Frumkvöðlar Hópur sem vinnur að stofnun fyrirtækja með aðstoð Nýsköpunarmiðstöðvar, Landsbanka og Samtaka starfsmanna fjármálafyrirtækja.
Frumkvöðlar Hópur sem vinnur að stofnun fyrirtækja með aðstoð Nýsköpunarmiðstöðvar, Landsbanka og Samtaka starfsmanna fjármálafyrirtækja. — Morgunblaðið/Valdís
Eftir Ingibjörgu B. Sveinsdóttur ingibjorg@mbl.is UM 70 umsóknir hafa borist um aðstöðu á Torginu við Austurvöll, viðskiptasetri Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands, frá því að það var opnað fyrir um það bil mánuði.

Eftir Ingibjörgu B. Sveinsdóttur

ingibjorg@mbl.is

UM 70 umsóknir hafa borist um aðstöðu á Torginu við Austurvöll, viðskiptasetri Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands, frá því að það var opnað fyrir um það bil mánuði. Aðstaðan er fyrir einstaklinga sem eru að skapa sér atvinnutækifæri með aðstoð Nýsköpunarmiðstöðvar, Landsbankans og Samtaka starfsmanna fjármálafyrirtækja, að sögn Berglindar Hallgrímsdóttur, framkvæmdastjóra Impru, deildar innan Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands.

Nú þegar hafa verið settar á laggirnar 11 starfsstöðvar á Torginu sem er í húsnæði sem Landsbankinn hafði á leigu. Ákveðið var að nýta það fyrir starfsemi sprotafyrirtækjanna sem er af margvíslegum toga. Þar eru meðal annars hreyfimyndagerð, vinnsla við táknmálsvef, iðn- og vöruhönnun, fjármálaráðgjöf og hugbúnaðarþróun svo eitthvað sé nefnt.

„Við hjálpum þeim að koma sér af stað og veitum þeim ráðgjöf og handleiðslu og greiðum úr þeim málum sem kunna að koma upp,“ segir Berglind.

Alls er gert ráð fyrir því að um 20 sprotafyrirtæki geti verið með aðstöðu á Torginu, að sögn Elvars Knúts Valssonar verkefnisstjóra en hann er einn þeirra sem veita sprotafyrirtækjunum ráðgjöf. „Það munu hins vegar verða um 30 starfsstöðvar fyrir sprotafyrirtæki í húsnæði Nýja Glitnis í Lækjargötu. Við erum að vinna að því að geta aðstoðað fleiri sprotafyrirtæki því að við höfum því miður þurft að vísa frá áhugaverðum hugmyndum. Vonandi getum við veitt fleiri frumkvöðlum og sprotafyrirtækjum svipaða aðstoð í náinni framtíð.“