27. mars 2012 | Menningarlíf | 290 orð | 1 mynd

Röggvarfeldur í fortíð og nútíð

• Hádegisfyrirlestur í Þjóðminjasafni Íslands

Gervisauðskinn Hildur í röggvarfeldi sem hún óf sjálf.
Gervisauðskinn Hildur í röggvarfeldi sem hún óf sjálf.
„Röggvarfeldurinn, flík og ábreiða, í fortíð og nútíð“ nefnist hádegisfyrirlestur sem Hildur Hákonardóttir heldur í Þjóðminjasafni Íslands í dag kl. 12.05. Þar mun hún rekja upphaf feldarins, blómatíð og afdrif.
„Röggvarfeldurinn, flík og ábreiða, í fortíð og nútíð“ nefnist hádegisfyrirlestur sem Hildur Hákonardóttir heldur í Þjóðminjasafni Íslands í dag kl. 12.05. Þar mun hún rekja upphaf feldarins, blómatíð og afdrif. „Röggvarfeldir hafa fylgt mannkyninu frá örófi alda. Þetta er ofin ullarflík sem verður til áður en við förum að sníða til fötin. Hann er í raun og veru gervisauðskinn, en mun mýkri og meðfærilegri en skinnflíkur,“ segir Hildur.

Að sögn Hildar telja sagnfræðingar að röggvarfeldir hafi verið aðalútflutningsvara Íslendinga á þjóðveldisöld, en að vaðmálið hafi leyst feldina af hólmi í kringum 1100. „Feldurinn er ein af grunngerðum fatnaðar og því lífseigur. Raunar má enn finna afleiddar gerðir hans í nokkrum löndum,“ segir Hildur og bendir sem dæmi á að hægt sé að kaupa röggvarfeldi á uppboðsvefjum á netinu.

Aðspurð hvernig áhugi hennar á röggvarfeldum sé tilkominn segir Hildur að Björn Th. Björnsson listfræðingur hafi sagt svo skemmtilega frá bæði feldinum og kljásteinavefstaðnum þegar hann kenndi henni textílsögu í Myndlista- og handíðaskólanum fyrir um fimmtíu árum. „Hann sáði þarna fræi sem loks hafði tækifæri til að blómstra þegar ég hætti að vinna og ég lét það eftir mér að prófa að vefa röggvarfeld,“ segir Hildur og tekur fram að í gömlum lagatextum sé hægt að finna upplýsingar um stærð og gerð feldarins, en feldirnir voru utanyfirflíkur sem ofnar voru í stærðinni einn sinnum tveir metrar og einvörðungu bornir af karlmönnum.

Að sögn Hildar hefur áhuginn á kljásteinavefstaðnum aukist í mörgum löndum undanfarið samfara því að konur hafa snúið sér í auknum mæli að rannsóknum á fornum vefnaði og textílfræðum. Við rannsóknir sínar á röggvarfeldinum hefur Hildur unnið í náinni samvinnu við konur frá Noregi og Hjaltlandseyjum sem búa yfir þekkingu á verklaginu sem til þarf til að vefa slíkan feld.

silja@mbl.is

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.