Reiði Almenningur hefur brugðist hart við Icesave-samningunum. Samkvæmt bréfinu ættu fleiri að greiða fyrir Icesave en Íslendingar.
Reiði Almenningur hefur brugðist hart við Icesave-samningunum. Samkvæmt bréfinu ættu fleiri að greiða fyrir Icesave en Íslendingar.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sænska aðstoðarseðlabankastjóranum var sent bréf í desember þar sem segir að ESB og gistiríki útibúa verði að deila byrðum vegna Icesave. Ófullkomið regluverk hafi skipt miklu.

Eftir Þórð Snæ Júlíusson

thordur@mbl.is

Evrópusambandið (ESB) og þau ríki þar sem íslenskir bankar starfræktu útibú eiga að deila byrðunum sem fylgja falli íslenska bankakerfisins, og þeim gríðarlegu innstæðutryggingum sem því fylgdu, með Íslendingum. Þetta kemur fram í drögum að bréfi sem Frida Fallan, sérfræðingur í sænska seðlabankanum, sendi aðstoðarseðlabankastjóra sínum, Lars Nyberg, hinn 1. desember síðastliðinn. Heimildir Morgunblaðsins herma að bréfið hafi síðar borist til háttsettra aðila á Íslandi.

Orðrétt segir í bréfinu að „Ísland hefur komið verr út úr kreppunni en nokkuð annað Evrópuland, og er fyrir vikið þjakað af hrikalegri skuldabyrði. Því ættu sérstaklega gistiríki íslensku bankanna, og ESB-leiðtogar almennt, að viðurkenna að vandamál Íslands er ekki einungis tilkomið vegna óábyrgra lánveitinga og ófullnægjandi viðbragða íslenskra stjórnvalda, heldur að miklu leyti líka vegna úrelts eftirlitskerfis ESB.“ Bréf Fallan er skrifað sem viðbrögð við opnu bréfi sem birst hafði í Financial Times tveimur vikum fyrr þar sem fjallað var um ástandið á Íslandi. Í bréfinu, sem Morgunblaðið hefur undir höndum, fer Fallan víða. Hún rekur að gildandi regluverk ESB varðandi innstæðutryggingar hefði ekki breyst í takt við þá þróun sem varð í evrópskum fjármálaheimi með tilurð innri markaðar Evrópu. Ísland hafi verið aðili að „þessu fjarstæðukennda og úrelta regluverki [...] jafnvel þótt að landið sé ekki Evrópusambandsríki og hafi enga möguleika á að ákveða reglurnar. Spurningin er, skildu íslenskir stjórnmálamenn að fullu hvað fólst í lagatextunum? Meðhöndlun Íslands á ástandinu benda til þess að svo hafi ekki verið.“

Þarf tvo til að dansa

Það hafi hins vegar þurft tvo til að dansa og ábyrgðin á því sem gerðist á Íslandi liggi líka hjá ESB og gistiríkjum íslensku bankaútibúanna, Hollandi og Bretlandi. Fallan segir til dæmis að svo hafi virst sem að löndin tvö hafi vart haft fyrir því að upplýsa eigin þegna um hvernig innstæðutryggingakerfið virkaði. Ef þau sveitarfélög, ellilífeyrisþegar og aðrir innstæðueigendur Icesave hefðu vitað að þeir væru tryggðir af pínulitlum tryggingasjóði innstæðueigenda sem í væru smáaurar, en um 19 milljarðar voru í þeim íslenska, þá hefðu þeir líklega ekki sett peningana sína inn á reikningana til að byrja með. Þrátt fyrir að eftirlitsábyrgðin væri hjá íslenskum stjórnvöldum, þá gátu gistiríkin brugðist við og leiðrétt þann misskilning að íslenski tryggingasjóðurinn gæti bakkað upp Icesave-reikningana. Það var hins vegar ekki gert.