Kenning Charles Darwins um, að menn væru af sama stofni og apar og hefðu þróast eftir náttúruvali, kom róti á huga margra. Skáldin nýttu sér að sjálfsögðu þróunarkenningu Darwins í ádeilur.

Kenning Charles Darwins um, að menn væru af sama stofni og apar og hefðu þróast eftir náttúruvali, kom róti á huga margra. Skáldin nýttu sér að sjálfsögðu þróunarkenningu Darwins í ádeilur. Þýski rithöfundurinn Wilhelm Busch, sem uppi var 1832-1908, kvað til dæmis:

Þeir sátu að drykkju og deildu hátt

á Darwins þróunarfræðin öll:

Slíkar hugmyndir næðu engri átt,

svo að ekki sé talað um mennskuspjöll.

Þeir drukku lengi og drukku stórum,

dálítið reikulir kvöddust hér,

og dæstu þungt, er þeir fóru á fjórum

fótum upp stigana heima hjá sér.

Ekki hefur mér tekist að finna þýðandann, en á þýsku kom kvæðið út í Kritik der Herzen 1874.

Einar H. Kvaran notaði svipaða hugmynd í svari til manns, sem andmælti þróunarkenningunni:

Þú segir, allt sé orðið vesalt þá,

ef ættargöfgi vorri þannig töpum.

Hitt er þó miklu verri sjón að sjá,

er synir manna verða'að heimskum öpum.

Einar orti raunar líka vísu, eftir að honum hafði sinnast við Boga Th. Melsteð sagnfræðing:

Illt var ei Darwin auðnaðist

á þér skoltinn, Borgi, að kanna.

Þá hefði sönnun fengist fyrst

fyrir skyldleika apa og manna.

Athugasemdir og leiðréttingar vel þegnar

Hannes H. Gissurarson

hannesgi@hi.is