Friðrik J. Arngrímsson
Friðrik J. Arngrímsson
Eftir Friðrik J. Arngrímsson: "Það er því mikilvægt fyrir okkur að heildarstjórn náist á makrílveiðunum og að þær verði sjálfbærar."
Í dag funda Ísland, Færeyjar, Noregur, ESB og Rússland um stjórn makrílveiða í Norðaustur-Atlantshafi og skiptingu hlutar þeirra á milli. Frá því að göngur makríls í íslensku efnahagslögsöguna jukust verulega á seinnihluta síðasta áratugar hefur makríllinn skipt æ meira máli fyrir efnahag okkar Íslendinga. Á síðasta ári var makríllinn sú fisktegund sem skilaði okkur næstmestu útflutningsverðmæti, aðeins þorskurinn skilaði meiru. Það er því mikilvægt fyrir okkur að heildarstjórn náist á makrílveiðunum og að þær verði sjálfbærar. Hafrannsóknastofnanir Íslands, Færeyja og Noregs hafa áætlað að um 1,1 milljón tonn af makríl hafi gengið í íslensku lögsöguna árið 2010. Það nam um 23% af því sem mældist í rannsóknarleiðangri stofnananna í lögsögum Íslands, Færeyja og Noregs og í Síldarsmugunni, við Jan Mayen og Svalbarða. Sambærilegt magn af makríl mældist í lögsögu Íslands í fyrra.

Ásakanir um óábyrgar veiðar

Evrópusambandið og Noregur hafa tekið sér meira en 90% af ráðlögðum heildarafla í makríl á undanförnum árum, þrátt fyrir að þeim væri ljóst að það leiddi til þess að heildarveiðin yrði langt umfram ráðgjöf. Síðan hafa þessir aðilar sakað okkur Íslendinga um óábyrgar veiðar og haft í hótunum. Það var því kaldhæðnislegt að þegar síðasti samningafundur um makrílinn var haldinn stóðu yfir réttarhöld yfir fjölda skoskra makrílskipstjóra vegna stórfelldra landana fram hjá vigt. Þá iðju höfðu þeir og kollegar þeirra, í þeim löndum sem nú telja sig þess umkomin að úthrópa veiðar okkar, stundað um langt árabil án þess að stjórnvöld gripu í taumana.

Það er áhugavert að setja hugmyndir ESB um hlut Íslands í makrílnum í samhengi við það sem sambandinu þykir hæfilegur hlutur þess í norsk-íslensku síldinni og úthafskarfanum. Þrátt fyrir að við hefðum veitt um 32 þúsund tonn af makríl í íslensku lögsögunni 2007, tæp 110 þúsund tonn árið 2008 og rúm 112 þúsund tonn árið 2009, neitaði ESB að viðurkenna Ísland sem strandríki. Það var ekki fyrr en árið 2010 sem ESB viðurkenndi hið augljósa. Á fundi sem haldinn var á Írlandi í desember 2011 þótti sambandinu hæfa að hlutur Íslands yrði 6,5%. Það er nánast sami hlutur og ESB hefur í norsk-íslensku síldinni sem er 6,51%, en engin norsk-íslensk síld er í lögsögu ESB. Enn áhugaverðara er að bera þetta saman við það sem ESB þykir hæfa sem hlutur sambandsins í úthafskarfanum. Eftir margra ára þjark náðist í fyrra samkomulag þar sem ESB fékk 15,45% af úthafskarfanum í sinn hlut. Ekki þarf að hafa mörg orð um úthafskarfa í lögsögu ESB enda kemur hann þar hvergi nærri.

Hlutur Íslands 16-17% af heildarveiði

Réttur okkar Íslendinga til að veiða makríl í lögsögu okkar byggist á sömu forsendum og réttur Norðmanna og ESB til veiða í sínum lögsögum. Við höfum hvatt til þess að dregið verði úr heildarveiði og veitt samkvæmt vísindaráðgjöf. Á undanförnum árum höfum við miðað við að hlutur Íslands í heildarveiðinni sé á bilinu 16-17%.

Í krafti þess að við erum sjálfstætt fullvalda ríki og förum sjálf með forræði samninga um deilistofna getur ESB ekki skammtað okkur makríl úr hnefa sínum.

Höfundur er framkvæmdastjóri LÍÚ.