Synjun Héraðsdómur Reykjavíkur hafnaði framlengdri greiðslustöðvun Baugs í gær. Stefán H. Hilmarsson, aðstoðarforstjóri Baugs, og Ragnar H. Hall, aðstoðarmaður Baugs í greiðslustöðvun, fóru yfir úrskurðinn í dómsal.
Synjun Héraðsdómur Reykjavíkur hafnaði framlengdri greiðslustöðvun Baugs í gær. Stefán H. Hilmarsson, aðstoðarforstjóri Baugs, og Ragnar H. Hall, aðstoðarmaður Baugs í greiðslustöðvun, fóru yfir úrskurðinn í dómsal. — Morgunblaðið/Golli
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
*Ráðagerðir Baugs þóttu ekki raunhæfar að mati héraðsdóms og stjórn félagsins tók ákvörðun um gjaldþrotaskipti síðdegis í gær *Skipti þrotabúsins geta tekið nokkur ár *Hefur engin áhrif á Hagkaup, Bónus og önnur dótturfélög Haga *Smærri fjármálafyrirtæki gætu tapað 50 milljörðum.

Eftir Þorbjörn Þórðarson

thorbjorn@mbl.is

Í KJÖLFAR úrskurðar Héraðsdóms Reykjavíkur í gær um að synja Baugi Group um áframhaldandi greiðslustöðvun tók stjórn Baugs Group þá ákvörðun að óska eftir því að félagið verði tekið til gjaldþrotaskipta. Beiðni um gjaldþrotaskipti tekur skamman tíma en skipti þrotabúsins gætu tekið nokkur ár.

Beðið eftir betri tíð

Það var niðurstaða Héraðsdóms Reykjavíkur að ráðagerðir Baugs væru ekki raunhæfar.

Markmið greiðslustöðvunar er að koma nýrri skipan á fjármál skuldara.

Í úrskurði dómsins segir að svo virðist sem Baugur telji nauðsynlegt að bíða um sinn og verja eignir í von um að úr muni rætast á fjármálamörkuðum. Einnig að Baugur telji nauðsynlegt að hefja nauðasamningsumleitanir. Dómarinn telur hvorugt þessara atriða sé til þess fallið að koma nýrri skipan á fjármál Baugs.

„Hið fyrra felur í raun í sér að bíða eftir betri tíð án þess að nokkuð sé hægt að segja til um hvenær hennar sé að vænta,“ segir í úrskurðinum.

Kristín Jóhannesdóttir, stjórnarformaður Baugs, segir í yfirlýsingu að niðurstaða héraðsdóms sé mikil vonbrigði og að stjórn Baugs telji að félagið uppfylli öll skilyrði fyrir áframhaldandi greiðslustöðvun. Jóhannes Jónsson, stjórnarmaður í Baugi, sagðist í samtali við blaðamann ekkert vilja tjá sig. Ekki náðist í Jón Ásgeir Jóhannesson þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir.

Eigið fé neikvætt um 148 milljarða króna

Fyrir ári lá fyrir að Baugur ætti í fjárhagserfiðleikum. Í mars í fyrra tók Kaupþing yfir fjármögnun Jane Norman verslanakeðjunnar og Landsbankinn keypti hlut í Iceland Foods. Jafnframt keyptu stóru bankarnir þrír verulegt magn eigna af Baugi til að félagið gæti greitt niður skuldir.

Í málflutningi á mánudaginn sl., þegar tekist var á um áframhaldandi greiðslustöðvun, sögðu lögmenn Íslandsbanka og skilanefndar Glitnis að ekkert lægi fyrir um raunhæfar aðgerðir Baugs til að standa í skilum og að fyrirliggjandi gögn bentu til þess að Baugi væri skylt að sækja þegar í stað um gjaldþrotaskipti. Því var haldið fram að stjórnendur Baugs hefðu blekkt kröfuhafa með því að gefa rangar og villandi upplýsingar um fjárhagsstöðu félagsins. Var bent á að samkvæmt yfirliti frá Baugi, frá því í janúar á þessu ári, væru skuldir Baugs umfram eignir 148 milljarðar króna.

Eignir færast í þrotabúið

Við gjaldþrot Baugs færast öll réttindi og allar skyldur yfir í þrotabúið. Dótturfélag Baugs í Bretlandi, BG Holding, hafði áður verið sett í greiðslustöðvun að beiðni Landsbankans og er undir stjórn PricewaterhouseCoopers. Með greiðslustöðvun BG Holding missti Baugur stjórn á verðmætustu eignum sínum í Bretlandi eins og verslanakeðjunni Iceland Foods, House of Fraser, Hamleys og fleiri félögum. Skilanefnd Landsbankans hefur sagt að ekki sé stefnan að selja eignir í Bretlandi strax. Ef um stórt og mikið þrotabú er að ræða, eins og hér um ræðir, geta gjaldþrotaskipti tekið nokkur ár. Ekki er því fyrirséð að beiðni Baugs um gjaldþrotaskipti muni fyrst um sinn hafa áhrif á störf fyrirtækja undir BG Holding í Bretlandi.

Mosaic Fashions er gjaldþrota, en Baugur átti helmingshlut í keðjunni sem var fjármagnaður af Kaupþingi. Nýtt félag, Aurora Fashions sem er í eigu Nýja Kaupþings og lykilstjórnenda Mosaic, hefur tekið yfir helstu eignir félagsins, það er Karen Millen, Warehouse, Oasis, Coast og Anoushka G. Straumur hefur jafnframt yfirtekið 75% hlut Baugs í M-Holding, sem á dönsku verslanakeðjurnar Magasin du Nord og Illum

Tap smærri kröfuhafa stórt

Smærri fjármálafyrirtæki eiga óöruggar veðkröfur á Baug upp á tæpar 314,6 milljónir punda, samkvæmt Project Sunrise, sérstakri áætlun um endurreisn Baugs sem kynnt var í janúar. Um er að ræða Sparisjóðabankann, Byr, SPRON, VBS fjárfestingarbanka og ýmis félög tengd Baugi, eins og Landic Property, Stoðir og Fons. Þessi félög gætu tapað allt að fimmtíu milljörðum króna vegna gjaldþrots Baugs. Smærri kröfuhafar höfðu áður óskað þess að fallið yrði frá greiðslustöðvun BG Holding í Bretlandi. Skilanefnd Landsbankans féllst ekki á þá bón.

Jón Þórisson, forstjóri VBS, segir ekki liggja fyrir hvort eða hversu miklu félagið muni tapa vegna gjaldþrots Baugs. Fjárhæðirnar séu þó ekki af þeirri stærðargráðu að þær muni ráða úrslitum um framtíð VBS. „Það eru að sjálfsögðu vonbrigði að svona sé komið fyrir Baugi. Hvað okkur varðar ræður staða málsins hins vegar engum úrslitum,“ segir Jón. Agnar Hansson, forstjóri Sparisjóðabankans, segir að hætt sé við því að kröfur smærri fjármálafyrirtækja á Baug verði að engu. Hann treystir sér hins vegar ekki til að fullyrða um tap Sparisjóðabankans.

SPRON á kröfur á Baug upp á á þriðja milljarð króna. Guðmundur Hauksson, forstjóri SPRON, segir gjaldþrot Baugs mikil vonbrigði. „Í þessu máli var löngu búið að gera ráð fyrir að brugðið gæti til beggja vona,“ segir hann.

„Við höfum alltaf gert ráð fyrir því versta,“ segir Ragnar Zophonías Guðjónsson, forstjóri Byrs, en kröfur Byrs eru á þriðja milljarð króna. Hann segir synjun um áframhaldandi greiðslustöðvun Baugs mikil vonbrigði en að Byr hefði gert ráðstafanir til þess að búa sig undir þessa niðurstöðu.

Hvað verður um Bónus?

Gjaldþrot Baugs mun að svo stöddu ekki hafa nein áhrif á starfsemi Haga, sem er móðurfélag Bónuss, Hagkaupa, 10-11, Útilífs og fleiri verslana. Þessar verslanir eru ekki undir Baugi Group því Hagar voru skildir frá Baugi í júlí í fyrra þegar Gaumur, eignarhaldsfélag Jóns Ásgeirs og fjölskyldu, keypti félagið, með fulltingi Kaupþings, sem fjármagnaði kaupin.

Hins vegar er hugsanlegt að kröfuhafar Baugs muni kanna möguleikann á því að rifta sölunni á Högum til Gaums ef sýnt er fram á að ekki hafi komið eðlilegt endurgjald fyrir. Söluverðið á Högum hefur ekki verið gefið upp. Ef verðið var í samræmi við markaðsverð fyrirtækisins í júlí síðastliðnum er krafa um riftun væntanlega haldlítil. Til þess að verjast hugsanlegri riftun geta forsvarsmenn Baugs sýnt fram á að félagið hafi verið gjaldfært á þeim tímapunkti er salan átti sér stað. Stjórnendur Baugs segja sjálfir að ekkert sé við söluna að athuga, hún hafi farið fyrir stjórn Baugs þar sem eigendur Gaums í stjórninni hafi vikið sæti og kaupverð hafi verið eðlilegt.

Frumkvöðlar í smásölu á Íslandi

Rætur Baugsveldisins liggja í opnun fyrstu Bónus-verslunarinnar. Feðgarnir Jón Ásgeir Jóhannesson og Jóhannes Jónsson opnuðu fyrstu verslunina í 400 fermetra húsnæði við Skútuvog laugardaginn 8. apríl 1989.

Innan fárra ára varð fyrirtækið meðal stærstu fyrirtækjanna í íslenskri smásöluverslun. Frá stofnun hefur það verið yfirlýst stefna fyrirtækisins að bjóða alltaf lægsta verð á markaðnum.

Árið 1992 keypti Hagkaup helmingshlut í Bónusverslununum. Ári seinna settu fyrirtækin á laggirnar innkaupa- og vörudreifingarfyrirtækið Baug. Árið 1998 sameinuðust síðan Bónus og Hagkaup í móðurfélaginu Baugi og Jón Ásgeir Jóhannessonar varð forstjóri sameinaðs félags. Við tók áframhaldandi vöxtur og útrás, en Baugur Group fékk í apríl á síðasta ári útflutningsverðlaun forseta Íslands árið 2008 fyrir forystuhlutverk sitt og árangur í íslensku útrásinni.