2. september 2009 | Innlendar fréttir | 187 orð | 1 mynd

Andlát

Ingvi S. Ingvarsson

INGVI Sigurður Ingvarsson, fyrrverandi ráðuneytisstjóri og sendiherra, andaðist á Landspítalanum 26. ágúst á 85. aldursári. Ingvi var fæddur 12. desember 1924 í Reykjavík, sonur Guðrúnar Jónasdóttur húsfreyju og Ingvars Ingvarssonar bónda.
INGVI Sigurður Ingvarsson, fyrrverandi ráðuneytisstjóri og sendiherra, andaðist á Landspítalanum 26. ágúst á 85. aldursári.

Ingvi var fæddur 12. desember 1924 í Reykjavík, sonur Guðrúnar Jónasdóttur húsfreyju og Ingvars Ingvarssonar bónda.

Ingvi lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri árið 1945 og stundaði nám við viðskiptadeild Háskóla Íslands. Hann lauk MA-prófi í hagfræði frá Háskólanum í Glasgow 1949 og framhaldsnámi frá London School of Economics.

Ingvi starfaði hjá Skattstofunni í Reykjavík, Sendiráði Bandaríkjanna og hjá Skipaútgerð ríkisins áður en hann var ráðinn fulltrúi í utanríkisráðuneytinu 1956. Þá hófst ferill hans í utanríkisþjónustunni og gegndi Ingvi mörgum trúnaðarstörfum í henni. Hann var m.a. sendiráðsritari í Moskvu, sendiráðunautur í Washington D.C., varafastafulltrúi NATO í París og í Brussel og skrifstofustjóri í utanríkisráðuneytinu.

Ingvi var sendiherra og fastafulltrúi hjá Sameinuðu þjóðunum og sendiherra í Svíþjóð, Danmörku og Bandaríkjunum og hjá þjóðum sem undir sendiráðin heyra. Þá var hann ráðuneytisstjóri utanríkisráðuneytisins 1982-1986.

Ingvi var um tíma formaður Félags Sameinuðu þjóðanna á Íslandi. Hann hlaut stórriddarakross Fálkaorðunnar með stjörnu 1982 og stórkrossa frá þjóðhöfðingjum sex erlendra ríkja.

Eftirlifandi eiginkona Ingva er Hólmfríður Guðlaug Jónsdóttir húsmóðir, barn þeirra er Bergljót Kristín, uppeldisfræðingur og kennari.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.