Selir Hringanórinn er fremur sjaldgæfur gestur hér við land.
Selir Hringanórinn er fremur sjaldgæfur gestur hér við land. — Ljósmynd/Sverrir Karlsson
HRINGANÓRI hefur gert sig heimakominn í höfninni á Grundarfirði og virðist una hag sínum þar. Hann gerir nokkrar tilraunir til að komast upp á bryggjuna, en hefur ekki haft þar erindi sem erfiði.

HRINGANÓRI hefur gert sig heimakominn í höfninni á Grundarfirði og virðist una hag sínum þar. Hann gerir nokkrar tilraunir til að komast upp á bryggjuna, en hefur ekki haft þar erindi sem erfiði.

Á heimasíðu Selaseturs Íslands er sagt á eftirfarandi hátt frá hringanóranum: „Hringanórinn er einkennisdýr heimskautaíssins á norðurslóðum og hafa frumbyggjar þar treyst mjög á hann til viðurværis í gegnum aldirnar. Hefur hann verið nýttur til matar, skinnið nýtt í klæði og spikið sem ljósgjafi. Hringanóri er sjaldgæfur flækingur við Ísland. Í útliti svipar hringanóranum að nokkru til landsels, en er heldur minni enda minnstur norrænna sela.

Kæpir í snjóhúsi

Nafn sitt dregur hann af hringlaga flekkjum á baki með ljósum hringjum í kring. Hringanórinn kæpir í mars, í eins konar snjóhúsi, sem urtan grefur við op í gegnum lagnaðarísinn, en hann getur hæglega verið um 2,5 metra þykkur. Í gegnum þetta op sækir urtan svo æti. Þessum opum halda selirnir svo opnum með nagi og klóri. Fæða hringanórans samanstendur aðallega af krabbadýrum og ískóði.

6 til 7 milljónir dýra

Til Íslands koma hringanórarnir einir eða fáir saman. Oftast er um að ræða fullorðna brimla, en ekki er mikið um ungviði. Þeir koma reglulega inn á Eyjafjörð, alveg inn á Poll, á vorin og snemmsumars.

Stofnstærð hringanóra er lítt þekkt en gæti verið á bilinu 6-7 milljónir. Sérstakir stofnar þeirra (Phoca hispida) eru í Eystrasalti, Otkoskahafi, Beringssundi og Saima- og Ladoga-vötnum í Finnlandi. Í Kaspíahafi og Bajkalvatni er afbrigði hringanóra sem nú eru orðin sértegundir (Phoca caspica og Phoca sibirica).“