékkst úr ríkissjóði til að setja upp þessa sýningu. Áformað er að sú sýning fari að einhverju leyti út á land og munirnir verði sýndir í sínum heimahéruðum í samvinnu við söfnin og aðila þar.

Einnig er verið að undirbúa sýningu á íslenskum drykkjarhornum, sem sýnd voru í Brussel í febrúar sl. Íslensku drykkjarhornin eru einstakar minjar í alþjóðlegu samhengi. Fá íslensk drykkjarhorn hafa varðveist en eitt slíkt horn er á norræna safninu í Svíþjóð og kemur heim í næsta mánuði.

Margrét segir að í framhaldi af heimsókn forsætisráðherra til Írlands hafi komið til tals að setja upp sýningu um íslensk-írsk-menningartengsl. Það hafi margir haft áhuga á þessum tengslum, en jafnframt hafi það verið dálítið tabú að tala um þessi tengsl á fyrstu öldum þar sem fátt er varðveitt af minjum um slík tengsl.

Á næsta ári verður einnig opnuð sýning sem er afrakstur rannsókna Æsu Sigurjónsdóttur, en hún hefur verið að rannsaka búningasögu.

Hvers vegna gaf Verrall 70 milljónir?

HVERS vegna arfleiddi Englendingurinn Philip Verrall Þjóðminjasafn Íslands að 70 milljónum króna? Þessari spurningu hafa starfsmenn safnsins og gestir velt fyrir sér frá því að vitneskja barst um að Verrall hefði arfleitt safnið. Eina svarið sem blasir við er að Verrall hafi hrifist af safninu og viljað taka þátt í uppbyggingu þess.

Verrall fæddist í Kent á Englandi 1929 og starfaði lengst af sem endurskoðandi í Eastbourne. Talið er að hann hafi komið fyrst til Íslands í lok sjöunda áratugarins og ferðaðist þá með strandskipum milli kaupstaða landsins og vann fyrir farinu um borð. Hann kom upp frá því nánast á hverju ári til landsins og lærði með tímanum að tala og skrifa íslensku. Á sínum yngri árum var Verrall trúlofaður konu sem lést í bílslysi nokkrum dögum áður en þau höfðu ætlað að ganga í hjónaband. Hann kvæntist aldrei og eignaðist ekki börn.

Verrall var hæglátur maður og einfari. Hann var mjög ljós yfirlitum og þjáðist af ofnæmi. Flest bendir til að hann hafi þolað illa heitt loftslag og líklega hefur hann þess vegna farið að leggja leið sína til Íslands á sumrin. Hann bjó alla tíð í fjölbýlishúsi, en þegar hann kom til Íslands leyfði hann sér þann munað að búa á Hótel Holti. Verrall gerði erfðaskrá árið 2002 og arfleiddi þá Þjóðminjasafnið að stórum hluta eigna sinna.

Augljóst er að Verrall hreifst af Þjóðminjasafninu, en enginn starfsmanna safnsins minnist þess þó að hann hafi tjáð sig við þá um safnið. Reyndar hefur safnið ekki fengið mynd af honum og það kann því að vera að einhver muni eftir honum ef safninu tekst að útvega mynd af honum. Verrall kom til Íslands árið 2005 og skoðaði þá Þjóðminjasafnið eftir að það var opnað á ný. Margrét Hallgrímsdóttir þjóðminjavörður segir að það hafi glatt sig að heyra af því að Verrall hafi fengið tækifæri til að sjá nýjar sýningar safnsins í endurnýjuðum húsakynnum.

Stofnaður hefur verið sérstakur minningarsjóður um þá fjármuni sem Verrall lét Þjóðminjasafninu eftir. Margrét segir ómetanlegt fyrir safnið að eiga slíkan sjóð. Þetta geri safninu kleift að setja upp nýjar metnaðarfullar sýningar á næstu 5-10 árum. Einnig sé sjóðnum ætlað að taka þátt í að fjármagna útgáfu á vönduðum ritum, þ.e. vinna verkefni sem annars er ekki fjárhagslegt svigrúm í. Meðal rita sem eru í undirbúningi er bók um refilsaum eftir Elsu Guðjónsson og bók um silfursmíði eftir Þór Magnússon fyrrverandi þjóðminjavörð og ensk þýðing á grunnbók safnsins Hlutavelta tímans – Menningararfur á Þjóðminjasafni, sem kom út 2004.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.