ÞEIR eru efalaust margir Íslendingar sem eiga minningar tengdar jólaskeiðinni. Margir hafa alist upp við hana sem sjálfsagðan hluta jólahaldsins. Aðrir hafa kynnst henni í fínum jólaboðum hjá ömmu eða frænku þar sem spenningur ríkti yfir því hvaða gerð skeiðar maður fengi þessi jólin til að sporðrenna ananasfrómasinum, því sérstaða jólaskeiðanna er einmitt sú að engar tvær eru eins. Það er einmitt sú sérstaða sem er aðalviðfangsefnið á sýningu Hönnunarsafns Íslands á jólaskeiðinni eða öllu heldur jólaskeiðunum.
Allt frá árinu 1946 hefur Skartgripaverslun Guðlaugs A. Magnússonar selt jólaskeið. Íslenska jólaskeiðin er hugmynd sem Guðlaugur, sem verslunin er kennd við, fékk á námsárum sínum í Danmörku. Þar hafði hann kynnst dönsku jólaskeiðinni sem var upphaflega smíðuð 1910 af silfursmiðnum A. Michelsen. Eftir lát Guðlaugs 1952 hefur fjölskylda hans viðhaldið hefðinni og séð um að árlega komi ný jólaskeið. Hún er alltaf hugsuð sem hluti af tólf skeiða seríu sem formrænt er hönnuð sem heild. Þannig er form skeiðanna innan seríunnar eins en myndefnið breytilegt. Guðlaugur stofnaði að auki Gull- og silfursmiðjuna Ernu sem er enn þann dag í dag rekin af fjölskyldu Guðlaugs og frá árinu 2003 hefur hún smíðað sína eigin jólaskeið byggða á gömlu handverki.
Ennfremur ákvað Gull- og silfursmiðjan Erna að taka upp smíði á jólasveinaskeiðum og halda áfram að þróa eldri hugmynd um seríu jólasveinaskeiða en Eggert Guðmundsson listmálari hafði teiknað eina slíka árið 1952. Fyrstur til að teikna útlit og form jólaskeiðarinnar var Karl Guðmundsson útskurðarmeistari en aðrir sem hafa komið að hönnun myndefnis eru Jens Guðjónsson, Bárður Jóhannesson, Henrik Árnason Aunio, Stefán Snæbjörnsson, Erling Jóhannesson og Hanna Sigríður Magnúsdóttir. Í anda hugmyndanna um jólaskeið seldi Magnús E. Baldvinsson úrsmiður jólakaffiskeiðar sem voru smíðaðar í Málmiðjunni og teiknaðar af Sigfúsi Halldórssyni.
Á sýningu Hönnunarsafns Íslands er þessi saga sögð og þeir sem standa á bak við formgerð skeiðanna og myndskreytinga kynntir, eða þeir sem „hanna myndefnið“ eins og Hönnunarsafn Íslands kallar það í sýningarskrá. Þó skeiðin sé í sjálfu sér flestum kunnug þá hefur sagan að baki hennar verið falin eins og svo margt annað sem tengist íslenskri hönnun og handverkshefð. Hvort hér er um eiginlega hönnunarsýningu að ræða má alltaf vega og meta.
Sýningin er í anda þeirra áherslna sem Hönnunarsafn Íslands hefur hingað til unnið eftir, að vera ennfremur safn nytjalista eða listhandverks enda gefur enskt nafn safnsins það til kynna: „Museum of Design and Applied Art , Iceland“, þó á íslensku heiti það aðeins Hönnunarsafn Íslands.
Framsetning sýningarinnar er vönduð í alla staði og gefur tilfinningu fyrir því efni sem verið er að kynna. Hlutunum er fallega komið fyrir og umgjörð lita og efnisval viðfangsefninu vel við hæfi. Mikil vinna og alúð hefur verið lögð í að koma upplýsingum til skila og er það gert á smekklegan og hógværan hátt á veggspjöldum. Sýningunni fylgir lítill en vandaður sýningarbleðill, settur fram á skýran og einfaldan máta og styður vel við sýninguna en er eigulegur einn og sér. Sýningin gefur tilfinningu fyrir faglegu safnastarfi og manni tekst að gleyma nöturlegri staðsetningu sýningarsalarins.
Það er fengur í þessari sýningu því hún gefur ekki aðeins tilfinningu fyrir bakgrunni og sögu heldur rekur hún ennfremur á myndrænan hátt brot af stílsögu Íslendinga sem er annars lítt sýnileg. Sýningin byggist á þeim mikilvæga þætti safnastarfs að miðla þekkingu og maður fer af henni margs vísari.
Elísabet V. Ingvarsdóttir