Fegurð Reynitrén blómstra mjög fagurlega þessa dagana.
Fegurð Reynitrén blómstra mjög fagurlega þessa dagana.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Í Íslendingabók Ara fróða er sagt að landið hafi verið viði vaxið milli fjalls og fjöru. Þessi setning hefur löngum valdið Íslendingum heilabrotum og jafnvel hatrömmum deilum.

Í Íslendingabók Ara fróða er sagt að landið hafi verið viði vaxið milli fjalls og fjöru. Þessi setning hefur löngum valdið Íslendingum heilabrotum og jafnvel hatrömmum deilum. Ari var svo sem enginn grasafræðingur og útskýrði ekki nánar þetta með viðinn, taldi hvorki upp tegundaheiti né flatarmál. Tegundirnar eru heldur ekki margar, nokkrar víðitegundir, stöku blæösp, birki og fjalldrapi, reynir og einir, eina sígræna tegundin. En þótt tegundirnar séu fáar eru sagnir tengdar þeim býsna margar.

Það er áberandi í sögnum að reynirinn skipar alveg sérstakan sess í hugarheimi Íslendingsins. Reynirinn skipar líka alveg sérstakan sess í íslenskri náttúru. Þótt hann myndi hvergi skóga heldur vaxi stakstæður innan um birkikjarr fer ekki fram hjá manni þegar hann blómstrar og ekki heldur þegar hann þroskar fræ.

Fallega hvít reyniblómin sitja mörg saman í 10-15 cm stórum sveipum, sem skera sig vel frá dökkgrænu laufinu og líkt og lýsa upp umhverfið. Eins sjást sterkrauð berin, sem þroskast síðla ágúst, langt að. Haustlitir reynis eru líka gjörólíkir litum bæði birkis og víðis.

Reynir kemur við sögu bæði í norrænni goðafræði og Íslendingasögum. Í Snorra-Eddu er reyniviður nefndur björg Þórs, en hann kemur einmitt við sögu í frásögn af pissustandi tröllastelpu. Einn göfugasti landnámsmaðurinn var Geirmundur heljarskinn, sem bjó á Geirmundarstöðum í Dalasýslu (seinna Skarð á Skarðsströnd). Honum var meinilla við hvamm einn í landareigninni og taldi sig stöðugt sjá óþægilegt ljós yfir reynilundi sem þar yxi. Ef búfé Geirmundar kom í hvamminn brást hann ókvæða við og lét hella niður mjólkinni þann dag. Eitt sinn sem oftar vildi smalinn reka féð úr hvamminum og reif vönd af reynirunnanum til að reka féð með burtu. Geirmundur kaghýddi smalann og harðbannaði honum að berja búféð með þessum viði. Í hvamminum var fyrsta kirkjan í Skarði á Skarðsströnd reist.

Fleiri helgisagnir eru tengdar reyninum. Sagt er til dæmis að á jólanótt hafi brunnið ljós á öllum greinum reynitrés nokkurs og slokknuðu þau ekki hvernig sem vindur blés.

Sú reynihrísla sem flestar þjóðsögur eru tengdar við er örugglega reyniviðurinn í Möðrufellshrauni í Eyjafirði. Á þessari hríslu var mikil helgi í kaþólskum sið og sagt er í Undrum Íslands, riti Gísla biskups Oddssonar, sem skrifað var á 17. öld, að menn hafi gengið syngjandi kringum ljósum prýdda hrísluna á jólanótt. Eins flykktist almenningur til trésins með gjöfum, ljósum og ýmiss konar þjónustu. Munnmælasagnir um að Jón biskup Arason hafi oft í æsku sinni setið undir reyninum í Möðrufellshrauni þegar hann hafi verið að smala fé á Grýtu hafa ekki dregið úr vægi hríslunnar, enda létu lútherskir menn höggva hrísluna til að afnema átrúnað á henni. Ekki tókst að uppræta reyniviðinn, sem óx aftur af rótarskotum og hefur orðið formóðir flestra reynitrjáa norðanlands. Reyniviðirnir í Skriðu og Fornhaga í Hörgárdal, sem Þorlákur Hallgrímsson og synir hans gróðursettu á árunum 1820-30 eru af þessari frægu hríslu komnir.

Eggert Ólafsson og Bjarni Pálsson ferðuðust um Ísland á árunum 1752-57. Eggert nefnir reynivið sem hafði vaxið í Skálholti en var þá fallinn og á Möðruvöllum í Hörgárdal óx reynir sem var talinn hafa verið gróðursettur um 1700. Ekki gátu þeir um trjárækt í Reykjavík, en breskur maður, John Barrow, sagði árið 1834 aðeins þrjár eða fjórar 4 feta háar reynihríslur vaxa í Reykjavík

Frægasta reynitré sunnanlands er örugglega reynirinn í Nauthúsagili, sem er við leiðina inn í Þórsmörk. Frá honum voru fyrstu reynitré Guðbjargar í Múlakoti í Fljótshlíð komin árið 1897. Þær smáhríslur urðu undirstaða mikillar reyniræktunar hennar og frá henni komust þær í flesta garða sunnanlands.

Engar helgisögur kann ég um Nauthúsagilsreyninn og þó; e.t.v. eru reynitrén í Vestmannaeyjum þaðan runnin. Á öldunum áður bjuggu hjón í Eyjum sem áttu tvö börn. Þau voru mjög samrýmd og þegar stúlkan varð barni aukin var bróður hennar kennt um þungann. Þrátt fyrir staðfasta neitun beggja voru þau líflátin. Þau voru grafin sitt hvorum megin við kirkjuna í Vestmannaeyjum og á leiði beggja spruttu upp reynitré, þau einu í Eyjum. Þegar greinar trjánna náðu saman yfir kirkjuþakinu sannfærðust menn um sakleysi systkinanna. Þessi reynitré felldu ræningjarnir í Tyrkjaráninu árið 1627 með þeim ummælum að þeir kæmu aftur þegar trén næðu saman á ný. Þeir hafa ekki komið enn.