Kynjamunur Konum er mun hættara við árekstri á vægri ferð en óhöpp karla skýrast yfirleitt af því að of mikil áhætta hefur verið tekin.
Kynjamunur Konum er mun hættara við árekstri á vægri ferð en óhöpp karla skýrast yfirleitt af því að of mikil áhætta hefur verið tekin. — Morgunblaðið/Golli
Konur eru betri bílstjórar en karlmenn, að mati umferðaröryggis- og þjónustustofnunarinnar GEM Motoring Assist í Bretlandi. Í hlutfalli við heildarakstur kynjanna virðist lítill sem enginn munur á slysatíðni kynjanna.

Konur eru betri bílstjórar en karlmenn, að mati umferðaröryggis- og þjónustustofnunarinnar GEM Motoring Assist í Bretlandi. Í hlutfalli við heildarakstur kynjanna virðist lítill sem enginn munur á slysatíðni kynjanna.

Á það er hins vegar ekki hægt að líta, segir forstjóri stofnunarinnar og bendir á, að samkvæmt útreikningum Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar (WHO) bíði þrisvar sinnum fleiri karlar bana í umferðinni en konur.

Konum er mun hættara við árekstri á vægri ferð, sérstaklega á gatnamótum. Sjaldgæft er að dauðsfall verði í slíkum óhöppum og meiðsl yfirleitt lítilsháttar. Í tilvikum karla skýrast óhöppin yfirleitt af því að of mikil áhætta hefur verið tekin eða jafnvel umferðarlög brotin.

Karlar áttu í hlut í 87 prósentum mála sem lauk með sakfellingu fyrir umferðarlagabrot árið 2006. Og af þeim sem dæmdir voru fyrir vítaverðan glannaakstur voru karlar 96 prósent samkvæmt upplýsingum breska samgönguráðuneytisins.

Rannsóknir hafa leitt í ljós samband milli áhættusækni og testósterons. Af þessu hormóni er mörg hundruð sinnum meira í blóði karla en kvenna. Tölfræði tryggingafélaga sýnir að karlar 17 til 25 ára eru mun líklegri en aðrir til að koma við sögu umferðarslysa og hljóta refsingu fyrir umferðarlagabrot. Testósteron minnkar í blóði með aldrinum og ójöfnuður karla og kvenna sömuleiðis. Í aldurshópnum 25 ára og yngri deyja tvöfalt fleiri karlar í umferðinni en konur. Í aldurshópnum 60 ára og eldri er kynjamunurinn nánast horfinn. agas@mbl.is