Skáldjöfur Davíð líkaði ekki herlegheitin í Sovétríkjunum og var aldrei fyrirgefið að vilja ekki breiða út fagnaðarerindið, segir Friðrik G. Olgeirsson sem var að senda frá sér ævisögu skáldsins frá Fagraskógi.
Skáldjöfur Davíð líkaði ekki herlegheitin í Sovétríkjunum og var aldrei fyrirgefið að vilja ekki breiða út fagnaðarerindið, segir Friðrik G. Olgeirsson sem var að senda frá sér ævisögu skáldsins frá Fagraskógi. — Morgunblaðið/Skapti Hallgrímsson
„FÓLK gerir sér sennilega ekki grein fyrir því í dag, en Davíð var langvinsælasti rithöfundurinn á Íslandi á fimmta og sjötta áratugnum.

„FÓLK gerir sér sennilega ekki grein fyrir því í dag, en Davíð var langvinsælasti rithöfundurinn á Íslandi á fimmta og sjötta áratugnum. Bækur hans voru seldar miklu, miklu meira en nokkurra annarra manna; jafnvel Halldór Laxness komst ekki í hálfkvisti við Davíð. Bækur Davíðs seldust meira að segja í stærra upplagi en gerðist á Norðurlöndunum og jafnvel víðar,“ sagði Friðrik G. Olgeirsson, sagnfræðingur og rithöfundur, í samtali við Morgunblaðið í Davíðshúsi á Akureyri í gær. Hann kynnti þá nýútkomna ævisögu sína um skáldið frá Fagraskógi. Bókin ber nafnið Snert hörpu mína, eftir upphafsorðum þekkts ljóðs skáldsins.

Bókin hefur verið nokkur ár í smíðum. „Það er langt síðan ég fékk áhuga á Davíð og hugmyndin að skrifa ævisögu hans er reyndar eldgömul. Það gengu alltaf sögur um að verið væri að skrifa ævisögu hans og það varð til þess að ég tók aldrei af skarið, en áhugi minn var orðinn svo mikill fyrir nokkrum árum að ég lét slag standa og hófst handa,“ sagði Friðrik í gær.

Höfundurinn segir gífurlega heimildavinnu að baki. „Mér fannst ég þurfa að fara í gegnum allt; prentuð gögn og óprentuð og var alltaf hræddur um að eitthvað vantaði. Ég var einn á báti – fjölskylda skáldsins bað mig ekki um að skrifa þessa bók og ég fékk hana raunar ekki til samvinnu við mig fyrr en á seinni stigum.“

Ættingjar Davíðs voru Friðriki innan handar og sagði hann að Þóra Stefánsdóttir, bróðurdóttir skáldsins, hefði t.d. lesið handritið og gefið sér góð ráð. „Mér fannst mjög ánægjulegt að hafa þau með og lagði mikið upp úr því. Ég hef engan áhuga á að lenda í sömu aðstöðu og sumir ævisagnaritarar að skrifa krassandi verk og fá svo alla afkomendur upp á móti sér.“

En skyldi eitthvað hafa komið Friðriki á óvart, þegar hann kynnti sér sögu Davíðs?

„Það var í raun margt. Gamla sögnin var gjarnan sú að Davíð hefði gerst bókavörður á Akureyri og hér hefði hann setið nánast alla ævi og afgreitt bækur í Amtsbókasafninu og ort ljóð. En þegar maður skoðar ævi hans kemur allt annað í ljós. Davíð var framan af ævi mikill heimsborgari. Hann var fjörmaður; þeir höfðu gaman af því að fá sér í glas, Davíð og vinir hans. Það fóru meira að segja dálitlar sögu af því.“

Friðrik nefnir að Davíð hafi gert víðreist. „Hann ferðaðist um Norðurlönd, Bretlandseyjar og víðar. Hann var meira að segja fenginn í Sovétreisu. Framan af var Davíð dálítið róttækur og 1928 fékk Einar Olgeirsson hann til að koma í sendinefnd til Sovétríkjanna til þess að sjá herlegheitin. En það virkaði alveg öfugt; það sem Davíð sá líkaði honum alls ekki. Eftir þetta varð hann hægrisinnaðri í skoðunum, meira fór að bera á trúarlegum áherslum í kveðskap hans og þetta var honum ekki fyrirgefið. Hann lenti dálítið úti á kanti því margir þessir róttæku menn sem höfðu bundið svo miklar vonir við að fá hann til þess að boða fagnaðarerindið gátu ekki fyrirgefið honum; þeir urðu pirraðir og gerðu lítið úr kveðskap hans, en viðurkenndu svo allir eftir andlát Davíðs að það hefði verið óréttmætt.“

Friðrik nefnir einnig, sem hann komst að við vinnslu bókarinnar, hugmyndir um að Davíð hafi hugsanlega komið til greina sem nóbelshöfundur. Tekur fram að með því sé hann ekki að segja að nafn Davíðs hafi nokkru sinni komið upp hjá nóbelsnefndinni í Svíþjóð en sænsk kona, lektor við háskóla þar í landi, hafi viljað koma skáldinu eins vel á framfæri í Svíþjóð og nokkur kostur væri, með verðlaunin í huga. Stjórnamálaskoðanir Davíðs hafi hins vegar varla hjálpað til í því sambandi. „Þessi kona sagði að menn þyrftu ekki að vera heimsfrægir til þess að verða nóbelshöfundar heldur ættu verðlaunin að gera þá heimsfræga. Viðkomandi þyrfti annars vegar að vera húmanisti og hins vegar að hafa haft mikil áhrif í eigin landi.“ Davíð uppfyllti þessi skilyrði, segir Friðrik, „en hann hefði þurft öflugra bakland fólks í menningarheiminum hér heima en hann hafði.“

Í hnotskurn
» Davíð Stefánsson fæddist í Fagraskógi við Eyjafjörð 21. janúar 1895. Hann bjó á Akureyri frá 1925 og lést þar í mars 1964.
» Fyrsta ljóðabók Davíðs, Svartar fjaðrir, kom út þegar hann var 24 ára.
» Á sextugsafmæli Davíðs 1955 var hann gerður að heiðursborgara Akureyrar.
» Hús Davíðs á Bjarkarstíg 6 var ánafnað Akureyrarbæ eftir lát hans og þar er nú safn til minningar um skáldið.