Heilsubælið Í endurnýjun lífdaga.
Heilsubælið Í endurnýjun lífdaga.
FYRRI þáttaröðin af Heilsubælinu er komin út á mynddiski með aukaefni. Þættirnir voru framleiddir af Gríniðjunni og Íslenska sjónvarpsfélaginu árið 1987 og urðu samtals átta.

FYRRI þáttaröðin af Heilsubælinu er komin út á mynddiski með aukaefni. Þættirnir voru framleiddir af Gríniðjunni og Íslenska sjónvarpsfélaginu árið 1987 og urðu samtals átta. Í þeim segir frá furðulegu starfsfólki og sjúklingum Heilsubælisins í Gervahverfi.

Edda Björgvinsdóttir skrifaði þættina ásamt Ladda og Gísla Rúnari. Hún bjóst ekki við að þeir yrðu svona langlífir. „Það er alltaf svo mikil ráðgáta þegar maður kemur nálægt hlutum hversu vinsælt efnið verður. Ég bjóst ekki við að Heilsubælið , Stella í orlofi og Áramótaskaupið 1984 yrði það sem lítil börn 2009 hrópa á mann út á götu út af,“ segir Edda. „Það er ómögulegt að segja með grín hvort það verður költ og trend, Heilsubælið virðist hafa orðið það, það lifir sem er æðislega skemmtilegt enda lögðum við sál okkar í þetta,“ segir Edda.

Spurð að því af hverju hún haldi að það sé enn svona vinsælt segir Edda að það sé líklega einum manni mikið að þakka. „Óneitanlega horfir maður á einn mann sem heitir Þórhallur Sigurðsson, Laddi, sem er búinn að vera snillingur í áratugi og einn af þeim sem að þjóðin hefur elskað út af lífinu alla tíð. Þarna sýnir hann ótrúlega snilld en auðvitað eru allir leikararnir með takta sem ég vildi flokka undir snilldartakta,“ segir Edda og blaðamaður bætir við að hún sé þar með talin. „Þakka þér fyrir, gott að þú sagðir það,“ segir hún og hlær.

Laddi fer með hlutverk Dr. Saxa í Heilsubælinu en aðrir leikarar í þáttunum eru, ásamt honum og Eddu, Gísli Rúnar, Pálmi Gestsson og Júlíus Brjánsson. ingveldur@mbl.is