Konráð Gíslason, málfræðingur og Fjölnismaður, fæddist 3. júlí 1808 á Löngumýri í Skagafirði. Hann var elsta barn hjónanna Gísla Konráðssonar sagnaritara og Efemíu Benediktsdóttur. Konráð fékk tilsögn frá föður sínum og séra Jóni Konráðssyni.

Konráð Gíslason, málfræðingur og Fjölnismaður, fæddist 3. júlí 1808 á Löngumýri í Skagafirði. Hann var elsta barn hjónanna Gísla Konráðssonar sagnaritara og Efemíu Benediktsdóttur.

Konráð fékk tilsögn frá föður sínum og séra Jóni Konráðssyni. Við átján ára aldur fór hann suður til sjóróðra og vann um sumarið fyrir Hallgrím Scheving, kennara við Bessastaðaskóla. Hallgrímur kom auga á námshæfileika hans og veitti honum styrk til skólagöngu í Bessastaðaskóla.

Vorið 1831 lauk Konráð námi, sigldi til náms við Kaupmannahafnarháskóla um haustið að nema lögfræði. Fljótlega náði áhugi hans á norrænum fræðum og íslenskri tungu yfirhöndinni.

Árið 1834 stofnaði Konráð tímaritið Fjölni ásamt skólafélögum sínum úr Bessastaðaskóla og Höfn, þeim Jónasi Hallgrímssyni, Brynjólfi Péturssyni og Tómas Sæmundssyni. Fyrsta tölublaðið leit dagsins ljós árið eftir.

Konráð var mikilvirkur málfræðingur og brautryðjandi á sviði rannsókna á íslenskri tungu. Hann hafði mikil áhrif á íslenskt ritmál og reyndi meðal annars að laga íslenska stafsetningu að framburði og reyndi að innleiða nýja stafsetningu í öðrum árgangi Fjölnis.

Árið 1839 var hann styrkþegi Árnastofnunnar og vann að orðabókargerð og rannsóknum á íslensku máli. Hann setti saman Danska orðabók, 1851 og átti stóran þátt í íslensk-enskri orðabók sem kennd er við R. Cleasby og Guðbrand Vigfússon. Hann rannsakaði fornmálið og gerði fyrstur grein fyrir muninum á íslensku fornmáli og nútímamáli og birti niðurstöður sínar í ritinu „Um frumparta íslenzkrar túngu í fornöld“ (1846). Konráð gaf út m.a. út Njálu (1875-1889) þar sem hann valdi saman texta úr ólíkum handritum.

Hann var kennari í norrænum fræðum við Kaupmannahafnarháskóla og prófessor 1853.

Konráð lést 4. janúar 1891.