[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Greiðslubyrði ríkissjóðs vegna vaxta og afborgana af innlendum og erlendum lánum mun nema hundruðum milljarða króna, en heildarskuldir í árslok 2009 verða um 1.800 milljarðar.

Eftir Bjarna Ólafsson

bjarni@mbl.is

KOSTNAÐUR vegna vaxtagreiðslna og afborgana af skuldum ríkissjóðs mun nema hundruðum milljarða á ári hverju næstu fjórtán ár hið minnsta, samkvæmt upplýsingum í frumvarpi fjármálaráðherra um Icesave-samninginn. Mun hann nema rúmum 200 milljörðum í ár og tæpum 350 milljörðum árið 2011, þegar á gjalddaga koma tvö stór lán, sem tekin voru til að auka gjaldeyrisforða Seðlabankans.

Skuldastaða ríkissjóðs í árslok 2009 verður öllu verri en gert hafði verið ráð fyrir fyrr á þessu ári, samkvæmt upplýsingum fjármálaráðherra um Icesave-samninginn. Þar er gert ráð fyrir því að skuldir verði orðnar um 1.810 milljarðar króna í lok árs, en þær eru núna metnar á 1.455 milljarða. Er það með Icesave-skuldbindingunum, en án gjaldeyrislána Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (IMF) og Norðurlanda. Skuldirnar nú eru m.ö.o. 102% af vergri landsframleiðslu og verða orðnar um 125% af VLF í árslok. Til samanburðar voru skuldir ríkissjóðs í árslok 2007 um 311 milljarðar króna, eða um 23,4% af VLF. Sé lán IMF tekið með í reikninginn munu skuldir ríkissjóðs í árslok nema um 2.500 milljörðum króna. Rímar þetta mjög vel við útreikninga Morgunblaðsins, sem birtust í upphafi þessa árs.

Í eldri spá fjármálaráðuneytisins frá því í desember 2008 var hins vegar gert ráð fyrir því að skuldirnar (án IMF-lánsins) yrðu í árslok rúmir 1.400 milljarðar. Munurinn er því umtalsverður.

Þung greiðslubyrði

Eins og sjá má á meðfylgjandi mynd verða brúttógreiðslur vegna skulda ríkissjóðs afar miklar á næstu árum. Hafa ber þó í huga að í sumum tilfellum verða eignir á móti skuldum og þá verða önnur lán vafalaust endurfjármögnuð. Í frumvarpinu eru áðurnefnd gjaldeyrisforðalán Seðlabankans nefnd sem dæmi um slíkt. Þau koma á gjalddaga árið 2011 og nema samtals 1.300 milljónum evra (um 230 milljörðum króna). Umtalsverður hluti endurgreiðslunnar er varinn með eignum í gjaldeyrisforðanum, en reikna má með því að lánin verði endurfjármögnuð að hluta. Þetta sýnir að ekki má í öllum tilfellum líta svo á að árið 2013 renni 200 milljarðar króna nettó úr ríkissjóði, svo dæmi sé tekið. Hins vegar er ljóst að greiðslubyrðin næstu ár verður ríkinu afar þung, um eða yfir 10% af vergri landframleiðslu næstu níu árin hið minnsta. Það er fyrst árið 2022 sem áætlunin gerir ráð fyrir því að greiðslubyrði verði komin í 5% af vergri landsframleiðslu.

Heildartekjur ríkisins árið 2008 námu alls um 465 milljörðum króna, samkvæmt upplýsingum frá Hagstofunni. Þar af námu skattar á tekjur og hagnað fyrirtækja og einstaklinga um 156 milljörðum króna á verðlagi ársins 2008. Skattar á vöru og þjónustu námu um 181 milljarði. Því lætur nærri að ríflega allar skatttekjur af vörum og þjónustu muni fara í vaxtagreiðslur og afborganir næsta áratuginn.

Stór hluti í afborganir

Skatttekjur ríkisins árið 2008 námu alls um 353 milljörðum króna, sem er nánast sú fjárhæð, sem ríkið þarf að inna af hendi árið 2011 komi ekki til endurfjármögnunar á áðurnefndum gjaldeyrisforðalánum.

Rétt er að ítreka það sem sagt hefur verið að í greiðsluáætluninni er gert ráð fyrir brúttógreiðslum, og segir í frumvarpinu að á móti skuldum komi eignir, sem sumar séu tekjuberandi. Samanburður á tekjum ríkissjóðs og greiðslubyrði gefur hins vegar til kynna að staðan sé alvarleg.

Eins og sjá má á skýringarmyndinni er hlutfall erlendra skulda af heildarskuldum ríkissjóðs frekar hátt. Erlend lán eru greidd með erlendum tekjum þjóðarbúsins. Er skuldaþolið því meira eftir því sem viðskiptajöfnuður er jákvæðari, eins og tekið er til orða í frumvarpinu. Þróun efnahagsmála á tímabilinu mun því skipta sköpum um það hve hratt verður hægt að greiða niður erlendar skuldir.

Af þessu má líka ráða, eins og fjármálaráðherra hefur reyndar margoft sagt, að grundvallaratriði er að jafna rekstur ríkissjóðs hið fyrsta. Svo lengi sem hann er rekinn með halla bætist á skuldir ríkissjóðs og má ljóst vera að takmörk eru fyrir því hve mikið er hægt að leggja á herðar hans í viðbót.

Samkvæmt fjárlögum verður halli ríkissjóðs ríflega 150 milljarðar í ár og er ekki gert ráð fyrir því í áætlunum fjármálaráðuneytisins að afgangur verði af rekstri ríkissjóðs fyrr en árið 2013.

Þá verður að teljast athyglisvert að í áætlun ráðuneytisins er eitt meginmarkmiða ríkisstjórnarinnar að til lengri tíma litið verði skuldir ríkissjóðs ekki meiri en 60% af vergri landsframleiðslu. Eins og áður hefur verið getið var skuldastaða ríkissjóðs um 23,4% af VLF í árslok 2007.

Greiðslugetan háð styrk hagkerfisins

Í UMRÆÐU um greiðslubyrði verður að sjálfsögðu að horfa á greiðslugetu skuldarans, í þessu tilviki íslenska ríkisins. Afar erfitt er hins vegar að meta greiðslugetu ríkisins, enda fer hún eftir þróun efnahagsmála á næstu árum og áratugum. Því sterkara sem hagkerfi er því meiri er greiðslugetan.

Jón Daníelsson, prófessor við London School of Economics, hefur gagnrýnt þann samning, sem gerður hefur verið við Breta og Hollendinga um Icesave. „Greiðslugeta ríkisins ræðst af framþróun efnahagslífsins. Með góðum samningi við Breta og Hollendinga eru miklu meiri líkur á því að efnahagslífið standi betur en ella og að greiðslugeta ríkisins verði meiri,“ segir hann.

Einn mælikvarði á greiðslugetu fyrirtækja og þjóðríkja er lánshæfiseinkunn, sem sérstök matsfyrirtæki veita þessum aðilum. Í kjölfar bankahrunsins lækkuðu öll matsfyrirtæki einkunn íslenska ríkisins mikið og hefur hún aldrei verið lægri. Í frumvarpi fjármálaráðherra segir að með Icesave-samningnum sé óvissu um skuldastöðu ríkisins eytt og því hafi hann góð áhrif á lánshæfi.

„Vissulega er það rétt að neiti Íslendingar að semja um úrlausn Icesave-málsins myndi það skapa töluverða óvissu um lánshæfi ríkisins og gengi krónunnar. Það að Alþingi hafni þessum tiltekna samningi núna myndi hins vegar ekki hafa slík áhrif. Ef hægt væri að komast að betri samningi í framtíðinni myndi það hafa jákvæð áhrif á lánshæfismatið,“ segir Jón.