— Morgunblaðið/Skapti Hallgrímsson
Áfengisverslun ríkisins hóf að framleiða Íslenskt Brennivín 1935, eftir að áfengisbanni var aflétt hér á landi, en 1992 var framleiðslan seld. Í dag er það dótturfélag Ölgerðarinnar sem framleiðir mjöðinn í Borgarnesi. Brennivín er um 40% að styrkleika.

Áfengisverslun ríkisins hóf að framleiða Íslenskt Brennivín 1935, eftir að áfengisbanni var aflétt hér á landi, en 1992 var framleiðslan seld. Í dag er það dótturfélag Ölgerðarinnar sem framleiðir mjöðinn í Borgarnesi. Brennivín er um 40% að styrkleika. Drykkurinn er vinsæll á þorranum og gjarnan nefndur í sömu andrá og hákarl.

Þegar framleiðsla Brennivíns hófst þótti yfirvöldum nauðsynlegt að sporna við áfengisdrykkju af fremsta megni þrátt fyrir allt og meðal annars þess vegna var ákveðið að miðinn á Brennivínsflöskunni yrði eins óaðlaðandi og mögulegt væri. Svarti miðinn, sem enn „prýðir“ flöskuna, varð þá fyrir valinu og er ástæða þess að mjöðurinn er oft kallaður Svarti dauði.

Brennivín er unnið eftir alíslenskri uppskrift sem verið hefur óbreytt frá upphafi; áberandi er keimur af kúmeni, en í drykkinn er notaður kornspíri og ýmis bragðefni, ásamt íslensku vatni, nema hvað. Íslensk alþýða hefur í gegnum tíðina gjarnan drukkið Brennivín blandað saman við kók en það er ekki einhlítt. Blandan 3 cl Brennivín og 6 cl sterkt kaffi er stundum kallað hreppstjórakaffi svo dæmi sé tekið. Á þorranum er líklega algengast að snafsinn sé drukkinn ískaldur og hnausþykkur. Menn stinga þá gjarnan flösku í frysti tímanlega fyrir bóndadaginn. skapti@mbl.is