[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
*Sjö verðlaunatillögur í hugmyndasamkeppni um framtíðarskipulag Vatnsmýrar kynntar *Vinningstillagan er kunnuglegur en um leið sérstæður borgarhluti

Sýn þriggja Skota á skipulag í Vatnsmýri þykir raunhæf og „íslensk“. Önundur Páll Ragnarsson fylgdist með verðlaunaafhendingu í Listasafni Reykjavíkur.

Niðurstöður hugmyndasamkeppni um skipulag Vatnsmýrarinnar voru kynntar í Listasafni Reykjavíkur í gær. Keppnin hefur staðið síðan í mars á síðasta ári, enda mikil vinna fólgin í skipulagi fyrir svo stórt svæði. Keppendur höfðu aðgang að gögnum um skipulagsforsendur og skýrslum um samráð við borgarbúa og hagsmunaaðila um möguleika sem Vatnsmýrin býður uppá. Í forsendunum var ekki tekin afstaða til þess hvort flugvöllurinn skyldi verða áfram á svæðinu, heldur kallað eftir hugmyndum um þróunarmöguleika til framtíðar.

Veittar voru viðurkenningar til sjö útvalinna hópa arkitekta og verkfræðinga. Alls bárust keppninni 136 tillögur frá öllum heimshornum. Þar af voru reyndar aðeins fimm íslenskar, en að sögn voru þær allar mjög vel unnar. Sjö tillögur voru verðlaunaðar sérstaklega. Fjórar fengu 15.000 evra verðlaunafé, tvær 40.000 evrur og ein 60.000 evrur eða tæplega 5,9 milljónir króna.

Skosk verðlaunatillaga

Það voru þeir Graeme Massie, Stuart Dickson og Alan Keane frá Edinborg í Skotlandi sem urðu hlutskarpastir með verkefnið „Gagnkvæmni: Mótun höfuðborgar.“ Massie þessi stofnaði arkitektastofu sína árið 2004 og ætti ekki að vera Íslendingum alls kostar ókunnugur. Hann vann einnig hugmyndasamkeppnina „Akureyri í öndvegi“ árið 2005, um breytt miðbæjarskipulag þar nyrðra.

Meginhugmyndin er að flugvöllurinn víki, við taki þétt en lágreist byggð í austanverðri Vatnsmýri og Hljómskálagarðurinn teygi sig órofinn til suðurs langleiðina að Fossvogi. Hringbraut verði sett í stokk undir garðinn. Gert er ráð fyrir nýrri og stærri Reykjavíkurtjörn, svipaðri þeirri upprunalegu að formi, með brú yfir sig miðja, ekki ólíkt brúnni á Skothúsvegi. Tjörnin verður samkvæmt tillögunum umkringd fjölda nýrra bygginga og myndar miðpunkt svæðisins.

Barónsstígur og Snorrabraut verða framlengdar frá Þingholtum að Fossvogi og á ræmunni milli þeirra verða helstu íbúðasvæði, ásamt skrifstofuhúsnæði, þyrpingum opinberra bygginga og skólahúsnæði. Skáhöll lína, framlenging á Sóleyjargötu, sker þessa ræmu og tengir hana þannig beint við miðbæinn. Með línunni væri form norður-suðurflugbrautarinnar einnig varðveitt, þó flugvöllurinn væri horfinn. Stefna hinna flugbrautanna væri einnig varðveitt í gatnakerfinu og helstu byggingar frá stríðsárunum og í tengslum við flugvöllinn endurgerðar og varðveittar. Til að mynda er þar rætt um hinn upprunalega flugturn. Hann muni standa inni í garði og fá nýtt hlutverk, t.d. sem kaffihús.

Einnig er gert ráð fyrir íbúðasvæðum utan í Öskjuhlíð og norðan Skerjafjarðar og stækkuðu yfirráðasvæði Háskóla Íslands sem nær að hinni nýju tjörn.

Blönduð dómnefnd

Dómnefnd var skipuð bæði borgarfulltrúum og fagmönnum á sviði skipulags og uppbyggingar. Í nefndinni sátu þau Dagur B. Eggertsson, formaður, Hanna Birna Kristjánsdóttir, sem nú er einnig formaður skipulagsráðs, Gísli Marteinn Baldursson, Joan Busquets, prófessor í borgarskipulagi við Harvard háskóla, Steve Christer, arkitekt í Reykjavík, Kees Kaan, arkitekt í Rotterdam og Hildebrandt Machleidt, arkitekt í Berlín.

Í umsögn þeirra um tillögu Massies sagði að hún hefði burði til að vera útgangspunktur framtíðarþróunar í Vatnsmýri. Að auki mætti hún mjög vel þeirri ósk dómnefndar að hægt væri að áfangaskipta uppbyggingu á svæðinu.

Helst var það gagnrýnt í umsögn dómnefndar að borgarmyndin væri dregin grófum línum á eystra íbúðasvæðinu og við ströndina, auk þess sem umferðarvandi væri ekki að fullu leystur.

Starfshópur um skipulagið

Degi B. Eggertssyni varð í ræðu sinni tíðrætt um það einstaka tækifæri til að skipuleggja land í nágrenni miðbæjar í höfuðborg, sem í Vatnsmýrinni væri falið. „Við þurfum að skilja tækifærin í Vatnsmýrinni. Ákvörðun um hana gæti ráðið úrslitum um þróun Reykjavíkurborgar,“ sagði hann. Þá tilkynnti Dagur nýjan starfshóp á vegum borgarráðs sem settur verður saman á næstunni. Honum verður falið það hlutverk að halda utan um skipulagsvinnu í kringum Vatnsmýrina, enda er þar að mörgu að huga.

Samhljómur hjá borgarfulltrúum í minni- og meirihluta

Auðséð var að verk þeirra Massie, Dickson og Keane féll dómnefnd afar vel í geð. Hanna Birna Kristjánsdóttir, formaður skipulagsráðs, sagði framlag þeirra félaga geyma öfluga sýn fyrir alla Reykvíkinga. Það væri raunhæf tillaga að alvöru borgarskipulagi. Í samtali við Morgunblaðið sagði Dagur sig mest hafa undrað að tillagan væri ekki íslensk. Hún væri í miklum samhljómi við skipulagssögu Reykjavíkur og mjög íslensk á allan hátt. Með henni væri hægt að fullgera miðborgina. „Þetta er áreynslulaust framhald af þeirri Reykjavík sem við þekkjum nú þegar,“ sagði hann.

Ólafur F. Magnússon, borgarstjóri í Reykjavík, var viðstaddur verðlaunaafhendinguna. Hann gerði góðan róm að hugmyndavinnunni sem var kynnt í gær. En hvernig fannst borgarstjóra verðlaunatillagan? Er sú framtíðarsýn sem þar er kynnt honum að skapi? „Ég ætla að skoða þessar hugmyndir betur, enda hef ég ekki séð afrakstur þessarar vinnu fyrr en nú. Það er svo gríðarlegt magn af frjóum og góðum hugmyndum sett fram í þessari vinnu að ég ætla að taka mér góðan tíma í að kynna mér þær,“ sagði Ólafur.

Flugvöllur í breyttri mynd ennþá líklegasti kosturinn

Verðlaunatillagan byggist á þeirri forsendu að flugvöllurinn hverfi úr Vatnsmýrinni. Stangast það ekki á við framtíðarsýn Ólafs? „Sú vinna sem þarna er að baki mun nýtast í framtíðarskipulagi hvort sem flugvöllurinn fer eða ekki. Um það er fólk almennt sammála, a.m.k. formaður dómnefndar, Dagur B. Eggertsson, og forveri hans, Hanna Birna Kristjánsdóttir. Það er fráleitt annað en að nýta þessa vinnu eins og hægt er við framtíðarskipulag, sem skýrist betur þegar niðurstaða flugvallarmálsins liggur fyrir. Hún gerir það hins vegar ekki.

Núna eru í gangi rannsóknir sem munu skera úr um hvort hægt verður að finna betra flugvallarstæði fyrir Reykjavík en Vatnsmýrina. Ég hef ekki séð koma fram nein ný rök fyrir því að það finnist betra eða öruggara flugvallarstæði en Vatnsmýrin,“ sagði hann.

Borgarstjóranum þótti síður en svo óþægilegt að sjá fulltrúa tveggja stærstu flokkanna í borginni ná svo miklum samhljómi í þessu máli „Ég virði bara skoðanir annarra og framtíðarsýn. Það verður svo að koma í ljós hvort hún er framkvæmanleg og möguleg. Það ræðst af niðurstöðum rannsókna á flugvallarstæðum, en ekki á pólitískum ákvörðunum einum saman.

Ákvörðunin um mögulegan flutning flugvallarins hefur ekki verið tekin og verður ekki tekin á næstunni. Aðalatriðið er að fagleg vinnubrögð og almannahagsmunir séu leiðarljós kjörinna fulltrúa. En þegar svona vel og faglega er unnið að hlutunum treysti ég því að við fáum að lokum bestu niðurstöðuna fyrir borgarbúa og almenning allan. Ég tel á þessu stigi málsins líklegast að hún verði sú að flugvöllurinn verði áfram í Vatnsmýri í breyttri mynd,“ sagði hann.

Ólafur kvað gott að líta heildrænt á Vatnsmýrina í skipulagsmálum, ekki síst í útjöðrum hennar, þar sem háskóla- og vísindaþorp sé þegar að rísa. „Það er bara til bóta.“

Mýrin í víðu samhengi og Eyjalausn

VERÐLAUNATILLÖGURNAR sjö áttu það sammerkt að vera vel unnar, enda fremstar á meðal 136 innsendra úrlausna. Þær tillögur sem hlutu 15.000 evru verðlaun, eða tæplega 1,5 milljónir króna, voru frá:

Manuel Lodi á Ítalíu, sem setti fram hugmyndir um skiptingu Vatnsmýrar í stóra hluta með mismunandi aðskilin hlutverk. Guðjóni Þór Erlendssyni í London, sem setti fram sterka og heildræna áætlun með nákvæmum reglum um mynstur og formgerð húsa til að tryggja samræmi. Rose Bonner frá Írlandi, sem hannaði net íbúðarbyggðar tengt aðliggjandi svæðum og gatnakerfinu. Belindu Lea Kerry frá Ástralíu, sem sneiddi hjá formum flugbrautanna í tillögum sínum en tók þess í stað rúmmyndir úr nágrannahverfunum. Þetta var talið skapa notalegt og kunnuglegt andrúmsloft í reykvísku samhengi.

2.-3. sæti hollenskt og franskt

Tvær tillögur hlutu 40.000 evrur í verðlaun, eða sem nemur um 3,9 milljónum hvor.

Annars vegar voru það Johanna Irander og Nuno Fontarra frá Hollandi. Þau lögðu til skýra aðgreiningu á opinberum svæðum og einkasvæðum og notuðu mismunandi mynstur byggðareininga til að fá hana fram. Dómnefnd veitti því eftirtekt að þau skoðuðu Vatnsmýri ekki einungis í samspili við borgina heldur einnig í samhengi við norðanverðan Reykjanesskagann, allt frá Keflavík til Esjuróta. Þó þótti hin ráðgerða móða, sem jók á töframátt tillögunnar, óraunhæf.

Hins vegar var það tillaga Jean Pierre Pranlas-Descours frá Frakklandi. Hún byggðist skv. umsögn dómnefndar á skýrri og sveigjanlegri eyjalausn. Eyjunum var ætlað að endurspegla kaflaskiptan vöxt höfuðborgarsvæðisins um leið og þær varðveittu minninguna um flugvöllinn. Þar var gert ráð fyrir grænu belti allt frá miðbæ að Fossvogi og þar með opnu útsýni úr miðju Vatnsmýrar til hafs, en einnig járnbrautarsamgöngum.