22. desember 2008 | Íþróttir | 1193 orð | 1 mynd

Falur sér um kalkúninn

*Margrét Sturlaugsdóttir, flugfreyja, móðir og landsliðsþjálfari í körfu, hefur ekki áhyggjur af jólasteikinni

Byrjunarliðið Elva Falsdóttir, Margrét Sturlaugsdóttir, Jana Falsdóttir, Falur Harðarson og Lovísa Falsdóttir.
Byrjunarliðið Elva Falsdóttir, Margrét Sturlaugsdóttir, Jana Falsdóttir, Falur Harðarson og Lovísa Falsdóttir. — Ljósmynd/Skúli Sigurðsson
„ÆTLI það sé ekki bara rétt að kalla þetta dellu!“ sagði Margrét Sturlaugsdóttir, flugfreyja, þriggja barna móðir og körfuboltaþjálfari, sem nýverið tók við sem þjálfari 18 ára landsliðs kvenna í körfuknattleik.
„ÆTLI það sé ekki bara rétt að kalla þetta dellu!“ sagði Margrét Sturlaugsdóttir, flugfreyja, þriggja barna móðir og körfuboltaþjálfari, sem nýverið tók við sem þjálfari 18 ára landsliðs kvenna í körfuknattleik. Margrét hefur í mörg ár þjálfað yngri flokka hjá Keflavík, en hætti því í haust og það leið ekki langur tími þar til hún var aftur tekin við þjálfarahlutverkinu – nú hjá landsliðinu.

Eftir Skúla Unnar Sveinsson

skuli@mbl.is

Svar Margrétar hér að framan er við spurningunni hvað fái konu í hennar stöðu til að taka að sér landslið 18 ára. „Þegar maður á góða að þá er allt hægt, en þetta krefst mikillar skipulagningar til að hlutirnir gangi upp,“ segir Margrét. Hún er gift Fali Harðarsyni, körfuknattleiksmanni úr Keflavík, tölvunarfræðingi og nema, og sjá má að það er ekki minna að gera hjá honum enda í framhaldsnámi.

Falur í eldhúsinu á aðfangadag

„Nei, nei, Falur er svo rosalega séður og ég er sjálfsagt búin að ala hann upp þannig enda erum við búin að vera saman í 22 ár. Hann hefur alltaf séð um jólamatinn. Þetta er eini dagurinn sem hann á alveg eldhúsið. Ég geri salat og ísinn og svona en hann er kalkúnameistari,“ segir Margrét hlæjandi þegar spurt var hvort Falur færi bara á Nings á aðfangadag.

„Annars lofaði hann því að vera aðstoðarþjáflari hjá mér. Hann hvatti mig til að taka þessu starfi og sagði að hann gæti orðið aðstoðarþjálfari, þannig að ég á eftir að herma það upp á hann,“ sagði Margrét.

Hún er búin að vera í körfunni í mörg ár, fyrst sem leikmaður, síðan leikmaður og þjálfari og þegar ferlinum lauk hélt hún ótrauð áfram að þjálfa. „Ég byrjaði að þjálfa 1988. Stefán Arnarsson bankaði á öxlina á mér og sagði að nú ætti ég að hjálpa honum og vera aðstoðarmaður hjá henni. Ég gerði það í eitt ár og árið eftir tók ég við mínum flokki og gerði þær að Íslandsmeisturum, þetta voru Erla Reynis og Erla Þorsteins og þær. Þá var boltinn farinn að rúlla og ekki aftur snúið og ég hef verið að síðan nema rétt á meðan ég var að eiga stelpurnar,“ segir Margrét en þau Falur eiga þrjár stelpur, 14, 10 og 3 ára og vantar því bara eina til viðbótar til að hafa í byrjunarlið, enda mamman vel liðtæk enn í kröfunni. Eldri stelpurnar tvær eru á fullu í körfu, „en sú yngsta er ekki farin að æfa neitt að ráði ennþá,“ segir Margrét og rifjar upp að stelpurnar hafi verið í bílstól eða göngugrind á æfingum í gegnum árin.

Gott starf með yngri flokka í Keflavík

Margrét þjálfaði yngri flokka kvenna með gríðarlega góðum árangri. „Það sem ég er sáttust við eftir allt þetta sprikl á mér er að mér finnst kvennakarfan í Keflavík vera mjög fín,“ segir Margrét.

Keflvíkingar hafa jafnan verið með mjög fjölmenna og góða hópa í yngri flokkunum. Hver ætli sé skýringin á því? „Kristín í Kóda var fyrirrennari minn í unglingaráði og stofnandi þess árið 2001. Hún lagði grunninn að þessu. Hún lagði mikla áherslu á að sameina getu og fjölda og sinna öllum. Þetta átti að vera eins og skólakerfið: Karfa fyrir alla.

Ég man eftir því að fyrir um tíu árum kom ein móðir að mér úti á götu og spurði hvers vegna hún ætti að setja dóttur sína í körfubolta. Mér fannst gott á mig að fá þessa spurningu úti í bæ og hugsaði hvernig ég gæti svarað þessu. Ég klóraði mér aðeins í hausnum og benti konunni á félagslega þáttinn. Bestu vinkonur mínar koma úr körfunni og þó svo að maður sé hættur að spila þá hittumst við og leikum okkur í körfu. Ég sagði konunni að þarna hefði ég eignast mína bestu vini og enn værum við að hittast og sprikla.

Ég er mjög sátt við það hvernig hefur tekist til hjá okkur. Það er um að gera að kveikja neistann og áhugann og við erum dugleg að halda utan um félagslega þáttinn því hann er rosalega mikilvægur. Stelpurnar eru duglegar að finna upp á hinu og þessu til að gera saman og það er voðalega gaman.

Ég er líka rosalega ánægð með hana Helenu [Sverrisdóttur] sem er að gera fína hluti úti í Bandaríkjunum og hefur alla burði til að komast í WNBA. Þar er komin fyrirmynd sem hefur vantað fyrir stelpurnar, fyrirmynd sem sannar að það er hægt að komast alla leið.“

Algengt er að íþróttafólk hætti afskiptum af íþrótt sinni þegar keppnisferlinum lýkur. Þannig er því ekki farið hjá Margréti. „Við vorum einu sinni að ræða þetta vinkonurnar og vorum með mismunandi sjónarmið um þetta. Önnur hliðin á peningnum segir að ég hafi gefið körfunni öll mín bestu ár. Hin hliðin segir að karfan hafi gefið mér bestu ár ævi minnar og því kominn tími til að gefa eitthvað til baka.“

Desperate Housewives á elliheimilinu

„Þegar ég var að sprikla í körfu þá var örugglega eitthvert fólk í meistaraflokksráði sem sá um alla hlutina. En maður hafði aldrei vit á að þakka fyrir sig. Núna var sénsinn til að þakka fyrir sig,“ segir Margrét og viðurkennir að vissulega fari mikill tími í þetta. „En færi sá tími þá ekki bara í eitthvað annað, sjónvarpsgláp eða eitthvað slíkt? Maður er ekki inni í neinum þáttaröðum, hef ekki séð neina röð af Desperate Housewives eða neitt. Veit ekki einu sinni um hvað það fjallar og það er engin eftirsjá að því. En þetta verður allt til á DVD og maður getur horft á þetta á elliheimilinu þegar þar að kemur. Það er tilvalið að fá einhverja svona seríu í jólagjöf og þá getum maður geymt þær þangað til maður verður eldri,“ sagði Margrét.

Hún er flugfreyja hjá Icelandair og er í fullu starfi þar. „Þegar mótaskráin kemur út leggst ég yfir hana og reyni að raða mínum flugferðum niður í samræmi við leiki, enda eru vinnuveitendur mínir mjög skilningsríkir varðandi þetta. Ég kemst reyndar ekki á allar túrneringarnar og tel líka kannski betra að ná síðustu æfingu fyrir leiki og láta þá aðra um að fylgja liðinu í sjálfa leikina. Ég hef reynt að virkja foreldra mikið og það hefur gengið vel, en auðvitað er misjafnt hvað fólk leggur á sig. Fólk vill taka þátt í þessu starfi, það þarf bara að vera óhræddur við að biðja um aðstoðina. Maður má ekki hugsa þannig að maður sé ómissandi. Foreldrarnir hafa verið rosalega duglegir og mér finnst mikilvægt að þeir séu þátttakendur í þessu með stelpunum. Stelpurnar vita líka alveg hvað þær vilja.“

Keflvíkingar hafa verið áberandi á unglingalandsmótum UMFÍ um verslunarmannahelgar og jafnan staðið sig vel þar. „Þessi landsmót eru frábær. Við ákváðum að taka þátt í þessu og hafa þetta sem útilegu og öllum var frjálst að mæta. Það hefur alltaf fjölgað hjá okkur ár frá ári og þetta er voða gaman enda er það aðalmálið. Mér finnst að það ætti að vera skylda hvers foreldris að prófa að fara með krakkana sína á þetta mót. Ef það kemur í ljóst að það er ekki fyrir þau þá hafa þau í það minnsta reynt. Við erum alveg í essinu okkar á þessum mótum og okkur finnst þetta algjör snilld. Þetta þjappar líka foreldrahópnum meira saman,“ sagði Margrét.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.