HÍ Jarðvísindi sækja í sig veðrið.
HÍ Jarðvísindi sækja í sig veðrið. — Morgunblaðið/Kristinn.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Halldór Armand Ásgeirsson haa@mbl.is Umsóknum hefur fjölgað umtalsvert í jarðvísindadeild Háskóla Íslands fyrir næsta skólaár. Svo virðist sem eldgosið í Eyjafjallajökli hafi kveikt neista hjá fólki og umsóknir hafa aldrei verið fleiri.

Halldór Armand Ásgeirsson

haa@mbl.is

Umsóknum hefur fjölgað umtalsvert í jarðvísindadeild Háskóla Íslands fyrir næsta skólaár. Svo virðist sem eldgosið í Eyjafjallajökli hafi kveikt neista hjá fólki og umsóknir hafa aldrei verið fleiri. Í sumar hafa 48 umsóknir um nám í jarðfræði borist og 13 í jarðeðlisfræði. Í fyrra voru þær 39 í jarðfræði og 6 í jarðeðlisfræði og því ljóst að umsóknum hefur fjölgað um 23% í jarðfræði og 117% í jarðeðlisfræði.

„Þetta eru vissulega stórar tölur fyrir lítið fag eins og jarðvísindin eru hérna í Háskólanum. Reyndar var einnig mikil aukning í fyrra og við röktum hana til kreppunnar. Núna virðist hins vegar gosið í Eyjafjallajökli og allt umstangið í kringum það hafa vakið áhuga fólks,“ segir Hreggviður Norðdahl, varaforseti jarðvísindadeildar HÍ.

Inni í þessum tölum eru ekki erlendir nemendur sem koma hingað til lands og læra á ensku um jarðfræði Íslands í eina til tvær annir. Að sögn Hreggviðar er fjöldi þeirra iðulega svipaður og nemenda í venjulega náminu. Til samanburðar má geta þess að árið 2006 voru 4 umsóknir í jarðeðlisfræði og 18 í jarðfræði.

  • Umsóknum hefur fjölgað um 23% í jarðfræði frá síðasta ári og 117% í jarðeðlisfræði.