Skarpheiður Gunnlaugsdóttir fæddist á Efri-Torfustöðum í Miðfirði, V-Hún., 24. október 1921. Hún lést á dvalarheimilinu Höfða á Akranesi 10. mars 2011. Foreldrar Skarpheiðar voru Gunnlaugur Pétur Sigurbjörnsson, f. 18. feb. 1893, d. 1969, og Agnes Magnúsdóttir, f. 16. okt. 1893, d. 1922. Eftir móðurmissinn gekk Halldóra Ólafsdóttir, f. 1. feb. 1880, d. 1959, Skarpheiði í móðurstað en seinni kona Gunnlaugs, Soffía Jensdóttir, f. 18. ág. 1883, d. 1976, reyndist henni einnig mjög vel. Skarpheiður átti tvö eldri systkini, þau Guðbjörgu Sigurlaugu, f. 18. maí 1919, d. 1993, og Magnús Benedikt, f. 29. ág. 1920, d. 2009.

Þann 22. feb. 1947 giftist Skarpheiður Þórði Jónssyni, f. 26. apríl 1920, d. 11. jan. 1991, og eignuðust þau dótturina Agnesi Sigrúnu 27. september sama ár. Agnes lést aðeins 43ja ára að aldri úr krabbameini 27. jan. 1991. Árið 1948 fluttust Skarpheiður og Þórður til Akraness og bjuggu þar alla tíð síðan. Á Akranesi fæddist þeim yngri dóttirin Soffía Gunnlaug, 18. feb. 1949. Barnabörnin eru fjögur, dóttir Agnesar og sambýlismanns hennar, Guðna Björgólfssonar, f. 8. ág. 1949, er Anna Guðnadóttir, f. 13. mars 1970, en börn Soffíu og eiginmanns hennar, Böðvars Sigurvins Björnssonar, f. 24. jan. 1946, eru: Ólafur Valdimars, f. 5. apríl 1974, Guðrún Hlíf, f. 16. apríl 1972, og Árný Rós, f. 15. ág. 1982. Alls eru langömmubörn Skarpheiðar sjö og eitt langalangömmubarn.

Minningarathöfn um Skarpheiði var haldin í Akraneskirkju 18. mars 2011. Útförin var gerð frá Melstaðarkirkju í Miðfirði 19. mars 2011.

Skrifuð á blað

verður hún væmin

bænin

sem ég bið þér

en geymd

í hugskoti

slípast hún

eins og perla í skel

við hverja hugsun

sem hvarflar til þín.

(Hrafn Andrés Harðarson.)

Þegar við systurnar vorum litlar þá gaf Þórður hennar Skarpheiðar okkur það að gjöf að kalla sig afa, þar sem við urðum ekki þeirrar gæfu aðnjótandi að kynnast okkar eigin öfum. Það lá því beinast við að Skarpheiður ömmusystir okkar yrði þá amma. Amma á Skaga var einstök kona, hún hafði alltaf mikinn áhuga á því sem við vorum að brasa í lífinu og fylgdist vel með okkur öllum. En eins og lífið getur verið óútreiknanlegt þá er þó eitt sem er alveg öruggt en það er að tími okkar hér er ekki endalaus. Það sem við vitum þó sjaldnast er hvenær kallið kemur. Nú hefur æðri máttarvöldum þótt tími ömmu á Skaga vera kominn eða kannski var það bara afi sem var farið að lengja eftir henni enda komin 20 ár síðan þau sáust síðast.

Við sem eftir sitjum eigum fullt af minningum um þau ömmu og afa sem eiga eftir að ylja okkur um ókomna tíð. Stiginn á Stillholtinu þar sem við renndum okkur ófáar ferðirnar fullorðna fólkinu til skelfingar. Tuskubangsinn Höskuldur sem hafði svo notalega nærveru. Höskuldur fékk líka ófáar salibunurnar niður stigann á Stillholtinu með okkur systrum. Í eldhúsinu hjá ömmu var að finna dótaskúffu sem vakti alltaf jafnmikla athygli í hvert skipti sem við komum í heimsókn og pokinn undir stofusófanum sem var fullur af litlum spýtum sem við gátum endalaust byggt úr. Askurinn sem var fullur af kandís og kóngabrjóstsykri sem við gæddum okkur á í hverri heimsókn.

Örbylgjupitsurnar sem amma átti handa okkur unga fólkinu og vanilluísinn og kokteilávextirnir sem alltaf voru til í eldhúsinu hjá ömmu, líka á Höfða. Alltaf hafði hún það viðkvæði hvort við gætum nú ekki hjálpað henni að klára ísinn svo að hann skemmdist ekki (þó svo að ísinn væri langt frá því að skemmast). Það var því svolítið skrýtið þegar Stillholtið var selt fyrir nokkrum árum og amma flutti í litla íbúð í Háholtinu. En í Háholtinu var sama notalega andrúmsloftið og það fylgdi ömmu líka inn á Höfða nokkrum árum seinna.

Við systurnar viljum þakka ömmu fyrir ómetanlegan tíma sem við áttum með henni og afa þegar við vorum að alast upp. Við trúum því að amma og afi ásamt öllu hinu Torfustaðafólkinu séu nú saman komin á góðum stað og taki á móti okkur þegar okkar tími kemur. Við sendum fjölskyldu ömmu á Skaga innilegar samúðarkveðjur.

Nú legg ég augun aftur,

ó, Guð, þinn náðarkraftur

mín veri vörn í nótt.

Æ, virst mig að þér taka,

mér yfir láttu vaka

þinn engil, svo ég sofi rótt.

(Sveinbjörn Egilsson.)

Inga Rut og Valbjörg Rós.

Nú er Skarpheiður farin heim til drottins og vil ég þakka henni fyrir allt sem hún var okkur börnunum í Lykkju. Hún var konan hans Þórðar frænda og okkur eins og önnur móðir, glaðlynd og glettin, ástúðleg og indæl.

Það sem hún lagði inn í bernskudaga okkar og æsku, var alltaf eitthvað sem gladdi og brá hlýjum ljósgeislum yfir lífið smáa sem var að vaxa upp.

Skarpheiður var skáldmælt sem fleiri í hennar ætt og ég vil kveðja hana með ljóði sem henni þótti afskaplega vænt um, liljunni í holtinu. Fyrri erindin tvö eru eftir Þorstein Gíslason, en Skarpheiði fannst eitthvað á vanta og orti hún því þriðja erindið og vissulega kemur það inn á það kjarnaatriði í lífinu sem lýsir Skarpheiði svo vel og því sem var alltaf hennar hjartans mál, trúin á Guð og Jesúm Krist.

Ég leit eina lilju í holti,

hún lifði hjá steinum á mel.

Svo blíð og svo björt og svo auðmjúk

– en blettinn sinn prýddi hún vel.

Ég veit það er úti um engin

mörg önnur sem glitrar og skín.

Ég þræti ekki um litinn né ljómann

en liljan í holtinu er mín!

Þessi lilja er mín lifandi trú,

þessi lilja er mín lifandi trú.

Hún er ljós mitt og von mín og yndi.

Þessi lilja er mín lifandi trú!

Og þó að í vindinum visni,

á völlum og engjum hvert blóm.

Og haustvindar blási um heiðar,

með hörðum og deyðandi róm.

Og veturinn komi með kulda

og klaka og hríðar og snjó.

Hún lifir í hug mér sú lilja

og líf hennar veitir mér fró.

Þessi lilja er mér gefin af guði

hún grær við hans kærleik og náð,

að vökva hana ætíð og vernda

er vilja míns dýrasta ráð.

Og hvar sem að leiðin mín liggur

þá liljuna í hjartastað ber,

en missi ég liljuna ljúfu

Þá lífið er horfið frá mér.

(Þorsteinn Gíslason.)

Skarpheiður missti aldrei liljuna sína og ber hana nú í fullum blóma með sér inn í friðarríki guðs. Blessuð sé minning hennar nú og ætíð.

Guðrún Hrólfsdóttir.

Hinsta kveðja

Ég vil þakka Skarpheiði samfylgdina á lífsleiðinni og allt sem hún gerði fyrir mig og mína. Slík samfylgd gleymist ekki - minningarnar skína!

Guðrún Jónasdóttir.