Örn Arnarson orti: „Oft er viss í sinni sök, sá er ekkert skilur.“ Ef til vill er þetta ofmælt, en hitt hefur ósjaldan gerst, að þeir, sem vissastir eru í sinni sök, hafi reynst jafnskeikulir og við hin.

Örn Arnarson orti: „Oft er viss í sinni sök, sá er ekkert skilur.“ Ef til vill er þetta ofmælt, en hitt hefur ósjaldan gerst, að þeir, sem vissastir eru í sinni sök, hafi reynst jafnskeikulir og við hin.

Frægt var, þegar Þórbergur Þórðarson átti tal við dr. Guðmund Finnbogason landsbókavörð á Hótel Borg 13. september 1939. Stalín hafði þá nýlega gert griðasáttmála við Hitler, sem taldi sér eftir það óhætt að ráðast á Pólland úr vestri, en það hleypti af stað stríði við Breta og Frakka. Guðmundur sagði þess ekki langt að bíða, að Stalín færi í stríðið með Hitler.

Þórbergur mælti þá (að eigin sögn): „Ef Rússar fara í stríð með nasistum, þá hengi ég mig.“ Aðrir kváðu hann hafa sagt: „Ef Rússar ráðast með herafla á Póllandi, þá hengi ég mig.“ Fjórum dögum síðar réðst Stalín á Pólland úr austri. Var þá ort:

Er Þórbergur lífs eða liðinn?

Var lykkjan af hálsinum sniðin?

Hér lagðist smátt fyrir halinn

að hengja sig fyrir Stalin.

Sem betur fer hengdi Þórbergur sig ekki, enda átti hann margar góðar bækur eftir óskrifaðar.

Annað dæmi um þá seinheppni, sem mætti líka nefna kokhreysti, var, þegar Halldór Kiljan Laxness hlaut vorið 1955 bókmenntaverðlaun danskra kommúnista. Skrifaði einn kommúnistinn, Hans Kirk, 26. júní í blað þeirra, Land og folk : „Til eru önnur bókmenntaverðlaun, sem Gorkíj fékk aldrei og því síður Martin Andersen Nexø og Laxness á sennilega ekki heldur eftir að hljóta. Þetta eru Nóbelsverðlaunin, sem veitt eru af nokkrum ellisljóum, smáborgaralegum, jafnvel nasískum herramönnum í þeim grænmetissalasöfnuði, sem kallast „Sænska lærdómslistafélagið“.“ Nokkrum mánuðum síðar hlaut Laxness Nóbelsverðlaunin.

Athugasemdir og leiðréttingar vel þegnar

Hannes H. Gissurarson

hannesgi@hi.is