23. desember 2009 | Íþróttir | 1177 orð | 5 myndir

Spennan magnast

• Sex lið skera sig úr í úrvalsdeild karla í körfubolta • Fjölnir og Breiðablik á hættusvæði • Fátt getur bjargað FSu • Erlendir leikmenn gætu breytt miklu

Skytta Justin Shouse, leikstjórnandi Stjörnunnar, kann vel við sig á toppi Iceland Express-deildarinnar.
Skytta Justin Shouse, leikstjórnandi Stjörnunnar, kann vel við sig á toppi Iceland Express-deildarinnar. — Morgunblaðið/hag
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
ÞEGAR úrvalsdeild karla í körfuknattleik er hálfnuð er ljóst að sex efstu liðin skera sig úr og virðast vera nokkuð jöfn að getu.
ÞEGAR úrvalsdeild karla í körfuknattleik er hálfnuð er ljóst að sex efstu liðin skera sig úr og virðast vera nokkuð jöfn að getu. Fimm næstu lið þar á eftir verða í baráttu um að falla ekki með FSu í næstefstu deild. FSu hefur enn ekki unnið leik og engar líkur á því að það breytist í næstu 11 leikjum. Stjarnan er á toppi deildarinnar en liðið hefur komið verulega á óvart. Njarðvík og KR eru með sama stigafjölda og Stjarnan í næstu sætum þar fyrir neðan.

Íslandsmótið hefur farið ágætlega af stað en það er ekki eins mikil spenna í loftinu og fyrir ári.

„Ofurlið“ KR var þá helsta fréttaefnið með þá Jón Arnór Stefánsson, Jakob Örn Sigurðarson og Helga Má Magnússon í aðalhlutverkum. Logi Gunnarsson sneri einnig heim úr atvinnumennsku og lék með sínu gamla liði Njarðvík. Landsliðsmennirnir fjórir sem nefndir voru til sögunnar hér á undan eru allir farnir frá Íslandi.

Grindvíkingar hafa ekki náð sér á strik

Það eru nokkur atriði sem hafa komið á óvart á fyrri hluta tímabilsins. Grindvíkingar hafa alls ekki náð sér á strik en liðið var hársbreidd frá því að tryggja sér Íslandsmeistaratitilinn sl. vor gegn KR. Grindavík hefur tapað 4 leikjum af alls 11 eftir að hafa fagnað sigri í fyrirtækjabikarkeppni KKÍ í upphafi tímabilsins. Friðrik Ragnarsson þjálfari Grindavíkur valdi þann kost að fá Darrel Flake frá Bandaríkjum í stað landa hans Amani Bin Daanish sem lék þrjá deildarleiki með Grindavík. Nokkrir af lykilmönnum Grindavíkur eiga talsvert mikið inni á flestum sviðum og má þar nefna Pál Axel Vilbergsson og Arnar Frey Jónsson. Grindvíkingar eru eflaust rólegir yfir þessu öllu saman enda nóg eftir að tímabilinu og langt þar til að úrslitakeppnin hefst.

Skilar Kínaferð KR árangri?

Sá sem þetta ritar hefur séð töluvert marga leiki með Íslandsmeistaraliði KR í vetur – og er óhætt að segja að liðið á töluvert í land. Sóknarleikur liðsins er alls ekki nógu góður og erlendu leikmenn liðsins hafa ekki sýnt þann stöðugleika sem krafist er af þeim. Páll Kolbeinsson vonast eflaust til þess að ævintýraferð liðsins til Kína nýverið skili sér á síðari hluta tímabilsins.

Það er mitt mat að Keflavík eigi eftir að landa góðum erlendum leikmanni á næstu vikum en fáir eiga eftir að muna eftir Rahson Clark þegar fram líða stundir. Clark stóð aldrei undir væntingum og ég er ekki frá því að liðið hafi leikið betur eftir að Keflvíkingar sendu hann vestur um haf á ný. Keflavík mun án efa landa góðum bandarískum leikmanni. Nóg er framboðið og sagan segir að frábærir leikmenn séu tilbúnir að leika fyrir nánast ekki neitt. Atvinnulið á meginlandi Evrópu hafa átt í fjárhagsvandræðum og miklar sviptingar eiga sér stað á leikmannamarkaðinum á næstu tveimur til þremur vikum.

Nýr leikmaður gæti breytt miklu hjá Tindastóli

ÍR, Hamar og Tindastóll munu berjast um sæti 7-8, en átta efstu liðin komast í úrslitakeppnina. ÍR er með fínt lið á „pappírnum“ en það hefur ekki skilað sér í baráttuna úti á vellinum. Tvíeykið Marvin Valdimarsson og Andre Dabney halda sóknarleik Hamars á floti en þeir eru í 2. og 3. sæti yfir stigahæstu leikmenn deildarinnar. Vandamál Hamars er að liðið er ekki líklegt til afreka þegar skytturnar tvær eiga slæma leiki.

Tindastóll rak á dögunum bandaríska leikmanninn Amani Bin Daanish en hann afrekaði það að vera rekinn frá tveimur liðum á aðeins tveimur mánuðum – en hann landaði einum titli með Grindavík í fyrirtækjabikarkeppninni. Tindastóll mun eflaust reyna að krækja í góðan bandarískan leikmanna á næstu vikum. Ef þeir hafa heppnina með sér er aldrei að vita nema að liðið nái sér á strik á síðari hluta deildarinnar.

Fjölnir og Breiðablik eru bæði með 4 stig eftir 11 leiki. Það er nokkuð ljóst að þessi lið munu berjast um að forðast fall í 1. deild. Fjölnisliðið er með áhugaverða leikmenn í sínum röðum. Má þar nefna Ægi Þór Steinarsson sem er í öðru sæti á stoðsendingalistanum. Breiðablik á ekki leikmann sem kemst á topp 10 lista í stigaskorun, fráköstum eða stoðsendingum.

Justin Shouse í sérflokki?

Erlendir leikmenn setja svip sinn á deildina líkt og áður. Að mínu mati er Justin Shouse, leikmaður Stjörnunnar, sá leikmaður sem flest lið væru til í að hafa í sínum röðum. Shouse er klókur og stýrir einföldum sóknarleik Stjörnunnar af festu. Hann er stigahæsti leikmaður deildarinnar en að auki er hann í fimmta sæti yfir þá sem gefa flestar stoðsendingar. Varnarleikurinn vefst ekki fyrir Shouse frekar en öllu Stjörnuliðinu. seth@mbl.is

Úrvalsdeild karla

Staðan:

Stjarnan 1192951:86018

Njarðvík 1192942:79318

KR 11921020:90018

Keflavík 1183973:83616

Grindavík 1174996:86514

Snæfell 11741010:88314

ÍR 1156908:94510

Hamar 1147902:9488

Tindastóll 1147915:9448

Breiðablik 1129829:9744

Fjölnir 1129837:9764

FSu 11011706:10650

„Miklu betri frákastari en Hlynur“

„ÉG borða selkjöt reglulega en ég er miklu betri frákastari en Hlynur Bæringsson,“ sagði Sigurður Gunnar Þorsteinsson sem hefur náð að hirða 21 frákast í leik líkt og Hlynur Bæringsson, leikmaður Snæfells, á þessari leiktíð.

Sigurður er ekki nema 21 árs en hann er 2,04 m á hæð og líkamlega sterkur. „Ég man nú ekki hvort þetta er persónulegt met en ég er alltaf með hugann við það að ná sem flestum fráköstum. Þannig hjálpar maður liðinu að ná árangri.“ Sigurður er fæddur á Ísafirði og lék með KFÍ þar til hann skipti yfir í Keflavík. Hann segir að það séu engin leyndarmál á bak við að ná fráköstum. „Það er vissulega kostur að vera stór og sterkur þegar maður ætlar að ná frákasti. En það skiptir meira máli að vera á réttum stað, fylgjast með boltanum og koma sér á réttu staðina undir körfunni,“ bætti Sigurður við. seth@mbl.is

„Get sagt barnabörnunum sögu“

„ÉG hugsa ekki um leikinn nema þegar blaðamenn hringja og rifja þetta upp,“ sagði Marvin Valdimarsson, leikmaður Hamars, sem gerði sér lítið fyrir og skoraði 51 stig í 111:74 sigri liðsins gegn FSu hinn 18. október. „Ég get sagt barnabörnunum sögur af þessu þegar ég verð eldri og ég mun eflaust nudda salti í sárin á bróður mínum, Sæmundi, í næsta jólaboði en hann er leikmaður í FSu. Reyndar náði Sæmundur að stoppa mig í þessum leik en hann spilaði vörnina gegn mér í 4-5 sóknir og ég skoraði ekkert á þeim tíma,“ sagði Marvin Valdimarsson, leikmaður Hamars, en hann skoraði flest stig í einum leik á fyrri hluta tímabilsins.

Afrek Marvins er nokkuð sérstakt því hann og Valur Ingimundarson eru einu íslensku leikmennirnir sem hafa náð að skora 50 stig eða meira í einum leik í úrvalsdeild karla. seth@mbl.is

„Fáránlegt hvað ég treð sjaldan“

„ÞAÐ er alltaf gaman að skila af sér góðri tölfræði og sérstaklega í sigurleik,“ sagði Hlynur Bæringsson, leikmaður Snæfells, en hann tekur flest fráköst að meðaltali í deildinni, 15,2 að meðaltali. Hlynur tók 21 frákast gegn Breiðabliki 19. október. Hlynur segir að góðar staðsetningar og sæmilegur líkamsstyrkur sé það sem skipti mestu máli þegar komi að fráköstunum. „Það eru fáir sem ná fráköstunum fyrir ofan körfuhringinn. Þetta er bara barátta um boltann en ég þarf að fara að troða oftar í leikjum. Það er alveg fáránlegt hvað ég treð sjaldan.“ Hlynur telur að það sé einnig kostur að vera frá Vesturlandi eða Vestfjörðum þegar kemur að fráköstunum. „Ég er miklu betri en Sigurður Þorsteinsson. Ekki spurning. Hann er reyndar allur að koma til enda alinn upp á selshreifum og slíku – líkt og ég,“ sagði Hlynur í léttum tón.

seth@mbl.is

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.