4. maí 2008 | Daglegt líf | 3336 orð | 8 myndir

Hoppað út úr flórunni

Gullbarki „Það var í einu orði sagt stórkostlegt að upplifa þessa dóma. Það féllu falleg orð í minn garð í þættinum og ég fór oft hjá mér. Allir hafa gott af því að fá klapp á bakið og þetta styrkir mann í þeirri trú að maður sé á réttri hillu í lífinu,“ segir Eyþór Ingi Gunnlaugsson en dómendur í Bandinu hans Bubba fóru ítrekað fögrum orðum um söngvarann unga frá Dalvík.
Gullbarki „Það var í einu orði sagt stórkostlegt að upplifa þessa dóma. Það féllu falleg orð í minn garð í þættinum og ég fór oft hjá mér. Allir hafa gott af því að fá klapp á bakið og þetta styrkir mann í þeirri trú að maður sé á réttri hillu í lífinu,“ segir Eyþór Ingi Gunnlaugsson en dómendur í Bandinu hans Bubba fóru ítrekað fögrum orðum um söngvarann unga frá Dalvík. — Morgunblaðið/Frikki
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Átján ára Dalvíkingur, Eyþór Ingi Gunnlaugsson, setti hæfileikakeppnir í íslensku sjónvarpi í nýtt samhengi þegar hann fór með sigur af hólmi í Bandinu hans Bubba á Stöð 2.
Átján ára Dalvíkingur, Eyþór Ingi Gunnlaugsson, setti hæfileikakeppnir í íslensku sjónvarpi í nýtt samhengi þegar hann fór með sigur af hólmi í Bandinu hans Bubba á Stöð 2. Sjálfur gekk Bubbi Morthens svo langt að fullyrða að pilturinn væri besti söngvari sem hann hefði heyrt í hér á landi í þrjá áratugi. Orri Páll Ormarsson grennslaðist fyrir um hagi Eyþórs Inga og komst að því að hann er enginn nýgræðingur í tónlist þrátt fyrir ungan aldur.

Góðir rokksöngvarar eru ekki á hverju strái á Íslandi. Menn sem máta má við leðurbarka á borð við Ian Gillan, Bruce Dickinson og W. Axl Rose. Það varð því rokkþyrstum lýðnum opinberun að fylgjast með Eyþóri Inga Gunnlaugssyni sigrast á hverju bjarginu af öðru í Bandinu hans Bubba á Stöð 2 í vor.

Almættið hefur aldeilis verið í essinu sínu þegar það strengdi raddböndin í þann dreng, önnur eins breidd er vandfundin. Ekki nóg með röddina, Eyþór Ingi er jafnframt leiftrandi músíkalskur, fæddur sviðsmaður og haldinn brennandi ástríðu. Tónlistin er honum allt.

Minnstu munaði þó að „Frelsarinn“ ungi frá Dalvík tæki ekki þátt í Bandinu hans Bubba. „Ég fékk óvænt símtal frá Saga Film, sem framleiddi þættina, síðastliðið haust. Einhver hafði bent á mig vegna þessa nýja þáttar. Ég veit ekki ennþá hver það var en ábyrgð hans er mikil,“ segir Eyþór Ingi sposkur á svip, þar sem fundum okkar ber saman í Hádegismóum.

Hann er í kaupstaðarferð til að syngja – nema hvað – og ég gríp hann glóðvolgan á frídegi verkalýðsins til að rekja úr honum garnirnar. Hvaðan er þessi maður og hvert er hann að fara?

Frelsi fyrir Bubba

„Mér leist ekkert á þetta til að byrja með enda hafði ég engan áhuga á að taka þátt í Idol eða X-Factor á sínum tíma. Þeir spurðu hins vegar hvort þeir mættu ekki heimsækja mig til Dalvíkur og ég kunni ekki við að neita því. Þá fóru hjólin að snúast,“ heldur Eyþór Ingi áfram að lýsa aðdragandanum að ævintýrinu.

Harðsnúið lið stakk við stafni í sundlauginni á Dalvík, þar sem Eyþór Ingi er að vinna, með Bubba Morthens sjálfan í broddi fylkingar. Kvaðst kóngurinn hafa heimildir fyrir því að í Eyþóri Inga byggi barki og bað hann að syngja fyrir sig.

Eyþór Ingi færðist ekki undan þeirri áskorun og tók, eins og frægt er, lagið Frelsi með Mánum með miklum tilþrifum. Heima sat þjóðin agndofa, annars vegar yfir röddinni en hins vegar yfir lagavalinu. Hvað fær bjartan átján ára ungling á nyrsta hjara veraldar til að syngja lag með Mánum?

Þegar hér er komið sögu skellir Eyþór Ingi upp úr. „Já, það hefur örugglega komið einhverjum spánskt fyrir sjónir. Ég kynntist Mánum gegnum fyrrverandi kærustu mína, Unni Birnu Björnsdóttur, en hún er dóttir Bassa í Mánum. Frelsi er magnað lag og ég er vonsvikinn yfir því að Mánar skuli ekki njóta þeirrar athygli sem þeir eiga skilið. Mér þótti því upplagt að nota þetta tækifæri til að ýta þeim fram.“

Ringlaður og ringlaðri

Bubbi hafði fengið grun sinn staðfestan og bað Eyþór Inga að koma í formlega prufu á Akureyri daginn eftir. „Ég gat ekki hafnað því boði. Við Bubbi áttum líka gott spjall þarna, þar sem hann sannfærði mig um að mikill metnaður yrði lagður í þáttinn og nálgunin yrði önnur en í Idol og X-Factor.“

Samt var hann áfram á báðum áttum. Vissi ekki hvort hann ætti að hrökkva eða stökkva. „Ég var enn hálfringlaður kvöldið eftir og ennþá ringlaðri á Gauk á Stöng nokkrum vikum síðar,“ segir Eyþór Ingi á skemmtilegri dalvísku, ring-laður. „Síðan komst ég áfram í fyrstu beinu útsendinguna og við það breyttist hugarfarið. Það er ekki minn stíll að gera hlutina með hangandi hendi og frá og með fyrstu beinu útsendingunni var ég heill og óskiptur í þessu verkefni,“ bætir hann við.

Eyþór Ingi fór fljótlega að „fíla sig í tætlur“ í þættinum. „Ég lærði heilmikið á þessu. Áður hafði ég ekki mikla trú á raddþjálfun en Kristjana Stefánsdóttir reyndist mér ótrúlega vel. Hún er með skemmtilegar áherslur og leggur mikið upp úr því að halda karakter söngvarans í stað þess að breyta honum. Árni Pétur Guðjónsson kenndi mér líka margt varðandi framkomu og svo var auðvitað ómetanlegt að kynnast því að vinna í sjónvarpi. Þetta var á heildina litið mjög góður skóli. Og alveg ótrúlega gaman.“

Skilyrði var að syngja á íslensku og Eyþór Ingi segir það hafa verið mikla áskorun enda hafi hann ekki verið sérlega vel að sér um íslenska tónlist. Þá kom vefurinn tonlist.is í góðar þarfir. „Við héngum þar tímunum saman.“

Hann segir hóp keppenda hafa verið góðan og samheldinn. „Við vorum mikið saman og urðum snemma eins og bekkur í skóla. Þetta eru upp til hópa frábærir krakkar og ég eignaðist marga vini, ekki síst Arnar [Má Friðriksson] sem var með mér í úrslitaþættinum. Það býr ótrúleg orka í þeim dreng og hann er góður félagi. Arnar ætlar að heimsækja mig fyrir norðan á næstunni og við eigum örugglega eftir að verða í góðu sambandi.“

Gott að fá klapp á bakið

Varla er hægt að vonast eftir betri dómum en Eyþór Ingi fékk í Bandinu hans Bubba og þjóðin var greinilega á sama máli og dómnefndin mælska. „Það var í einu orði sagt stórkostlegt að upplifa þessa dóma. Það féllu falleg orð í minn garð í þættinum og ég fór oft hjá mér. Allir hafa gott af því að fá klapp á bakið og þetta styrkir mann í þeirri trú að maður sé á réttri hillu í lífinu.“

Sigurvegarar í fyrri söngvarakeppnum á Stöð 2 hafa ekki náð þeim hæðum sem sumir bjuggust við og Bubbi Morthens hefur lýst því yfir að rólega verði farið í sakirnar að þessu sinni. Eyþóri Inga hugnast sú nálgun. „Það er mikill skilningur á mínum þörfum, bæði hjá Bubba, umboðsmanni mínum, Palla í Prime, og öðrum sem að þessu koma. Markmið mitt er að sanna mig sem tónlistarmaður og sýna að ég geti eitthvað annað en tekið þátt í keppnum. Það er ekki búið að setja upp eldfast mót sem ég passa inn í enda er lykilatriði í mínum huga að laga hlutina að mér en ekki mig að hlutunum. Þannig á það að vera.“

Plata með frumsömdu efni

Eyþór Ingi hefur sett stefnuna á plötu en segir alltof snemmt er að segja hvenær það verði. „Ég hef miklu meiri áhuga á því að gefa út plötu með frumsömdu efni en einhverja „cover“-plötu. Ég hef samið tónlist lengi og á fullt af efni. Samt er það ekkert mottó að vera sjálfbær, ég get vel hugsað mér að syngja efni eftir aðra líka. Bubbi samdi til dæmis fyrir mig mjög fínt lag, Hjartað þitt, sem komið er í spilun í útvarpi.“

Keppnin hverfðist um söngvarastöðuna í Bandinu hans Bubba og Eyþór Ingi mun koma fram með hljómsveitinni í sumar. Engar dagsetningar liggja þó fyrir ennþá. „Þetta er stórkostlegt band, eins og alþjóð varð vitni að í þáttunum, og það verður heiður að syngja með því. Eins og menn vita eru þessir strákar hins vegar með mörg járn í eldinum og það þarf því að raða þessu vandlega saman. En það er alveg ljóst að við munum koma fram saman í sumar. Ætli framhaldið verði ekki skoðað betur í haust en ég gæti svo sannarlega hugsað mér að vinna meira með þessu bandi.“

Enda þótt Eyþóri Inga liggi ekkert á gerir hann sér líka grein fyrir því að ekki er gott að bíða of lengi. „Ég vil gefa mér tíma til að þróa minn stíl en á sama tíma ætla ég að gera allt sem í mínu valdi stendur til að hverfa ekki af sjónarsviðinu. Ég vil síður enda inni á einhverri skrifstofu eftir nokkur ár. Ég er kominn með vandaða skóflu í hendurnar og nú er bara að halda áfram að moka.“

Líkt við Jóa leikara

Eyþór Ingi fæddist á Dalvík 29. maí 1989. Foreldrar hans eru hjónin Gunnlaugur Antonsson sjómaður og Guðbjörg Stefánsdóttir húsmóðir og nemi. Hann á tvær yngri systur, Ellen Ýr, fimmtán ára, og Elísu Rún, tíu ára. Eyþór Ingi hefur alið allan sinn aldur á Dalvík og segir afskaplega gott að vaxa þar úr grasi. „Það er rólegt og þægilegt á Dalvík og umhverfið heldur vel utan um bæjarbúa,“ segir hann.

Eyþór Ingi er af tónelsku fólki kominn og nefnir afa sína sérstaklega í því samhengi, Anton Gunnlaugsson og Stefán Friðgeirsson hestamann með meiru sem er jafnvígur á söng, píanó og harmónikku. Þá er leiklistin Eyþóri Inga í blóð borin en langafi hans, sem aldrei var kallaður annað en Jói leikari, var á sinni tíð þekktur maður í mannlífinu á Dalvík og frægur fyrir að „stela senunni“. „Ég kynntist honum aldrei en margir sem muna eftir Jóa leikara hafa líkt mér við hann.“

Snemma beygist krókurinn og Eyþór Ingi kveðst ekki muna eftir sér öðruvísi en syngjandi, leikandi og „bullandi“. Hann var alltaf að búa eitthvað til. Fyrsta átrúnaðargoð hans í tónlist var kóngurinn sjálfur, Elvis Presley. „Það var amma mín, Anna Margrét Halldórsdóttir, sem kenndi mér að hlusta á Elvis. Ég féll strax fyrir honum og það eru til myndir af mér pínulitlum glamrandi á plastgítar syngjandi Elvis á mjög slæmri ensku,“ segir hann hlæjandi.

Hinn listamaðurinn sem Eyþór Ingi hafði mest álit á í æsku er Laddi. „Leiklistin var mér ekki síður kær en tónlistin á þessum árum og Laddi var minn maður. Ég hlustaði aftur og aftur á plöturnar hans og lá yfir myndbandsupptökum af Heilsubælinu í Gervahverfi. Þetta voru ekki amalegar fyrirmyndir, Elvis og Laddi.“

Heybaggi fyrsta sviðið

Eyþór Ingi stóð ekki út úr hnefa þegar hann byrjaði að troða upp. „Ég var mikið í hesthúsinu hjá Stefáni afa mínum og sagan segir að í hvert sinn sem við löbbuðum þar inn hafi ég spurt hvað ég ætti að syngja. Þá setti afi mig upp á heybagga og hlustaði á mig. Þetta spurðist út og fleiri hestamenn fóru að láta sjá sig í því skyni að heyra mig syngja. Í fyrstu var ég svolítið feiminn við að syngja eftir pöntun en þegar þeir gaukuðu að mér klinki sló ég til. Ég byrjaði sumsé ungur að þiggja greiðslu fyrir að koma fram,“ rifjar Eyþór Ingi upp og skellihlær.

Í kjölfarið fór hann að halda leiksýningar fyrir börnin í hverfinu heima í stofu og um tíu ára aldur byrjaði hann að taka þátt í leikritum í skólanum og á vegum áhugaleikfélagsins á Dalvík. „Júlli Júll, sem m.a. sér um Fiskidaginn mikla, fékk mig snemma til að leika í örleikritum. Síðan var líka vinsælt að fá mig til að herma eftir Ladda herma eftir öðrum. Allar götur síðan hef ég verið viðriðinn leiksvið, lék m.a. í Oliver Twist og Óvitum hjá Leikfélagi Akureyrar.“

Börn eru gjarnan spurð hvað þau ætli að verða þegar þau eru orðin stór. Eyþór Ingi kveðst alltaf hafa svarað þeirri spurningu með sama hætti: Söngvari eða leikari. „Sumir vinir mínir ætluðu að verða slökkviliðsmenn en ég svaraði því þá til að ég gæti bara leikið slökkviliðsmann ef mér sýndist svo í framtíðinni. Annars hef ég alltaf beðið eftir því að verða fullorðinn svo ég gæti byrjað að hafa lifibrauð af leik eða söng.“

Lesblinda og athyglisbrestur

Eyþór Ingi hóf sína skólagöngu í Dalvíkurskóla en eftir 5. bekk var hann fluttur í lítinn sveitaskóla í grenndinni, Húsabakkaskóla. „Ástæðan fyrir því var sú að ég er bæði með athyglisbrest og lesblindu og foreldrar mínir ákváðu að senda mig í smærri skóla til að ég fengi betri aðstoð við námið. Lesblindan hefur alltaf háð mér í námi, sérstaklega í tungumálunum, en þarna fékk ég mjög góða aðstoð. Margir halda að athyglisbrestur tengist ofvirkni en það þarf ekki að vera. Ég hef til dæmis alltaf verið rólegur og var aldrei mikill fyrirferðar í skóla. Ég var kátur krakki en alls ekki týpan sem truflar kennslu. Athyglisbresturinn snýst um einbeitingu.“

Í Húsabakkaskóla kynntist Eyþór Ingi strákum sem voru í sömu tónlistarpælingum og hann, meðal annarra Baldri Hjörleifssyni sem er sonur Hjörleifs Hjartarsonar úr hljómsveitinni Hundur í óskilum. „Á þessum árum helltum við okkur út í rokkið, Bítlana, Led Zeppelin, Deep Purple og þessar sveitir en það er mjög gott plötusafn á heimili Baldurs. Við tókum líka upp okkar eigið efni við mjög frumstæðar aðstæður. Sköpunarþörfin var mikil.“

Heimtaði Hendrix

8. bekkur er elsti bekkurinn í Húsabakkaskóla og Eyþór Ingi og félagar héldu því sem leið lá í Dalvíkurskóla. Þar stofnuðu þeir sitt fyrsta bílskúrsband í 9. bekk. Á þeim tíma voru áhrifavaldarnir orðnir fleiri – og yngri. Nýbylgjusveitir á borð við Muse og Radiohead. „Við vildum spila framsækið rokk án þess þó að slíta tengslin við gamla rokkið. Ég var alltaf á móti tískumúsíkinni sem krakkarnir hlustaðu á í gelgjunni, heimtaði bara að setja Jimi Hendrix á. Ég hef örugglega ekki verið neitt sérstaklega vinsæll drengur,“ rifjar hann upp hlæjandi. Helsti styrkur hljómsveitarinnar var um leið hennar helsti veikleiki, hugmyndaauðgi. „Við vildum bara spila eigið efni og vorum alveg ótrúlega virkir í nýjum hugmyndum. Svo virkir raunar að við náðum yfirleitt ekki að klára neitt. Það komu stöðugt fram nýjar hugmyndir sem ruddu þeim eldri út af borðinu. Það var ekkert skipulag í gangi enda erum við allir frekar utan við okkur að eðlisfari,“ viðurkennir Eyþór Ingi.

Auk þeirra Baldurs voru í sveitinni Guðmundur Ingi Halldórsson og Árni Jónsson. Hún kom nokkrum sinnum fram opinberlega en hefur legið niðri frá árinu 2006.

Sjó-bissness

Eyþór Ingi hefur gegnt ýmsum sumarstörfum. Í þrjú sumur reri hann með föður sínum sem gerir út trillu frá Dalvík. „Fyrst um sinn veltist ég um í ógleði og leist ekkert á blikuna. En þegar ég fór að sjá peninginn léttist á mér brúnin – ég hafði fyrir ýmsum græjum sem ég þurfti á að halda í tónlistinni.“

Hann stundaði því sjóinn með bros á vör það sem eftir lifði sumars. En gerir ráð fyrir að láta það duga. „Ég sé mig ekki fyrir mér í því starfi. En það var þroskandi að kynnast sjómennskunni.“

Haustið 2005 lá leið Eyþórs Inga í Verkmenntaskólann á Akureyri. „Ég byrjaði í kokkinum enda langaði mig að læra að búa til mat. Ég fann mig hins vegar ekki í því námi og skipti yfir á listnámsbraut, aðallega þar sem hún innihélt orðið list. Ég heillast af allri sköpun og hafði gaman af ýmsum pælingum þar, einkum í súrrealíska málverkinu. Samt virkaði þetta ekki og fyrir ári ákvað ég að leggja námið á hilluna.“

Spurður hvort hann hyggist taka upp þráðinn á ný svarar Eyþór Ingi: „Á þessum tímapunkti efast ég um að ég eigi eftir að fara aftur í framhaldsskóla. Ég á frekar von á því að fara í tónfræði- eða hljóðfæranám. Það er mitt svið. Það var mikið sjokk fyrir suma að ég skyldi hætta í námi. Eins og lífið væri búið. Sumum líkar ekki þegar menn hoppa aðeins út úr flórunni. Ég var hins vegar viss í minni sök og fjölskyldan hefur stutt við bakið á mér, eins og í öllu sem ég hef tekið mér fyrir hendur. Ég er alveg ótrúlega heppinn með það. Áður en ég fékk bílpróf voru foreldrar mínir boðnir og búnir að skutla mér hingað og þangað til að spila eða leika og þeir lögðu á sig að keyra suður fyrir hverja einustu útsendingu af Bandinu hans Bubba. Það segir allt sem segja þarf um stuðning foreldra minna og fjölskyldunnar allrar.“

MA-ingurinn í VMA

Eyþóri Inga líkaði vistin í höfuðstað Norðurlands ágætlega. Félagar hans fóru raunar allir í Menntaskólann á Akureyri og var hann vitaskuld mikið í slagtogi við þá. „Ég var kallaður MA-ingurinn í VMA af því ég gekk um í frakka með trefil,“ segir hann brosandi, „en ég hef alltaf verið ófeiminn að halda í mitt. Aldrei fundið þörf til að laga mig að aðstæðum.“

Ýmis tækifæri gáfust á söngsviðinu meðan Eyþór Ingi var í VMA. Vorið 2006 settu skólarnir tveir á Akureyri í sameiningu upp söngleikinn Jesus Christ Superstar og fór Eyþór Ingi með titilhlutverkið. „Það var æðislega gaman og ég hellti mér út í Superstar af þessu tilefni. Þetta er frábær söngleikur og kjörið tækifæri til að sameina ástríður mínar tvær, söng og leiklist.“

Uppfærslan féll í frjóa jörð og í umsögn í Morgunblaðinu sagði Þorgeir Tryggvason m.a.: „Söngurinn er í heildina alveg óleyfilega flottur. Hver einasta sólóstrófa pottþétt, og helstu glansnúmer glansa. Enginn skín þó skærar en Eyþór Ingi Gunnlaugsson í hlutverki Frelsarans. Mögnuð þungarokkstilþrif af gamla skólanum þegar á þarf að halda, yfirvegun og fókus þess á milli.“

Uppáhaldslagið hans pabba

Ári síðar var Eyþór Ingi valinn til að verja heiður VMA í Söngkeppni framhaldsskólanna í beinni útsendingu í sjónvarpinu. Það gerði hann með miklum glæsibrag og sigraði í keppninni. „Það var frábært að fá að koma fram fyrir alþjóð og ég lagði allt í sölurnar.“

Lagavalið vakti athygli, Perfect Strangers með Deep Purple, og ekki er laust við að tár hafi sést á hvarmi hjá gömlum rokkhundum inn til sveita. Eyþór Ingi brosir þegar þetta ber á góma. „Þetta er uppáhaldslagið hans pabba en hann er rokkari af gamla skólanum. Ég söng það fyrst í fertugsafmælinu hans ári áður og ákvað að kýla á þetta í keppninni. Mig langaði að gera eitthvað sem ekki hefur verið gert áður en rokk af þessu tagi hefur ekki átt upp á pallborðið í Söngkeppni framhaldsskólanna. Menn eru alltaf að velta fyrir sér hvað virki í svona keppnum en ég var ekkert að pæla í því. Ég vildi skera mig úr fjöldanum. Svo býður þetta lag líka upp á mikla raddfimleika. Ég vissi alveg að ég var að taka áhættu en það gekk upp.“

Unnur Birna, fyrrverandi kærasta Eyþórs Inga, lék með honum á hljómborð í laginu og komu þau talsvert fram í framhaldi af sigrinum, aðallega á Eyjafjarðarsvæðinu en líka aðeins sunnan heiða. „Við Unnur Birna spilum bæði á hljómborð og gítar og hún spilar jafnframt á fiðlu. Við skiptumst á að spila á hljóðfærin nema hvað ég lét fiðluna alveg vera. Það var talsvert að gera hjá okkur á tímabili og þetta var mjög skemmtilegt.“

Veit ekkert um bíla

Eyþór Ingi er sjálfmenntaður í hljómborðs- og gítarleik en lærði á sínum tíma á harmónikku. „Það er eina hljóðfærið sem ég hef lært á. Ég á nikkuna ennþá en hef lítið tekið hana upp á seinni árum. Hún er eigi að síður skemmtilegt hljóðfæri og ég gæti vel hugsað mér að blanda henni inn í það sem ég er að gera í dag. Harmónikkan á nefnilega að mínu mati vel heima í rokkinu, öfugt við það sem margir halda.“

Eyþór Ingi talar um fyrrverandi kærustu sína og ekki er annað hægt en spyrja fyrir hönd yngismeyja þessa lands hvort hann sé á lausu nú um stundir. Svar hans er stutt og laggott: „Já.“

Þá vitið þið það.

Fátt annað hefur komist að í samtalinu en tónlist og nú dettur blaðamanni í hug að spyrja Eyþór Inga um önnur áhugamál. Það kemur þögn. „Það er nú það,“ segir hann kíminn eftir dágóða umhugsun. „Það er ekkert annað. Ég hef engan áhuga á íþróttum og veit ekkert um bíla. Tónlistin er mínar ær og kýr. Ég hugsa um hana öllum stundum.“

Eyþór Ingi hefur starfað hjá Dalvíkurbæ í vetur. Fyrir hádegi hefur hann eftirlit með skólabörnum í sundi en eftir skóla hefur hann umsjón með sex ára gömlum einhverfum og mállausum dreng í skólavistuninni þangað til foreldrar hans sækja hann eftir vinnu. „Ég hafði enga reynslu af þessu en þetta hefur verið lærdómsríkt og ofboðslega gefandi. Þetta hefur gengið vel eftir að við fórum að kynnast og við erum orðnir ágætir félagar. Það er mikilvægt að búa sig vel undir lífið og þessi vinna sem ég hef haft með höndum í vetur hefur sannarlega verið þroskandi.“

Eyþór Ingi lýkur störfum hjá Dalvíkurbæ um næstu mánaðamót eða þegar skólaárið er úti. „Þá þarf ég að hugsa minn gang vel og vandlega. Ég stefni að því að vinna við tónlist á næstunni og veit það þýðir að ég þarf líklega að flytja suður, a.m.k. vera þar með annan fótinn. Er ekki grasið alltaf grænna hinum megin? Það verða mikil viðbrigði enda búum við stórfjölskyldan öll á sömu hundaþúfunni á Dalvík. En hvar sem ég kem til með að búa í framtíðinni er eitt alveg ljóst: Ég verð alltaf Dalvíkingur!“

orri@mbl.is

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.